28. nóvember 1997 | Íþróttir | 833 orð

Möguleikinn á sæti í lokakeppni Evrópumótsins orðinn lítill eftir þriggja marka tap fyrir Júgóslövum í Laugardalshöll

Þegar vonin ein er eftir

VONBRIGÐI. "Strákarnir okkar" sem skemmtu þjóðinni í hálfan mánuð á vordögum þegar þeir léku á heimsmeistaramótinu í Japan, fjarri ættjörð sinni, með hverjum stórleiknum á fætur öðrum, leikgleði baráttu og einstökum sigurvilja öllu þjóðinni vonbrigðum í gærkvöldi. Nú leikandi á ættjörð sinni, fyrir framan forsetann og þjóð sína, náðist aldrei að kveikja það bál sem logaði glatt á borginni
HANDKNATTLEIKUR Möguleikinn á sæti í lokakeppni Evrópumótsins orðinn lítill eftir þriggja marka tap fyrir Júgóslövum í Laugardalshöll

Þegar vonin

ein er eftir VONBRIGÐI. "Strákarnir okkar" sem skemmtu þjóðinni í hálfan mánuð á vordögum þegar þeir léku á heimsmeistaramótinu í Japan, fjarri ættjörð sinni, með hverjum stórleiknum á fætur öðrum, leikgleði baráttu og einstökum sigurvilja öllu þjóðinni vonbrigðum í gærkvöldi. Nú leikandi á ættjörð sinni, fyrir framan forsetann og þjóð sína, náðist aldrei að kveikja það bál sem logaði glatt á borginni Kumamoto. Þjóðin sem fjölmennti til að styðja við bakið á drengjunum í þeirri von um að geta stigið einn gleðidansinn enn í kringum bálköst liðsins varð fyrir vonbrigðum. Leikmenn voru ekki sjálfum sér líkir, þeim tókst aldrei að ógna sterku júgóslavensku landsliði sem dansaði gleðidans í leiksloka að loknum þriggja marka sigri, 24:21. Vonin um aðra handknattleiksveislu annað vorið í röð, er veik, en hún ein er nú eftir.

Greinilegt var strax á upphafs mínútum leiksins að íslenska liðið var ekki eins reiðubúið að tak ast á við erfitt verkefni og það var fyrir tæpum mánuði þegar það mætti Litháen í Hafnarfirði. Reyndar var andstæðingurinn nokkru sterkari nú. Ekki var sami léttleikinn yfir liðinu og þá og vera kann að mikilvægi leiksins hafi þar eitthvað haft að segja, þótt leikmenn eiga að vera vanir að leika undir álagi. Ekki hefði það þó átt að spilla fyrir að 3.400 áhorfendur studdu allir sem einn við bakið á íslenska liðinu. Stuðningurinn var til staðar, en stemmninguna vantaði þar sem hana mátti síst skorta.

Íslenska liðið lék 3-2-1 vörn, sama varnarafbrigði og tókst vel gegn sama liði í Kumamoto á vordögum, en nú voru Júgóslavar vel búnir að mæta því afbrigði. Þeir léku afar hratt og leikmenn hreyfðu sig mikið boltalausir. Þá hafði greinilega verið vel farið yfir markverði íslenska liðsins og markskotunum rétt stýrt á þeirra veikustu staði. Sýndu þeir vel strax hversu vel samæfðu liði þeir hafa á að skipa. Ekkert kom þeim í opna skjöldu heldur í sókn Íslands. Júgóslavar léku lengst af 3-3 vörn sem íslensku sóknarmönnunum gekk illa að finna leiðir framhjá, tækist það hins vegar var markvörðurinn, Dejan Peric, vel á verði og varði vel í dauðafærum. Vörn Júgóslava var mjög kvik og fótvinna leikmanna var eftir öðru í leik þeirra.

Strax í síðari hálfleik breytti Ísland um varnaraðferð og fór í 5-1 sem gekk misjafnlega og með tilkomu Júlíusar Jónassonar á 8. mínútu síðari hálfleiks var enn breytt um, að mestu leikin 6-0 vörn eftir það. Ekki tókst að slá Júgóslava út af laginu. Þeir léku áfram hratt sín á milli allt þar til þeir voru komnir með 3 til 4 marka forskot er líða tók á síðari hálfleik. Þá slógu þeir af, léku lengri sóknir, enda engin ástæða hjá þeim til þess að eyða kröftunum, heldur andæfa og halda fengum hlut, það tókst.

Tapið skrifast þó tæplega á vörnina, heldur var það sóknin sem var slök og fyrir aftan þokkalega vörn var markvarslan afar slök. Sóknarleikurinn gekk aldrei upp og vera kann að fjarvera Dags Sigurðssonar leikstjórnanda hafi leikið stórt hlutverk. Patrekur lék lengst af í því hlutverki og gekk illa, Júlíus átti rispur eftir að hann kom til sögunnar og þá reyndi Konráð að blása lífi í leikinn er líða tók á síðari hálfleik en of seint. Ólafur Stefánsson olli vonbrigðum, var reyndar undir góðu eftirliti, en gerði lítið framan af. Loks er hann fór að reyna snerust vopnin í höndum hans. Hann vann líka nær ekkert fyrir hornamennina, Bjarka og Valdimar.

Ísland komst aldrei yfir í leiknum, nokkrum sinnum tókst að jafna. Júgóslavar höfðu forystuna allan leikinn og það er erfitt að vera alltaf að sækja á, ekki bætir úr skák þegar hraðaupphlaupum og dauðafærum er kastað á glæ.

Eftir tapið í gær og sigur Litháa á Svisslendingum er staðan sú að íslenska liðinu dugir ekkert annað en sigur í síðari leiknum í Svartfjallalandi á sunnudaginn. Er þá gengið út frá því að Litháar leggi Svisslendinga öðru sinni, sem er líklegt því þeir verða á heimavelli. Með íslenskum sigri á sunnudaginn stendur íslenska liðið með pálmann í höndunum, burtséð frá hverjar lyktir verða í Kánas í Litháen. Stórsigurinn á Litháen í Hafnarfirði tryggir það. En til þess að hægt sé að vonast eftir íslenskum sigri á sunnudaginn þarf margt að breytast frá leiknum í kvöld á öllum vígstöðvum íslenska liðsins. Einbeiting, gleði, barátta, útsjónarsemi ásamt hungri í sigur þarf m.a. að vera til staðar. Allt er svo sem hægt, en víst er að "lengri leiðin" til Ítalíu, sem virðist ætla að vera hlutskipti Íslands að þessu sinni, verður þyrnum stráð fyrir framan 10.000 blóðheita stuðningsmenn Júgóslava á sunndaginn. En þegar vonin ein er eftir í íþróttum geta ævintýrin einmitt gerst.

Morgunblaðið/Kristinn Konráð tekinn föstum tökum KONRÁÐ Olavson lék í stöðu leikstjórnanda undir lokinn og strax í fyrstu sókn óð hann inn í vörn Júgóslava þar sem línumaðurinn sterki Dragan Skribic tók hann hálstaki og fékk að launum reisupassann þriðja sinni hjá dómurum leiksins. Félagi Skribic, Rastko Stefanovic fylgdist grannt með. Á neðri myndinni er Patrekur Jóhannesson að sækja að vörn Júgóslava, en mikið mæddi á Patreki í fjarveru Dags Sigurðssonar. Ívar

Benediktsson

skrifarAðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.