ÚTGÁFA kennslubóka í mannlegum samskiptum hefur færst í vöxt á undanförnum árum og skemmst að minnast skrifa um venus og mars, bæði í svefnherberginu og almennt, sem slógu svo eftirminnilega í gegn í fyrra og hittifyrra.

Atferli manneskjunnar

lýtur alls ekki einföldum lögmálum

Ákvörðunin um að breyta hegðun sinni er ein sú erfiðasta sem menn taka, segir dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir sálfræðingur. Helga Kristín Einarsdóttir leitaði álits hennar á bókum sem kenna eiga fólki að ná stjórn á sjálfu sér.

ÚTGÁFA kennslubóka í mannlegum samskiptum hefur færst í vöxt á undanförnum árum og skemmst að minnast skrifa um venus og mars, bæði í svefnherberginu og almennt, sem slógu svo eftirminnilega í gegn í fyrra og hittifyrra. Fleiri rit af svipuðum toga eru ný á bókamarkaði þar sem fjallað er um ástarfíkn, ráð gegn þunglyndi, endurlífgun hjónabandsins, lystarstol og lotugræðgi, kvíða, fælni og hræðsluköst, sorgarviðbrögð og samskipti kynjanna.

Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir sálfræðingur og deildarstjóri sálfræðideildar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur segir að mörg hugtök sálfræðinnar verði smátt og smátt hluti af almennu tali. "Ákveðnar greinar innan klínískrar sálfræði hafa orðið þekktari og vinsælli en aðrar því fólki finnst þær rúmast innan almennrar skynsemi. Ýmis hugtök í sállækningum eru orðin hluti af venjulegu máli, til dæmis "komplex" og "sýki". Þegar ég var í sálfræðinámi var óæskileg hegðun gjarnan kölluð "sýki", þá út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Nú er orðið "fíkn" notað og talað um að fólk hafi ekki stjórn á sér. Sjálfshjálparbækur eru meðal annars byggðar á þeim grunni að við getum lært að stjórna hegðun okkar með tilteknum aðferðum," segir hún.

Dr. Zuilma segir mannlegt atferli mjög flókið fyrirbæri og að fjölmargar breytur í umhverfinu hafi bæði sífelld og margvísleg áhrif á hegðun okkar og val. "Í mörgum bókum fyrir almenning er að finna einfaldar skilgreiningar og bent á einfaldar leiðir til þess að sigrast á vandamálum. Þetta er miklu flóknara en svo að hægt sé að gefa fólki uppskriftir af lausnum. Þetta er ekki svona einfalt. Manneskja sem hagar sér á ákveðinn hátt við einhverjar aðstæður á miðvikudegi gæti brugðist við á allt annan hátt á laugardegi án þess að augljóst sé hvers vegna. Það er blekking að halda fram að skyndilausnir séu til á flóknum vandamálum."

Áhersla lögð á ástæður

Greining er stór hluti af hefðbundinni klínískri sálfræði að hennar sögn og mat lagt á persónuleika, greind, tilfinningar, þroska og hugsanir svo dæmi séu tekin. "Þegar kemur að meðferð gengur hún mikið út á það að finna ástæður fyrir hegðun og óæskilegu atferli. Hins vegar vitum við mun minna um það hvað virkar á ákveðna hegðun eða hver er heppilegasta leiðin til þess að breyta til betri vegar og viðhalda breytingunum ef þær verða á annað borð."

Zuilma segir líka að leitast hafi verið við að gera klíníska sálfræði að vísindagrein og teknar upp hefðbundnar vísindalegar rannsóknir sem byggjast á hópaðferðafræði og tölfræðilegri greiningu. "Þannig að þegar árangur af meðferð vegna tiltekins vandamáls er kannaður fáum við meðaltöl með skekkjumörkum. Meðaltalsniðurstöður eru hins vegar aldrei lýsandi fyrir neinn úr hópnum þannig að einstaklingarnir verða í raun útundan."

Sú ákvörðun að breyta hegðun sinni er jafnframt eitt erfiðasta viðfangsefni hvers og eins. "Ákvörðunin er kannski tekin þegar tiltekin hegðun hefur verið endurtekin svo oft að hún er orðin mjög líkleg við tilteknar aðstæður. Hegðun er háð mörgum breytum eins og fyrr sagði sem verið hafa til staðar til fjölda ára. Við tökum ákvörðun um að breyta einhverju í eigin fari í umhverfi sem er enn hið sama með samskonar þrýstingi úr mismunandi áttum, sömu umbun vegna hegðunar okkar og sömu refsingu. Breyturnar sem viðhalda mynstrinu eru með öðrum orðum enn til staðar.

Ein leiðin er sú að taka slíkar ákvarðanir í tengslum við aðrar breytingar, svo sem nýtt húsnæði eða annað starf svo hægt sé að móta nýjar venjur. Ef breytingar á umhverfinu koma ekki til líka er nauðsynlegt að fá leiðbeiningar og stuðning. Það veitir fólki öryggi að endurtaka sama hlutinn ár eftir ár, skipti eftir skipti, því það kann það svo vel. Til dæmis er mjög erfitt að tileinka sér nýjar hreyfingar, sem er einfalt dæmi. Sjúkraþjálfari segir manni að hann standi vitlaust og að afleiðingarnar geti verið a,b og c. En jafn einfaldur hlutur og að fylgjast með líkamsstöðunni og reyna að breyta henni getur verið meiriháttar mál."

Nýir sálfræðikvillar?

Spurt er hvort samfélag okkar geti af sér óheilbrigðari einstaklinga en áður fyrr. "Vitað er að ákveðnar tegundir af sálfræðilegum kvillum voru ekki til staðar, sem meðal annars er rakið til þess hvers konar kröfur við gerum í nútímanum. Dæmi um það eru lotugræðgi og lystarstol. Einnig dynur á borgurunum alls kyns viðgjöf, eða feedback á frammistöðu. Við erum látin vita hversu ofbeldisfull við erum orðin, hversu vondir makar við erum, að tíðni skilnaða sé of há og fari sífellt hækkandi. Við erum upp til hópa vondir foreldrar, pössum börnin okkar ekki nógu vel, keyrum of hratt, völdum svo og svo mörgum slysum á ári og svo mætti lengi telja. Upplýsingarnar um það hvað við stöndum okkur illa eru alls staðar en við fáum sjaldan að heyra hvort við stöndum okkur vel.

Fólki sem ekki hefur aðgang að heildarmyndinni getur undir slíkum kringumstæðum verið hættara við þunglyndi, depurð og skertu sjálfstrausti. Foreldrar eru margir óöruggir og efast um að þeir séu að gera rétt í uppeldinu. Þeir sem standa sig vel leita ekki síður eftir ráðgjöf hjá sálfræðingum en hinir.

Viðgjöfin er ekki bara frá fjölmiðlum, heldur á heimilum, í skólum, í stigaganginum, úti um allt. Við erum gjarnari á að gagnrýna og veita öðrum það, sem ég kalla rafstuð, segja manneskjunni það sem henni þykir vont að heyra."

Ástæðuna segir Zuilma þá, af sjónarhóli atferlisgreiningar, að við bælum niður og hættum hegðun sem samfélagið telur óæskilega ef refsingarógnin er til staðar. "Áhrif refsingar eru svo fljótleg. Það er miklu seinlegra að byggja upp æskilega hegðun en að bæla þá óæskilegu, það er stærsta skýringin. Við lærum þessa aðferð til að stöðva framferði strax í æsku með því að fylgjast með svipbrigðum foreldranna og raddblæ."

Margir vilja meina að sálfræðingar séu sífellt að búa til vandamál og spyrja sem svo hvað hafi verið til ráða fyrir 300 árum eða svo þegar slíkir kvillar voru ekki til í vitund almennings. Zuilma segist auðvitað ekki sammála því að vandamálin séu þeirra en varar við því að fólk gleypi hráar skilgreiningar á alls kyns fíknum. "Það eru engar skyndilausnir til og skilgreiningin á sjúkdómi eða óæskilegri hegðun er ekki alltaf skýr, hvað á að kalla hana og hver meðferðin á að vera. Sérfræðingar sem unnið hafa í mörg ár á ýmsum sviðum og hafa aðgang að viðeigandi lesefni eiga sjálfir oft í vandræðum, hvað þá þegar stuðst er við takmarkaðar upplýsingar sem eiga að koma í stað greiningar."

Zuilma víkur aftur að hugmyndinni um sjálfsstjórn og segir að margar bækur reyni að kenna fólki að stjórna hegðun sinni. "Hæpið er að það takist því hegðun er háð svo mörgum breytum sem við gerum okkur ekki grein fyrir. Hegðun samkvæmt atferlisgreiningu er samspil milli líkamlegra eiginda tegundarinnar eins og hún hefur þróast, það er taugakerfis, litninga og hormóna, reynslu frá fæðingu til augnabliksins og þess sem er að gerast á tilteknum tímapunkti."

Loks vitnar dr. Zuilma í rannsókn frá því um 1980 sem leiddi í ljós að 20% aðspurðra sem ekki höfðu leitað sér annarrar aðstoðar teldu sig hafa fengið bót meina sinna með því að lesa sjálfshjálparbók. "Það þykir ágætt í ýmsum meðferðarfræðum að 65% þeirra sem leita sér aðstoðar fái einhvern bata. Atferlisgreinendur eru miklu kröfuharðari og alls ekki sáttir fyrr en að minnsta kosti 90% einstaklinga ná bata. Tuttugu af hundraði er því lágt hlutfall en þó má ekki líta framhjá því að einhverjir segjast hafa fengið úrlausn sinna mála og hugsanlegt að slíkar bækur leiði til þess að fólk áttar sig á því að það þurfi á aðstoð að halda. Hins vegar er hættan sú að einhverjir sem ekki þurfa hjálp setji sannfærist um að þeir eigi við vandamál að stríða og að þeir sem þurfa á aðstoð að halda leiti hennar ekki," segir dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir að lokum.

Morgunblaðið/Kristinn ZUILMA Gabríela Sigurðardóttir

LADY Bird Johnson, eiginkona Lyndons B. Johnson Bandaríkjaforseta, virðir fyrir sér málverk eftir Henry Fuseli af Adam og Evu í uppnámi eftir brottreksturinn úr Paradís. Dr. Zuilma segir seinlegra að byggja upp æskilegt hegðunarmynstur en að bæla niður hið óæskilega með ógninni um refsingu.