12. desember 1997 | Minningargreinar | 407 orð

Vilhjálmur B. Hjörleifsson

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Vilhjálmur B. Hjörleifsson Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Vilhjálmur B. Hjörleifsson var Framari alla tíð og tók virkan þátt í starfi Knattspyrnufélagsins Fram um langt árabil. Á annan áratug annaðist hann af mikilli trúmennsku búninga- og sjúkramál meistaraflokks félagsins í knattspyrnu. Reynsla sjúkraflutningamannsins kom þar að góðum notum og mannlegt innsæi gerði honum starfið auðvelt. Gamansemi Vilhjálms og hlýleg framkoma opnuðu honum margar leiðir og tengdu hann vináttuböndum við leikmenn og forystumenn Fram.

Vilhjálmur hóf störf með Hólmbert Friðjónssyni þjálfara 1979-81 og var að störfum öll þjálfaraár Ásgeirs Elíassonar 1985-91. Hann tók einnig þátt í pólska ævintýrinu 1982-83, þegar Andrzej Strejlau sem síðar varð landsliðsþjálfari Póllands annaðist þjálfun hjá Fram. Gera má ráð fyrir að Vilhjálmur hafi verið að störfum fyrir félagið í rúmlega 400 leikjum á 15 árum. Fram átti oft mikilli velgengni að fagna á þessum tíma, en varð að sjálfsögðu einnig fyrir mótlæti eins og gengur í íþróttastarfi. Það breytti hins vegar engu um hugarfar Vilhjálms og var hann ætíð sami jákvæði Framarinn, hvort sem um sigur eða tap var að ræða. Eftir tapleiki átti hann þó til að spyrja: Hvers lags músikk er þetta eiginlega?

Fjölmargir leikir Fram í Evrópukeppnum í knattspyrnu gáfu starfinu aukið gildi og oft áttum við samleið á erlendri grundu. Þrettán leikir í ýmsum þjóðlöndum eru sem ævintýri í minningunni og í hugann koma ýmis atvik. Heimsmaðurinn Vilhjálmur naut sín vel á nýja franska og glæsilega veitingahúsinu í Dublin, svo og í móttöku í ráðhúsi og við skoðun á húsi frímúrara í Belfastborg. Um skeið vorum við miklir sérfræðingar í Austurvegi og heimsóttum á fáum árum Pólland, Tékkóslóvakíu og Rúmeníu. Var Vilhjálmur lítt hrifinn, enda var þáverandi þjóðskipulag þar eystra honum ekki að skapi. Innlent hjartalag var þó ætíð hlýtt og náði Vilhjálmur meðal annars að vingast við höfðingja í Rúmeníuher. Suðræn lönd voru honum meira að skapi, t.d. Grikkland og Spánn. Minnast menn þess enn að Vilhjálmur var óánægður á hinum heimsfræga Nou Camp leikvangi í Barcelona að fá aðeins einu sinni að koma inn á völlinn til að huga að meiðslum leikmanna sinna. Taldi hann að þeir tugir þúsunda knattspyrnuaðdáenda, sem á völlinn voru komnir, ættu skilið að sjá félagana Villa og Ástþór hlaupa til starfa.

Nú er komið að kveðjustund. Félagar Vilhjálms í Knattspyrufélaginu Fram minnast hans með virðingu og þakklæti fyrir óeigingjarnt starf. Vinátta hans var okkur öllum mikils virði. Við vottum Birnu eiginkonu hans og börnum þeirra og allri fjölskyldu hjartanlega samúð okkar.

Halldór B. Jónsson.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.