3. janúar 1998 | Innlendar fréttir | 665 orð

Kristín og Kristján hlutu rithöfundastyrk Ríkisútvarpsins

ÁRLEG styrkveiting úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins fór fram á gamlársdag við athöfn í Bláfjallasal útvarpshússins að viðstöddum forseta Íslands, menntamálaráðherra, útvarpsstjóra og fleiri gestum. Sjóðinn mynda m.a. höfundalaun sem höfundar finnast ekki að og var heildarfjárhæðin nú ein milljón króna, sem skiptist til helminga milli tveggja höfunda.
Kristín og Kristján hlutu rithöfundastyrk Ríkisútvarpsins

ÁRLEG styrkveiting úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins fór fram á gamlársdag við athöfn í Bláfjallasal útvarpshússins að viðstöddum forseta Íslands, menntamálaráðherra, útvarpsstjóra og fleiri gestum. Sjóðinn mynda m.a. höfundalaun sem höfundar finnast ekki að og var heildarfjárhæðin nú ein milljón króna, sem skiptist til helminga milli tveggja höfunda. Þeir sem hlutu verðlaunin eru Kristín Ómarsdóttir og Kristján Árnason. Kristín hefur vakið eftirtekt á undanförnum árum fyrir frumlega og sérstaka bókmenntasköpun og Kristján er löngu kunnur fyrir vandaðar þýðingar nýrra og eldri meistara í bundnu og lausu máli, eins og formaður sjóðsstjórnar, Ingi Bogi Bogason, orðaði það við afhendinguna.

Konur að sækja í sig veðrið

Þar kom fram að á 41 árs ferli Rithöfundasjóðsins hafa verið veittar úr honum 16.320.000 krónur til 77 rithöfunda, 62 karla og 15 kvenna. Í þakkarávarpi sínu vakti Kristín athygli á því að á árinu sem er að kveðja komu út margar nýjar frumsamdar bækur eftir konur og að á síðustu árum hafa konur á þessari eyju verið að sækja í sig veðrið, skrifa og koma efni sínu áleiðis til lesenda með hjálp útgefenda. Kvaðst hún nefna þetta svona af ótta við að það hefði farið framhjá fólki vegna þess að það þarf að segja hlutina og það þarf að segja þá oft. Alveg eins og þarf að segja þá á einfaldan hátt ­ með fáum eða mörgum stjörnum.

Á þessu hausti gaf Kristín út skáldsöguna "Elskan mín ég dey", fjölskyldusögu sem gerist í íslensku sjávarþorpi og fjallar um látna sem lifendur. Í stuttu spjalli kvaðst Kristín ánægð með góðar viðtökur. Það sé gott að fá slík viðbrögð, sem gefi höfundi gott skap til að takast á við nýtt verkefni, nýja skáldsögu sem hún vildi ekki segja meira um, en kvaðst vera á förum í sumarbústað til að loka sig af og hefjast handa.

Sígildar þýðingar

Kristján Árnason hefur á undanförnum árum sent frá sér rómaðar þýðingar á verkum eldri sígildra meistara. Í fyrra komu út Rilkeþýðingar hans og hann hefur verið og er enn að fást við að flytja á íslensku hinn viðkvæma og undurfagra skáldskap latneska skáldsins Ovids, höfund Metamorphoses. Síðast kvaðst hann hafa verið að reka endahnútinn á þýðingu á Cyrano de Bergerac eftir franska skáldið Edmond Rostand, sem er í bundnu máli. Leikritið liggur hjá Þjóðleikhúsinu og hefur dregist að það kæmist á fjalirnar, en á meðan bíður verkið útgáfu líka, en Kristján kvaðst nú vera farinn að ókyrrast eftir að koma því á prent. Kristján kvaðst í þakkarávarpi sínu vera vanari því að eiga sæti í nefndum sem veita verðlaun fremur en vera í sporum þess sem við tekur. Þótt það kæmi honum í opna skjöldu þá segði hann alls ekki að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum. Þó svo sagt sé að sælla sé að gefa en þiggja, þá geti hið síðarnefnda einnig verið ljúft, að minnsta kosti þótti forföður okkar Agli ekki leitt að þiggja sitt eigið ljóta höfuð að skáldalaunum forðum og trúlega ekki heldur ástmegi okkar, Jónasi, að þiggja hörpudiskinn af systur sinni, en það séu einu skáldalaunin sem hann kvaðst muna til að Jónas hefði fengið. Hér skipti einnig máli hver sá aðili er sem viðurkenningu veitir. Áður fyrr þótti nú ekki spilla fyrir að hann væri konungborinn. Kristján kvað það mikið ánægjuefni að hér og nú sé það Ríkisútvarpið sem hlut á að máli. "Ríkisútvarpið er í mínum augum okkar sanna akademía eða háskóli allrar þjóðarinnar og höfuðvígi þeirrar sjálfstæðu menningar okkar sem nú er sótt að úr öllum áttum, jafnt utanfrá sem innan," sagði hann og lét í ljós von um að okkur megi auðnast að standa vörð um þessa ágætu stofnun þannig að hún verði áfram sá menntabrunnur og vettvangur vitsmunalegrar umræðu sem hún hefur verið til þessa.

Stjórn Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins er skipuð fimm mönnum. Formaður er Ingi Bogi Bogason, skipaður af menntamálaráðherra, Margrét Oddsdóttir og Sigurður Valgeirsson skipuð af Ríkisútvarpinu og Anton Helgi Jónsson og Gerður Kristný, skipuð af Rithöfundasambandinu.

KRISTÍN Ómarsdóttir og Kristján Árnason ásamt Inga Boga Bogasyni formanni Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.

Morgunblaðið/Árni Sæberg.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.