10. janúar 1998 | Fastir þættir | 627 orð

Getur verið of mikið járn í blóðinu?

Magnús Jóhannsson læknir svarar spurningum lesenda

Spurning: Er hægt að vera með of mikið járn í blóðinu? Ef svo er, hver eru einkennin? Svar: Já, það er hægt að hafa of mikið járn í blóðinu og í líkamanum. Járn er einn af þeim málmum sem eru nauðsynlegir fyrir starfsemi líkamans. Karlmenn hafa að meðaltali 3,5 g af járni í líkamanum en konur 2,5 g.

Getur verið of mikið járn í blóðinu?

Magnús Jóhannsson læknir svarar spurningum lesenda

Járn í blóði

Spurning: Er hægt að vera með of mikið járn í blóðinu? Ef svo er, hver eru einkennin? Svar: Já, það er hægt að hafa of mikið járn í blóðinu og í líkamanum. Járn er einn af þeim málmum sem eru nauðsynlegir fyrir starfsemi líkamans. Karlmenn hafa að meðaltali 3,5 g af járni í líkamanum en konur 2,5 g. Meirihluti þessa járns er í blóðrauðanum og efnahvötum (ensýmum) í hinum ýmsu vefjum en um þriðjungur er bundinn í birgðum. Á hverjum sólarhring tapar líkaminn um 1 mg af járni, einkum með frumum sem losna frá yfirborði húðar og slímhúðar í meltingarvegi. Þetta járntap þarf líkaminn að bæta sér upp með fæðunni. Í venjulegu dagsfæði eru 5­10 mg af járni og af þeim nýtist þetta eina mg sem þarf. Nýtingu járns úr fæðu er stjórnað þannig að hún uppfylli þarfirnar og er talið að hún ákvarðist af járnbirgðum líkamans, á einhvern óþekktan hátt. Ýmislegt getur þó haft áhrif á nýtingu járns úr fæðunni og má þar nefna að trefjaefni og te minnka nýtingu en C-vítamín eykur hana. Of mikið getur orðið af járni í líkamanum eftir þremur leiðum; þeir sem fá mikið af blóðgjöfum vegna sjúkdóma, þeir sem taka inn óhóflegt magn af járni og þeir sem hafa ættgengan sjúkdóm sem verður til þess að óeðlilega mikið af járni nýtist úr fæðunni. Það síðasttalda (hemochromatosis) er algengast og þar er um að ræða víkjandi erfðagalla (vegna stökkbreytingar) sem er talinn þjá um 24 milljónir manna í heiminum. Þessi sjúkdómur er mun sjaldgæfari meðal kvenna en karla og má leiða líkur að því að það stafi af mánaðarlegum tíðablæðingum sem losa líkamann við dálítið magn af járni. Sjúkdómurinn kemur venjulega ekki í ljós fyrr en komið er á miðjan aldur enda getur tekið marga áratugi að safna því magni af járni sem þarf til að gefa einkenni. Líkaminn á engan mótleik við aukinni nýtingu járns úr fæðunni vegna þess að engin góð útskilnaðarleið er til. Eitt af því erfiða við þennan sjúkdóm er að lengi vel gefur hann engin einkenni og þegar þau koma gerist það mjög hægt, á mörgum árum eða áratugum. Fyrstu einkennin geta verið sífelld þreyta og slappleiki og síðan sykursýki, gráleit húð, minnkuð kynhvöt, tíðateppa, verkir og bólga í liðum en að lokum geta skemmdir í lifur og hjarta dregið sjúklinginn til dauða. Önnur einkenni geta komið fram og má þar nefna ýmis geðræn vandamál, hárlos, kuldatilfinningu og tíðar sýkingar. Hætta á krabbameini eykst, m.a. krabbameini í lifur. Þekkt eru nokkur dæmi um sjúklinga sem höfðu svo mikið járn í líkamanum að þeir settu í gang málmleitartæki við vopnaleit á flugvöllum. Ef ekkert er að gert eða ef meðferð hefst of seint deyr sjúklingurinn. Mikilvægt er að greina sjúkdóminn og hefja meðferð áður en varanlegar líffæraskemmdir verða. Greina má sjúkdóminn með blóðmælingum og lifrarsýni eða mergsýni en einnig er komin á markað mæliaðferð til að finna hverjir eru með erfðagallann sem veldur honum. Með því móti er hægt að greina sjúkdóminn mun fyrr en áður var mögulegt. Meðferðin er aðallega fólgin í blóðtökum til að losa líkamann við járn. Í byrjun er oft tekinn hálfur lítri af blóði 1­2 sinnum í viku en þegar viðunandi árangri hefur verið náð er oftast nægjanlegt að taka sjúklingnum blóð á 2­4 mánaða fresti. Sumir þola illa svona blóðtökur og þá má grípa til lyfs (deferoxamíns) sem eykur útskilnað járns í þvagi en er talinn heldur lakari kostur. Horfurnar eru góðar ef meðferðin hefst nógu fljótt.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 569 1100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 569 1222.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.