Álfheiður Kjartansdóttir mm Við fráfall Álfheiðar Kjartansdóttur er okkur sem áttum samleið með henni á skólaárunum þakklæti í hug fyrir góð kynni og ævilanga vináttu.

Hún ólst upp í Hafnarfirði en bættist í hóp okkar sem sátum í 3. bekk Menntaskólans í Reykjavík árið 1941 og bar með sér ferskan og hressandi blæ í skólalífið. Létt lund hennar, gott skopskyn og jákvætt hugarfar einkenndi fas hennar, enda átti hún strax vinsældum að fagna meðal skólafélaga.

En hún var ekki síður eftirlæti kennaranna fyrir frábæra námshæfileika. Þau fjögur ár sem eftir voru af menntaskólaárunum skipaði hún dúx-sætið í okkar árgangi af reisn og virtist fara létt með það.

Ég held að Álfheiður hafi í raun verið jafnfær í öllum námsgreinum en bókmenntir voru henni hugstæðastar. Hún var gerkunnug öllu sem markaði spor á þeim vettvangi hérlendis og gerði sér jafnframt far um að kynnast fagurbókmenntum annarra þjóða. Góð þekking á grundvallaratriðum íslenskrar tungu og smekkvísi í málfari gerði henni auðvelt að fást við þýðingar sem urðu hennar ævistarf hin síðari ár.

En jafnframt þeirri vinnu sótti hún sér frekari menntun í Háskóla Íslands þegar tækifæri gafst og hafði sínar prófgráður að lokum. Ég held að um Álfheiði megi segja að hún virtist aldrei fá fullnægt menntunarþrá sinni og sótti fast þann róður allt fram á síðustu ár öðrum jafnöldrum til fyrirmyndar.

Hefðbundin skólaár okkar voru miklir umbrotatímar hér á landi sem annars staðar í Evrópu. Heimsstyrjöldin setti á þau sinn svip með mörgum válegum atburðum. En þegar litið er til baka um rúm 50 ár, er eins og eftir sitji fyrst og fremst minningar um mikla samheldni skólasystkina, sanna vináttu og bjartar stundir sem gott er að minnast.

Við sem kynntumst Álfheiði Kjartansdóttur á skólaárunum áttum hana að góðum vini alla tíð síðan. Með þakklæti í huga vil ég fyrir hönd bekkjafélaga úr MR senda fólkinu hennar öllu einlægar samúðarkveðjur.

Hulda Valtýsdóttir.