Hér fara á eftir gildandi siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Þær voru samþykktar á aðalfundi félagsins árið 1991. "Í starfi sínu hafa blaðamenn allra fjölmiðla jafnan í huga grundvallarreglur mannlegra samskipta og rétt almennings til upplýsinga, tjáningarfrelsis og gagnrýni. 1. grein.

Siðareglur Blaðamannafélags Íslands

Hér fara á eftir gildandi siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Þær voru samþykktar á aðalfundi félagsins árið 1991.

"Í starfi sínu hafa blaðamenn allra fjölmiðla jafnan í huga grundvallarreglur mannlegra samskipta og rétt almennings til upplýsinga, tjáningarfrelsis og gagnrýni.

1. grein. Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir sétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.

2. grein. Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu. Blaðamaður virðir nauðsynlegan trúnað við heimildarmenn sína.

3. grein. Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

4. grein. Það telst mjög alvarlegt brot þiggi blaðmaður mútur eða hafi í hótunum vegna birtingar efnis. Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstaklega hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar. Í frásögnum af dóms- og refismálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

5. grein. Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns. Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli. Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.

6. grein . Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ innan 2ja mánaða frá birtingu enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir almennum dómstólum á sama tíma. Áður skal hann þó leita undanþágu frá leiðréttingarkröfum vegna annarra aðstæðna. Siðanefndin tekur kæruna fyrir á fundi innan viku og kveður upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er. Taki Siðanefnd kærumál til efnislegrar athugunar skal hún kanna heildarumfjöllun um málið á hinum kærða fjölmiðli. Kærða skal gefinn kostur á að gera grein fyrir sjónarmiði sínu. Siðanefnd greinir brot í flokka eftir eðli þeirra: a) ámælisvert b) alvarlegt c) mjög alvarlegt Úrskurði Siðanefndar verður ekki áfrýjað. Úrskurð Siðanefndar ásamt rökstuðningi skal birta í heild í Félagstíðindum BÍ svo fljótt sem verða má. Úrskurð Siðanefndar skal senda viðkomandi fjölmiðli við fyrstu hentugleika og með ósk um birtingu ef um brot samkv. skilgreiningu b) og c) er að ræða. Þremur dögum seinna skal senda úrskurðinn öðrum fjölmiðlum. Meginniðurstaða nefndarinnar skal birt orðrétt. Við framsetningu fréttar af úrskurðum Siðanefndar sýna blaðamenn alla þá aðgát sem reglur þessar ætlast til sbr. 1. og 2. grein að framan. Nú telur stjórn BÍ að gengnum úrskurði Siðanefndar að brot sé svo alvarlegt að frekari ráðstafana sé þörf og getur hún þá borið undir félagsfund tillögu um vítur á viðkomandi blaðamann enda sé þeirrar ætlunar getið í fundarboði. Nú bera ummæli ekki með sér hver sé höfundur þeirra eða viðkomandi blaðamaður er utan BÍ og gengur þá úrskurður svo sem ritstjóri og/eða ábyrgðarmaður eigi beina aðild að. Þótt enginn þessara aðila sé í BÍ getur Siðanefnd allt að einu lagt fram rökstutt álit um kæruefni."