6. desember 1997 | Innlendar fréttir | 427 orð

Héraðsdómur Reykjaness dæmir um manndráp og rán í Heiðmörk

Bræðurnir voru dæmdir í sextán og átta ára fangelsi

TVÍBURARNIR Sigurður Júlíus og Ólafur Hannes Hálfdánarsynir voru í gær dæmdir í 16 og 8 ára fangelsi fyrir að hafa orðið Lárusi Ágústi Lárussyni að bana í Heiðmörk aðfaranótt fimmtudagsins 2. október. Dómurinn dæmdi Sigurð til fangelsisvistar þrátt fyrir umsögn geðlæknis, sem taldi hann haldinn geðklofa og að sakhæfi hans væri því skert. Bræðurnir eru 25 ára.
Héraðsdómur Reykjaness dæmir um manndráp og rán í Heiðmörk

Bræðurnir voru dæmdir í

sextán og átta ára fangelsiTVÍBURARNIR Sigurður Júlíus og Ólafur Hannes Hálfdánarsynir voru í gær dæmdir í 16 og 8 ára fangelsi fyrir að hafa orðið Lárusi Ágústi Lárussyni að bana í Heiðmörk aðfaranótt fimmtudagsins 2. október. Dómurinn dæmdi Sigurð til fangelsisvistar þrátt fyrir umsögn geðlæknis, sem taldi hann haldinn geðklofa og að sakhæfi hans væri því skert. Bræðurnir eru 25 ára.

Héraðsdómur Reykjaness taldi sannað að Sigurður hefði lagt á ráðin um að ræna Lárus heitinn og Ólafur fallist á ráðabruggið. Því næst hefðu þeir ekið með Lárus upp í Heiðmörk, þar sem hann hefði yfirgefið bifreiðina og falið sig um stund. Bræðurnir hefðu leitað hann uppi, ráðist í sameiningu á hann, yfirbugað hann og dregið að bílnum. Sigurður hefði játað að hafa við þessar aðfarir tekið upp 13 kg steinhnullung og keyrt hann í tvígang í höfuð Lárusar. "Dómurinn telur ljóst, með tilliti til umfangs og þyngdar steinsins, ákomustaðar högganna, áverka á líkama Lárusar og aðferðar Sigurðar við atlöguna að öðru leyti, að honum hafi eigi getað dulist að árásin myndi leiða til dauða Lárusar," segir í dóminum.

Ótrúverðugur framburður Ólafs Hannesar

Dómurinn taldi þann framburð Ólafs ótrúverðugan, að hann hefði óvart ekið yfir Lárus heitinn. "Við yfirheyrslur hjá lögreglu og fyrir dómi hefur framburður Ólafs verið reikull og óstöðugur og hefur hann sýnilega í auknum mæli leitast við að leyna þátttöku sinni í þeim hörmulegu atburðum sem áttu sér stað aðfaranótt 2. október sl.," segir héraðsdómur, en telur að sýnilegur vafi sé fyrir hendi um hvort huglæg afstaða Ólafs hafi verið með þeim hætti, sem áskilið sé í 211. grein hegningarlaga, um manndráp, og beri að virða þann vafa honum í hag.

Við ákvörðun refsingar vísar dómurinn til þess álits geðlæknis, að Sigurður muni örugglega skynja þýðingu refsingar, en hins vegar muni áhrif refsivistar hafa slæmar afleiðingar á þróun geðsjúkdóms hans. Dómurinn telur "eigi varhugavert að telja að refsing yfir ákærða Sigurði muni bera árangur. Umsögn geðlæknisins girðir eigi fyrir þessari niðurstöðu."

Sigurður Júlíus Hálfdánarson var dæmdur í 16 ára fangelsi. "Verknaður Sigurðar virtur heildstætt var ógnvekjandi og olli hörmulegum dauðdaga. Ljóst er af framburðum ákærðu að Lárus Ágúst hafði verið yfirbugaður líkamlega í þeim tilgangi að ræna hann þegar hrottafengin árás Sigurðar átti sér stað."

Virt var Ólafi Hannesi til málsbóta að hann gaf sig af sjálfsdáðum fram við lögreglu daginn eftir atburðinn og var hann dæmdur til 8 ára fangelsisvistar.

Þá voru bræðurnir dæmdir til að greiða allan sakarkostnað, auk þess að greiða ekkju og sonum Lárusar Ágústs bætur.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.