23. nóvember 1997 | Sunnudagsblað | 3047 orð

Gosið í Gjálp og myndun móbergsfjalla Þegar eldsumbrotum í Vatnajökli og hlaupinu í kjölfarið lauk höfðu jarðvísindamennirnir

GOSIÐ í Gjálp á síðasta ári er einstætt í sinni röð. Í fyrsta skipti gafst jarðvísindamönnum færi á að fylgjast með átökum elds og íss og myndun móbergsfjalls inni í stórum jökli. Gosið hófst að

Gosið í Gjálp

og myndun

móbergsfjalla

Þegar eldsumbrotum í Vatnajökli og hlaupinu í kjölfarið lauk höfðu jarðvísindamennirnir Magnús Tumi Guðmundsson , Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson í höndum ómetanleg gögn um hegðun eldgoss inni í jökli, þau fyrstu sem fengist hafa. Þeir hafa talið það skyldu sína að greina frá niðurstöðum í heimi vísindanna og í þeim tilgangi birtist fyrir skömmu grein í vísindatímaritinu Nature. Hér kemur meginefni hennar fyrir augu íslenskra lesenda.

GOSIÐ í Gjálp á síðasta ári er einstætt í sinni röð. Í fyrsta skipti gafst jarðvísindamönnum færi á að fylgjast með átökum elds og íss og myndun móbergsfjalls inni í stórum jökli. Gosið hófst að kvöldi 30. september og á þeim 13 dögum sem gosið stóð bráðnuðu um 3 rúmkílómetrar íss. Á meðan myndaðist allt að 350 m hár og 6-7 km langur móbergshryggur inni í jöklinum. Volgt bræðsluvatn rann frá gosstöðvunum og safnaðist fyrir í Grímsvötnum þar til þau hlupu 4.-6. nóvember. Af gosinu má ýmsa lærdóma draga um myndun móbergsfjalla og áhrif eldgosa á stöðugleika jökla, m.a. um hugsanleg áhrif eldgosa á stærstu jökulbreiðu jarðar á Suðurskautslandinu.

Inngangur

Móbergsfjöll eru áberandi á Íslandi og á stórum svæðum er landslagið fyrst og fremst mótað af móbergshryggjum og stöpum. Allir þekkja móbergsstapann Herðubreið og meðal kunnuglegra fjalla í nágrenni Reykjavíkur eru Bláfjöllin, en þau eru móbergshryggur sem talinn er hafa myndast við gos undir ísaldarjökli. En þó að stór hluti landslags á Íslandi hafi orðið til við eldgos undir jöklum höfðu jarðvísindamenn ekki fylgst áður með slíku gosi á þann hátt sem unnt var síðastliðið haust. Við Kötlugosið 1918 voru engir starfandi jarðvísindamenn í landinu og við gos á Grímsvatnasvæðinu á 3. og 4. áratugnum voru aðstaða og mannafli lítil, svæðið var óþekkt, flugið var á sínu bernskuskeiði og því erfitt um vik að fylgjast með gosunum. Þó hafa athuganir frumkvöðlanna Jóhannesar Áskelssonar, Danans Niels Nielsen, Pálma Hannessonar, Sigurðar Þórarinssonar og Steinþórs Sigurðssonar reynst ómetanlegar í ljósi síðari tíma vitneskju. Kort, lýsingar og ljósmyndir frá þessum frumkvöðlum voru sá efniviður sem lagður var til grundvallar við nýlega rannsókn á gosinu 1938, en það orsakaði síðasta stóra Grímsvatnahlaupið fram til 1996.

Skilningur á atburðarásinni á síðasta ári byggðist einkum á tvennu: Annarsvegar á vitneskju sem fengist hafði með könnun á þeim brotakenndu gögnum sem til voru um gosið 1938 og hins vegar á kortlagningu jökulyfirborðs og botnlandslags á Vatnajökli. Sú kortlagning er afrakstur íssjármælinga Raunvísindastofnunar og Landsvirkjunar síðustu 17 ár. Kortin og fræðileg þekking um eðli vatnsrennslis undir jökli hafa verið notuð til að staðsetja vatnaskil í jöklinum en lega þeirra segir til um hvert bræðsluvatn muni renna þegar gos verður.

Að morgni 29. september 1996 hófst óvenjuleg jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Jarðskjálftafræðingar á Raunvísindastofnun, vopnaðir marga ára reynslu af Kröflueldum, spáðu því að gos gæti verið í aðsigi. Stóð hrinan fram á kvöld þann 30. september en þá dró skyndilega úr skjálftum en stöðugur órói hófst. Markaði óróinn upphaf gossins. Gefin var út viðvörun um hugsanlegt yfirvofandi gos í kvöldfréttum þann 30. september. Gosstöðvarnar voru staðsettar morguninn eftir þegar Reynir Ragnarsson lögreglumaður í Vík flaug fyrstur manna yfir jökulinn. Tilkynnti hann að ný ketilsig væru að myndast austan Skaftárkatla.

Frá fyrsta degi gossins fylgdumst við með því í daglegum flugferðum sem skiluðu miklum árangri þrátt fyrir misjafnt veður á köflum. Skipti þar sköpum að í eftirlitið var notuð öflug og vel búin flugvél undir öruggri stjórn Snæbjörns Guðbjörnssonar og annarra flugmanna Flugmálastjórnar. Radarhæðarmælir vélarinnar reyndist notadrýgsta tækið og á nokkrum dögum lærðum við að nýta hæðarmælinn til að skoða umfang og dýpi sigkatla og mæla yfirborð Grímsvatna. Aðaltilgangur ferðanna var að meta atburðarásina á degi hverjum vegna hættu á jökulhlaupi. Áhersla var lögð á að kanna hver væri hraði vatnssöfnunar í Grímsvötnum, hvort hlaup væri að hefjast úr Grímsvötnum og hvort gosið næði inn á vatnasvið Jökulsár á Fjöllum. Hefði það gerst, gæti bræðsluvatn hafa hlaupið til norðurs. Þar til Grímsvatnahlaupið mikla var afstaðið í nóvember var vinna okkar helguð þessum áhættuþáttum. En þegar upp var staðið höfðum við í höndum ómetanleg gögn um hegðun eldgoss inni í jökli, þau fyrstu sem fengist hafa. Það var því okkar skylda að greina frá niðurstöðum í heimi vísindanna og í þeim tilgangi birtist fyrir skömmu grein í vísindatímaritinu Nature. Hér gerum við grein fyrir helstu niðurstöðum sem í greininni birtast.

Gangur gossins

Fyrsta daginn gaus á 3-4 km langri sprungu með stefnu norðnorðaustur-suðsuðvestur. Sprungan lá ofaná fjallshrygg í botni jökulsins, en sá hryggur er talinn hafa myndast í gosinu vorið 1938. Ísþykkt yfir hryggnum fyrir gosið var 450-600 m. Fyrsta gosdaginn (1. október) höfðu tveir katlar myndast yfir gossprungunni og grunn dæld í jökulyfirborðið markaði rennslisleið bræðsluvatnsins niður til Grímsvatna. Af sprungum á íshellu Grímsvatna mátti ráða að vatnsborð þeirra reis hratt. Í nyrðri katlinum náði gosið upp úr jöklinum snemma morguns 2. október og hófst þá öskufall á jöklinn norður af gosstöðvunum. Þennan dag lengdist sprungan einnig um 3 km til norðurs og varð þar mjög kröftugt gos í 2-3 sólarhringa, undir 700-800 m þykkum jökli.

Kraftur gossins var mestur fyrstu 4 dagana en á þeim tíma bræddi það um 0,5 km af ís á dag, svipað og jarðhitasvæðið í Grímsvötnum bræðir á tveimur árum! Gosmökkurinn náði oftast í 4-5 km hæð; hæst fór hann í 9 km hæð í hægviðri fyrri hluta dags þann 3. október. Öskufalls gætti svo til allstaðar á jöklinum en lítið utan hans. Athyglisvert er að þrátt fyrir að Gjálpargosið sé með stærri gosum á 20. öld á Íslandi, er rúmmál ösku sem barst upp á yfirborð jökulsins lítið, varla meira en 1-2% af heildarmagni efnis sem upp kom í gosinu. Svo til allt efnið storknaði og varð eftir undir jöklinum og myndar þar nú fjallshrygg á botni hans.

Dagana 4.-9. október sást svo til ekkert til gosstöðvanna. En undir lok gossins kom í ljós að ískatlarnir höfðu runnið saman og myndað hina furðulegu ísgjá, 3,5 km langa og 200-500 m breiða, með 50-100 m háum íshömrum. Vatn rann í hægum straumi suður eftir gjánni og niður í jökulinn við enda hennar. Þann 11. október fór að draga niður í gosinu og síðast sást til þess þann 13. október en talið er að gosinu hafi lokið þá um kvöldið. Hægt var að meta magn gosefna út frá bræðslu íss og áætlum við rúmmál þeirra 0,7-0,75 km sem samsvarar 0,4 km af þéttu bergi. Gjálpargosið er að líkindum stærsta eldgos í Vatnajökli á þessari öld.

Efalaust rekur marga minni til að hlaupi var spáð úr Grímsvötnum meðan á gosinu stóð. Svo fór þó ekki heldur kom hlaupið nokkrum vikum seinna. Fyrstu dagana var gosið kraftmikið og bræðsla íss mjög hröð. Á 3ja gosdegi kom í ljós að Grímsvötn voru komin yfir hæstu áður þekkta vatnshæð. Dregin var sú ályktun að hlaup hæfist því í síðasta lagi þegar ísstíflan austan þeirra flyti upp. Hefði ísbræðsla haldið áfram með sama hraða og verið hafði fyrstu fjóra dagana, hefði ísstíflan flotið upp og hlaup orðið 6. eða 7. október. Þess í stað dró mjög úr krafti gossins þann 5. október og Grímsvötn fylltust á 5 vikum, ekki 6 dögum eins og leit út fyrir í fyrstu.

Ísbræðsla og hiti bræðsluvatns

Í sjó eða undir jöklum hefur vatn mikil áhrif á hegðun eldgosa. Bæði kælir vatnið gosefnin mun hraðar en gerist undir beru lofti og einnig hefur þungi vatnssúlunnar áhrif. Við þessar aðstæður getur gosvirknin verið með tvennum hætti: Í fyrsta lagi er myndun bólstrabergs en þá vellur kvikan upp án sprenginga eins og tannkrem úr túpu, skel myndast á bólstrunum sem hlaðast upp í hauga. Bólstraberg er algengt hér á landi. Í öðru lagi getur kvikan tvístrast í gler (ösku) og hlaðast þá upp gjóskuhaugar yfir gosrásinni. Að öðru jöfnu er talið að bólstraberg myndist á miklu dýpi en tvístrun og sprengivirkni á litlu dýpi. Samanburður við mælingar á hraða kælingar bólstrabergs á Hawaii og víðar sýnir að kælingin í Gjálp var a.m.k. tífalt hraðari. Þetta staðfestir að í Gjálpargosinu var tvístrun kvikunnar og tilheyrandi sprengivirkni ráðandi. Ljóst er að átökin milli íss og elds hafa verið óskapleg. Volgt vatnið blandað ösku hefur hrærst með miklum iðuköstum milli kvikunnar og íssins.

Sagan segir að jökulhlaup samfara eldgosum bæði í Kötlu og Vatnajökli séu oftast mjög snögg og að sama skapi hættuleg. Í Gjálpargosinu kom í ljós að bræðsluvatnið var 15-20 C heitt þegar það rann af stað frá gosstöðvunum. Svo heitt bræðsluvatn á mun auðveldara með að gera sér göng undir jöklinum en vatn sem er við frostmark. Hinn hái hiti flýtti því stórlega för vatnsins niður til Grímsvatna og átti einnig þátt í að gera Grímsvatnahlaupið jafn snöggt og raun bar vitni. Svipað hefur líklega gerst í Kötluhlaupum og hlaupum sem fylgt hafa gosum í Öræfajökli.

Myndun móbergsfjalla

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur setti fram kenningu um myndun móbergsfjalla árið 1943. Fjórum árum síðar setti Kanadamaðurinn Mathews fram samskonar kenningu eftir rannsóknir á stöpum í norðurhluta Kanada. Vissi hvorugur af verkum hins fyrr en síðar. Fyrir þennan tíma höfðu margir jarðfræðingar brotið heilann um myndun stapanna, og voru flestir á því að þeir væru annaðhvort myndaðir við að fjöllin hefðu ýst upp yfir landið í kring eða að landið umhverfis hefði sigið. Guðmundur sýndi fram á að líklegasta skýringin væri sú, að þessi fjöll hefðu myndast við gos inni í ísaldarjöklinum. Neðst í stöpunum er oftast bólstraberg myndað í gosi undir þykkum jökli eða í vatni. Ofan á því er móberg, myndað við tvístrun kvikunnar og sprengivirkni þegar vatnsþrýstingur yfir gosstöðinni varð minni. Að ofan eru stapar krýndir hraunlögum sem augljóslega hafa runnið undir berum himni. Í Surtseyjargosinu myndaðist stapi og varð Guðmundur þeirrar ánægju aðnjótandi að náttúran sannaði kenningu hans, a.m.k. hvað það varðar að stapar geti myndast í sjó.

Í Gjálpargosinu myndaðist ekki stapi heldur hryggur. Hryggurinn rís hæst í 1550 m hæð yfir sjó og í júnímánuði síðastliðnum var hægt að kanna hæsta kollinn þar sem hann gægðist upp úr jöklinum á botni ísgjárinnar. Hann er gerður úr gjósku sem sýndi töluverð merki um að hún væri farin að ummyndast í móberg. Fyrir Surtseyjargosið var talið að móberg myndaðist á löngum tíma, öldum eða árþúsundum. Annað kom á daginn, stór partur Surtseyjar er nú orðinn að móbergi, og var reyndar kominn vel á veg nokkrum árum eftir gosið.

Í Gjálpargosinu hlóðust gosefnin upp jafnharðan og jökullinn bráðnaði. Kvika getur brætt u.þ.b. tífalt rúmmál sitt af ís, en þegar kvikan tvístrast og verður að gjósku eru rúmmálshlutföll gjósku og íss 1/4 til 1/5. Vegna rúmmálsmunarins gerist hvorttveggja að sigkatlar myndast á yfirborði jökulsins og fjall hleðst upp undir ísnum. Í gosinu nú rann bræðsluvatnið jafnharðan burtu en gosefnin fylltu upp í rýmið sem myndaðist undir jöklinum. Jökulinn verkaði eins og mót sem hélt að gosefnahaugnum. Þetta er í samræmi við hugmyndir Guðmundar Kjartanssonar. Ísinn skríður inn að haugnum og vegur þannig að nokkru upp á móti þeim ís sem bráðnar. Þetta aðhald íssins þýðir að hryggir og stapar myndaðir inni í jöklum eru líklega brattari og minni um sig en samskonar fjöll, mynduð við gos í sjó eða vatni.

Sambýli elds og íss

Fyrst þegar ísgjáin kom í ljós leit út fyrir að gosið hefði brætt af sér jökulinn eftir henni endilangri. Vatn huldi botninn hvarvetna nema gígbarmana norðantil. Hélst svo fyrstu dagana eftir að gosinu lauk. Furðulegt þótti okkur þó að þann 17. október, aðeins fjórum dögum eftir að gosinu lauk, voru gígrimarnir orðnir kaldir; þeir voru gráir af snjó. Í lok október gerði kulda og stillu eftir nokkurra daga umhleypinga og 28. október var fyrst flogið á þyrlu eftir gjánni og lent á barmi hennar. Þá hafði vatnsborð lækkað töluvert og þá kom hið sanna í ljós: Gosið hafði ekki brætt sig í gegnum jökulinn nema í sjálfu gígopinu. Annarstaðar var jökulís í botni gjárinnar. Gígurinn var svo til horfinn og leifarnar af börmunum sýndu svart á hvítu að hann hafði að mestu verið úr ís. Aðeins þunn kápa af ösku hafði þakið barmana.

Myndun gígopsins gegnum jökulinn sýndi að nábýli gosrásarinnar og jökulíssins getur verið nánara en nokkurn hafði órað fyrir. Á fyrstu 30 klukkustundum gossins braut það sér leið uppúr jöklinum: Miðja ketilsins brotnaði frá og seig eins og tappi niður á gjósandi gíginn. Gosið bræddi ístappann og náði til yfirborðs þegar hann var horfinn. Þá tók gjáin að myndast: Við sprengingar í gígnum lögðust heit gosefni á jökulísinn og bræddu ísinn á yfirborðinu næst gígnum. Askan lagðist á botninn umhverfis og myndaði einangrandi kápu sem hindraði bráðnun niðurávið. Til varð flatur stallur í ísinn umhverfis gígopið, þakinn gjósku en umlukinn lóðréttum ísveggjum. Þegar gosefnin náðu að bræða haftið milli gígsins og syðsta ketilsins var gjáin orðin til.

Gígopið gegnum jökulinn var varla meira en 200-300 m á vídd. Hélst það svipað meðan á gosinu stóð, þrátt fyrir ákaft gos mestallan tímann. Svo virðist sem flæði íss inn að gígnum hafi vegið upp á móti bræðslu í gígveggjunum.

Í nýútkominni bók eftir Hjörleif Guttormsson og Odd Sigurðsson gengur aftur fyrri misskilningur og sett fram sú mynd að gosið hafi brætt af sér jökulinn eftir endilangri gjánni. Þetta var skoðun okkar í fyrstu og greindum við frá henni í fjölmiðlum, m.a. birtust teikningar í Morgunblaðinu, gerðar eftir forskrift eins okkar (MTG). Snið af gosstöðvunum í bók Hjörleifs og Odds eru gerð eftir þeim myndum. Eftir flugið 28. október gerðum við hvað við gátum til að leiðrétta fyrri misskilning, m.a. með leiðréttum útgáfum af sniðunum (sjá sniðmynd), sem m.a. birtust í skýrslu Vegagerðarinnar um gos og hlaup. Það er mjög bagalegt að sjá þennan draug ganga aftur á prenti, sérstaklega vegna þess að hið þrönga gosop og myndun gígs með ísbarma var ein af óvæntustu nýjungunum sem í ljós komu í gosinu.

Myndun stapa

Hvað segir Gjálpargosið okkur um myndun móbergsstapa? Samfellt gos upp um þröngt op í jökulinn sýnir að tiltölulega skammvinnt gos, þótt kröftugt sé, getur ekki myndað móbergsstapa inni í stórum jökli. Þau gos sem mynduðu stapa eins og Herðubreið, Hlöðufell og Skriðuna hafa brætt göt í jökulinn sem voru nokkrir kílómetrar í þvermál, a.m.k. tífalt þvermál opsins sem myndaðist í Gjálp. Ljóst er að aðeins mjög langvinn gos, eða endurtekin gosvirkni á sama stað, getur búið til nægilega víðáttumikil göt á ísþekjuna. Þá getur verið að myndun bólstrabergs í upphafi gosa hafi haft áhrif. Bólstraberg gefur varma mun hægar frá sér og gæti það leitt til bræðslu íss yfir stærra svæði á lengri tíma. Ekki er loku fyrir það skotið að stapi myndist í Gjálp er tímar líða. Þar hefur gosið a.m.k. einu sinni áður (1938) og ekkert því til fyrirstöðu gosið geti aftur síðar.

Áhrif eldgosa á stöðugleika jökla

Þegar fréttir af gosinu í Vatnajökli bárust, sperrtu eyrun ýmsir vísindamenn sem starfað hafa að rannsóknum á Suðurskautslandinu. Undir vesturhluta Suðurskautsjökulsins eru mörg útkulnuð eldfjöll og vísbendingar um nýlega eldvirkni og jarðhita undir jöklinum hafa fundist. Á Suðurskautslandinu er einnig syðsta virka eldfjall jarðar, Erebus. Á síðustu árum hafa komið fram hugmyndir um að eldvirkni geti haft áhrif á stöðugleika Suðurskautsjökulsins, en getgátur eru um að vesturhluti hans hafi horfið snögglega á síðustu ármilljónum. Ef slíkt gerðist nú myndi sjávarborð hækka um nokkra metra og gætu sum þéttbýlustu svæði jarðar orðið óbyggileg í kjölfarið. Gjálpargosið sýndi hvað gerist í eldgosi undir stórum jökli. Þegar ísinn bráðnar og vatnið rennur burtu reynir jökullinn að fylla upp í dældina sem myndast í yfirborðið. Má líkja flæði hans við skyr á diski þegar tekin er væn skeið innan úr miðjunni. Flæði íssins verður því hraðara sem ketillinn er dýpri og að lokum getur komist á jafnvægi milli ísflæðis og bráðnunar. Þá dýpkar ketillinn ekki lengur heldur víkkar. Áhrifasvæði gossins í jöklinum afmarkast af sigkatlinum sjálfum. Annarstaðar gætir áhrifa gossins lítið, flæði jökulsins helst þar óbreytt. Gjálpargosið bendir því til að áhrif eldgosa á þíðjökla séu fyrst og fremst staðbundin og valdi ekki framhlaupum og óstöðugleika sem stofnað geta framtíð heilu jöklanna í hættu. Niðurstöður okkar af rannsóknum á áhrifum gossins á stöðugleika jökla eru því mikilvægt framlag til umræðu almennt um áhrif eldgosa á jökla. Sé sú niðurstaða algild fyrir jökla mætti álykta að óstöðugleiki í stórum meginlandsjöklum á síðustu ármilljónum eigi sér aðrar skýringar en eldvirkni. Frekari rannsóknir munu nú beinast að því hvort sá munur sem er á Vatnajökli og ísbreiðu Suðurskautslandsins, sem sumstaðar er frosin við botninn, geti valdið mismunandi viðbrögðum við eldgosum.

Lokaorð

Rannsóknum og eftirliti með Gjálp og Grímsvötnum er ekki lokið. Á næstu árum verður reynt að fylgjast með hvernig fjallið nýja breytist og ummyndast yfir í móbergshrygg. Miklar breytingar hafa orðið á jöklinum milli Bárðarbungu og Grímsvatna og mun það taka jökulinn 20-30 ár að ná að fullu fyrri lögun, jafnvel þótt engin frekari eldvirkni verði á svæðinu. Mikið rask á jöklinum austan Grímsvatna hefur til skemmri tíma stórlega breytt hegðun vatnanna. Er óljóst hvenær Grímsvötn geta aftur farið að safna vatni að ráði og valda venjulegum Skeiðarárhlaupum. Á næstu árum verður fylgst með breytingum í jöklinum svo að á hverjum tíma sé vitað hvar vatnaskil liggja. Það er forsenda þess að hægt verði að segja með einhverju öryggi um rennslisleiðir jökulhlaupa næst þegar dregur til tíðinda í vesturhluta Vatnajökuls.

Magnús Tumi er dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, Freysteinn jarðeðlisfræðingur á Norrænu eldfjallastöðinni og Helgi jarðeðlisfræðingur á Raunvísindastofnun Háskólans og prófessor í jöklafræði við Oslóarháskóla.EFRI myndin sýnir kort af dældunum yfir gossprungunni og hvernig hún breyttist með tíma. Á neðri myndinni eru stílfærð snið sem sýna myndun fjallshryggsins og ísgjárinnar auk vatnssöfnunar í Grímsvötnum til gosloka.

HIN geysihraða ísbráðnun samfara gosinu. Heildarbráðnun fyrstu 4 dagana var tvöfalt meiri en varð næstu 4 vikur. Línuritið til hægri sýnir bráðnunarhraða og afl gossins. Afl 1000 Búrfellsvirkjana er sýnt til samanburðar.

EITT af því sem mest kom á óvart var hversu lítið gat gosið bræddi gegnum ísinn. Myndröðin sýnir hvernig gosið bræddi sig í gegnum jökulinn en gatið hélst þröngt vegna þess að flæði íssins inn að gígnum bætti upp það sem eldgosið bræddi.

Ljósmynd/Snæbjörn Guðbjörnsson. GOSSTÖÐVAR 15. október 1996, skömmu eftir goslok. Gígur stendur upp úr vatni í ísgjánni. Þrátt fyrir ösku á yfirborði var gígurinn að mestu úr ís. Ef vel er að gáð má greina ís neðst í börmum hans. Gígurinn féll fljótlega saman og hvarf að mestu.Ljósmynd FS. KRAFTMIKIÐ öskugos að morgni 2. október, skömmu eftir að gosið hafði brætt sig í gegnum 500 metra þykkan jökulís á 30 klukkustundum. Öskusprengingar ná í um 500-1000 metra hæð yfir jökul og mökkur fínni ösku og gufu stígur hærra.

Grein þremenninganna um gosið í Gjálp var forsíðugrein hins virta vísindarits Nature hinn 30. október.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.