Krónan er minnsti gjaldmiðill í heimi Miklar gengissveiflur krónunnar valda fyrirtækjum erfiðleikum Háir raunvextir halda launum niðri Fjárstýring fyrirtækja eins og ferðalag í rússíbana Óhjákvæmilegt að krónan tengist öðru myntkerfi
Krónan er minnsti gjaldmiðill í heimi Miklar gengissveiflur krónunnar valda fyrirtækjum erfiðleikum Háir raunvextir halda launum niðri Fjárstýring fyrirtækja eins og ferðalag í rússíbana Óhjákvæmilegt að krónan tengist öðru myntkerfi

Íslensk

fyrirtæki

greiða gjald-

miðilsskatt

Sjálfstæð gengisskráning krónunnar á öld alþjóðavæðingar er tímaskekkja að mati Þórðar Magnússonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Eimskips. Fjárþörf íslenskra fyrirtækja rúmast ekki innan hagkerfisins og háir vextir draga úr arðsemi þeirra. Kjartan Magnússon kynnti sér málið og ræddi við Þórð.

OFANVERÐ 20. öldin, er senn rennur skeið sitt á enda, hefur verið tímabil alþjóðavæðingar. Efnahagslegir og pólitískir múrar hafa hrunið og í stað margra ólíkra hagkerfa er að myndast nýtt alþjóðlegt kerfi, sem mun lúta eigin lögmálum en síður dyntum stjórnmálamanna, aðgerðum seðlabankastjóra eða jafnvel málamiðlunum "G 7" (leiðtogafundar sjö stærstu iðnríkja heims).

Eftir því sem alþjóðavæðingin verður víðtækari beinist athyglin að samkeppnisstöðu einstakra landa og stjórnmálamenn um allan heim leggja nú síaukna áherslu á að búa fyrirtækjunum hagstæðari skilyrði. Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki farið varhluta af þessu viðhorfi og þeir tala nú æ oftar um "samkeppnislönd okkar" í umræðum um efnahagsmál.

Gengismál á tímum alþjóðavæðingar

Gjaldeyrismál eru tvímælalaust eitt mikilvægasta svið íslenskra efnahagsmála. Um áratugaskeið var íslenska hagkerfið mjög lokað og krónan hefur þá sérstöðu að vera minnsti gjaldmiðill í heimi. Margvíslegum höftum hefur þó verið létt af á síðustu árum og vegna hárra vaxta kjósa mörg fyrirtæki að leita út fyrir landsteinana eftir lánsfé.

Efnahagserfiðleikarnir í Asíu sýna vel hve aðgangur að lánsfé skiptir atvinnulífið miklu máli. Hækkandi vextir draga úr möguleikum fyrirtækja til fjárfestinga og nýsköpunar og skortur á lánsfé getur á skömmum tíma haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur þeirra.

Þórður Magnússon, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskipafélags Íslands, hefur vakið athygli á fyrirkomulagi gjaldeyrismála á Íslandi og hvatt til þess að það verði endurskoðað. Hann hefur með höndum fjárstýringu Eimskips, m.a. frágang lánasamninga í erlendum myntum og gengismál, og þekkir því af eigin raun hið síbreytilega umhverfi erlendra gjaldmiðla sem mörg íslensk fyrirtæki glíma við frá degi til dags. Þá situr Þórður í starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins sem fjallar um áhrif Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) á íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Þórður segir það skipta höfuðmáli fyrir þróun íslenskra efnahagsmála að stjórnvöld og atvinnulífið fylgist grannt með þróun gjaldeyrismála í heiminum og verði ávallt undir það búin að bregðast skjótt við breyttum aðstæðum. Telur hann einsýnt að Íslendingar þurfi að tengja krónuna við annað myntkerfi fyrr eða síðar. Lítur hann helst til væntanlegs Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) í þessu sambandi enda eru um 70% utanríkisviðskipta Íslendinga við aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA, Fríverslunarbandalags Evrópu.

­Evrópuríkin stefna að því að EMU taki til starfa 1. janúar árið 1999. Hefur þú trú á því að það markmið náist og hvernig eiga Íslendingar að bregðast við ef það gerist?

"Nú eru yfirgnæfandi líkur á því að ellefu lönd hljóti aðild að EMU í byrjun árs 1999. Þetta eru öll ESB löndin að frátöldu Bretlandi, Danmörku, Grikklandi og Svíþjóð. Bretland og Danmörk eru einu ríkin innan bandalagsins sem hafa samningsbundin rétt til að standa utan EMU. Hin ríkin eru bundin af samningum um þátttöku að fullnægðum skilyrðum og geta því ekki ákveðið upp á sitt eindæmi hvort þau verði með eða ekki.

Evrópskt atvinnulíf styður EMU

Í Bretlandi hafa umræður um kosti og galla EMU-aðildar farið vaxandi og fjármálaráðherra landsins hefur gefið út þá yfirlýsingu að reynist myntbandalagið vel, stefni ríkisstjórn Tonys Blairs að þátttöku í því eftir þingkosningar en þær munu sennilega fara fram árið 2002. Þessari yfirlýsingu hefur verið vel tekið í bresku atvinnulífi enda er talið að vextir í Bretlandi geti lækkað verulega með slíkri aðild.

Sænska stjórnin hefur lýst yfir því að afstaða hennar mótist af því að þjóðin sé andsnúin aðild að myntbandalaginu. Afstaðan kunni að breytast síðar en tæpast verði um aðild að ræða fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá áforma dönsk stjórnvöld ekki aðild að EMU nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stjórnendur fyrirtækja í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð, vinna nú að því að búa fyrirtækin undir þátttöku í myntbandalaginu. Í þessum löndum er það sameiginleg skoðun að atvinnu- og efnahagslíf hefði verulegan hag af þátttöku í EMU í formi minni viðskiptakostnaðar og lækkandi vaxta. Það má því telja fullvíst að öll ríki ESB verði með í EMU frá byrjun ef frá eru talin Danmörk, Bretland, Svíþjóð og Grikkland. Eigi að síður eru miklar líkur taldar vera á því að að þessi ríki muni gerast aðilar fljótlega eftir aldamótin og er jafnvel rætt um það sem raunhæfan möguleika að Bretar gerist aðilar fyrir þingkosningarnar árið 2002.

Á nýafstöðnum leiðtogafundi Evrópusambandsins var samþykkt að hefja formlegar aðildarviðræður við tíu ríki í Mið- og Austur-Evrópu sem þegar hafa sótt um aðild. Rætt verður við ríkin í tveimur hópum. Í hinum fyrrnefnda eru Pólland, Tékkland, Ungverjaland, Slóvenía og Eistland en í hinum síðari Lettland, Litháen, Slóvakía Rúmenía og Búlgaría. Aðild þessara landa mun síðar leiða til beinnar þátttöku þeirra í EMU."

Þórður segir þessa upptalningu sýna vel að allt beri að sama brunni hvað varði þróun gengismála í Evrópu. Með öðrum orðum stefni í að risastórt efnahags- og myntbandalag álfunnar verði að veruleika innan fárra ára. Þessi þróun hljóti að skipta Íslendinga miklu, hvort sem þeim líki betur eða verr, þó ekki væri nema vegna þess að meginhluti utanríkisviðskipta sé við þessar þjóðir.

Áhrif gengissveiflna á íslensk fyrirtæki

En hvaða vandkvæði hefur núverandi kerfi í för með sér fyrir íslenskt atvinnulíf? Þórður segir gengissveiflur valda fyrirtækjum verulegum óþægindum og skekkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum sem búa við sterkari gjaldmiðla. "Íslensk fyrirtæki ná ekki að fjármagna starfsemi sína í innlendum gjaldmiðli í hagkerfinu vegna smæðar þess. Mörg þeirra, einkum stórfyrirtæki, grípa því til þess ráðs að fjármagna sig að verulegu leyti í erlendum myntum. Þau verða því mjög háð gengissveiflum en þau reyna að vinna gegn því með virkri fjárstýringu með það að markmiði að vera óháð innbyrðis gengisbreytingum erlendra mynta. Krónan er svo lítil mynteining að tiltölulega litlar hreyfingar á gjaldeyrismarkaðnum valda óeðlilega miklum sveiflum. Einn milljarður í nettóhreyfingu á markaði getur breytt skráningu gengisins um 0,5% til eða frá. Í júlí á síðasta ári styrktist gengið t.d. um 1,44%, í október veiktist það um 1,44% og í nóvember styrktist það á ný um 1,4%. Þótt þessar gengissveiflur séu ekki miklar í samanburði við marga aðra gjaldmiðla eru áhrif þeirra á rekstur íslenskra fyrirtækja oft meiri en sem nemur afkomu af reglulegri starfsemi þeirra. Flest erlend fyrirtæki fjármagna sig hins vegar í sinni heimamynt og verða því ekki fyrir sambærilegum skakkaföllum vegna gengissveiflna."

Fjárstýring íslenskra fyrirtækja erfið

Gengi krónunnar ræðst nú í raun af svokallaðri myntkörfu eða gengi gjaldmiðla sextán þjóða. Í því ljósi eru gengissveiflur krónunnar miklar að mati Þórðar. Sum fyrirtæki reyna að draga úr gengisáhættu vegna skulda með því að miða lántökur við myntkörfuna. Hann segir að gengisáhætta verði þó ekki jöfnuð út nema að takmörkuðu leyti með þeim hætti. "Fjárstýring í íslensku fyrirtæki er því oft líkust ferðalagi í rússíbana. Samkeppnisfyrirtæki Íslendinga í Evrópu búa hins vegar við allt annað umhverfi. Hagkerfi allra ESB landanna leita nú saman í farveg stöðugleikans, jafnvel þótt EMU sé ekki formlega tekið til starfa. Árið 1995 var vaxtamunur milli Þýskalands og Ítalíu heil 6% en nú er hann aðeins brot úr prósenti. Það er ótrúlegt að sjá hve Evrópubúum hefur tekist vel að búa sig undir breytta framtíð í gengismálum á aðeins tveimur árum. Öll evrópsk fyrirtæki laga sig nú að sömu aðstæðum og Íslendingar verða einfaldlega að taka mið af því. Framan af var mikil óvissa í Evrópulöndunum meðal almennings um hvort það ætti að hrökkva eða stökkva og steypa öllum myntunum saman í eina en flestar þjóðirnar virðast nú hafa áttað sig á því að aðrir valkostir eru ekki fyrir hendi. Þau hagkerfi sem standa utan við þróunina munu óhjákvæmilega veikjast og það mun hafa áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja og lífskjör í umræddum löndum."

Þáttur Seðlabankans

Hvernig hefur Seðlabankinn sinnt því hlutverki sínu að jafna út þessar miklu sveiflur á gjaldeyrismarkaði?

"Miðað við þau takmörkuðu tæki sem hann ræður yfir finnst mér hann hafa staðið sig nokkuð vel og gert sitt til að jafna sveiflur og halda verðlagi stöðugu. Hins vegar erum við stöðugt minnt á það að geta bankans til að hafa áhrif á markaðinn og jafna út sveiflurnar er ákaflega takmörkuð. Íslenski fjármálamarkaðurinn er svo agnarsmár að aðgerðir einstakra fyrirtækja geta haft töluverð áhrif á markaðinn. Ef við tökum Eimskip sem dæmi þá nema skuldir fyrirtækisins í erlendum gjaldmiðlum um níu milljörðum króna en gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans er aðeins um 25 milljarðar. Geta bankans til að grípa til aðgerða á þessum markaði og jafna út sveiflur er því afar takmörkuð svo ekki sé meira sagt. Ekki má heldur gleyma hlut ríkisins að þessu leyti en ef eitthvað er hefur það frekar magnað sveiflurnar en hitt. Stjórnvöld verða að taka tillit til hagstærða hverju sinni og leggja áherslu á að greiða niður erlend lán þegar gengið styrkist en auka erlendar lántökur þegar það veikist. Þetta á við þrátt fyrir að lánahreyfingar ríkisins eigi sér ekki stað á gjaldeyrismarkaðnum."

Gjaldmiðilsskatturinn

-Hvaða áhrif hafa háir vextir á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja?

"Þau áhrif að fjármagnskostnaður fyrirtækjanna verður miklu hærri en hann þyrfti að vera og mætti tala um gjaldmiðilsskatt eða átthagaskatt í því sambandi. Meðalstór íslensk fyrirtæki þurfa nú að fjármagna sig með innlendum lánum sem eru 4-6 prósentustig yfir meðalvöxtum af erlendum lánum. Þessi fyrirtæki eru oft að greiða 10-12% af innlendum skammtímalánum en um 1,5-2% yfir millibankavöxtum (libor) af erlendu lánsfé. Vaxtamunur er því 4-6 prósentustig. Þetta er óviðunandi og ég hygg að draga megi úr þessum vaxtamun miðað við ríkjandi forsendur. Ég óttast að með tilkomu EMU muni gjaldeyrissveiflur aukast í þeim evrópsku hagkerfum sem taka ekki þátt í samstarfinu. Oft er talað um að það sé 2-3 prósentustiga vaxtamunur milli Íslands og annarra landa. Vaxtamunur á skammtímalánum einkafyrirtækja milli Íslands og nágrannalanda er nokkru meiri eins og bent var á hér að framan og nú nemur hann 4-6 prósentustigum. Þetta er sá skattur sem við Íslendingar greiðum fyrir að vera með sjálfstætt myntkerfi sem er jafnframt hið minnsta í heimi. Allar líkur eru á að vaxtaálag vegna óvissu, svokallað óvissuálag krónunnar, muni vaxa eftir stofnun EMU og auka enn frekar á þennan mun."

Háir vextir halda launum niðri

Þórður segir að þessi mikli vaxtamunur dragi úr arðsemi íslenskra fyrirtækja. Arðsemi þeirra verði hins vegar, til lengri tíma litið, að vera sambærileg við það sem gerist erlendis og það neyði menn til að halda öðrum rekstrarkostnaði í niðri, t.d. launum. "Það má færa ýmis rök fyrir því að lág laun hérlendis megi m.a. rekja til hárra vaxta vegna sjálfstæðrar gengisskráningar krónunnar. Það er ekki viðunandi að mínu mati."

­Hvað ættu raunvextir að vera háir hérlendis við eðlilegar aðstæður?

"Ég hygg að það sé enginn einhlítur mælikvarði til um það en þó er hægt að vísa til þess að í Bretlandi og Bandaríkjunum var meðaltal raunvaxta af skuldabréfum frá 1872-1995 eða á yfir 120 ára tímabili 2,2 ­ 3%. Meðaltal raunvaxta í sautján iðnríkjum var 2,6% á tímabilinu 1966-1993. Niðurstöður þessara athugana leiða í ljós að meðalraunvextir tímabilsins voru svipaðir og meðalhagvöxtur. Samkvæmt þessu ættu íslensk fyrirtæki að borga 3% raunvexti af lánsfjármagni. Ástandið er hins vegar þannig að vextir af ríkisskuldabréfum eru tvöfalt hærri og vextir af skammtímalánum enn hærri."

Samkeppni harðnar með EMU

­Hvaða almennu áhrif er líklegt að aðild að eða tenging við EMU hefði almennt á íslenskt efnahagslíf?

"Menn verða að gera sér það ljóst að tenging eða aðild yrði líkleg til að hafa aukna samkeppni í för með sér. Allt verð yrði sýnilegra, enda væri mestallur verðútreikningur fyrirtækja miðaður við sömu myntina og gengisáhætta væri því hverfandi. Bankar og aðrar fjármálastofnanir fyndu einna mest fyrir aukinni samkeppni enda yrðu þær að laga sig að lántöku og vaxtastigi erlendra banka, þ.e.a.s að lækka vexti. Með lægri vöxtum gætu íslensk fyrirtæki aukið arðsemi sína. Með þátttöku í samstarfinu yrðu Íslendingar beinir þátttakendur á hinum stóra og sívaxandi Evrópumarkaði og með sama hætti væri verið að greiða öðrum leið inn á íslenska markaðinn. Fjárfestingar erlendra aðila og vöruskipti myndu vafalaust stóraukast og það væri af hinu góða. Á sama tíma og lífeyrissjóðirnir og aðrir íslenskar fjárfestar beina fjárfestingum sínum í síauknum mæli til útlanda eru erlendar fjárfestingar mjög takmarkaðar á Íslandi."

Sjálfstæð gengisskráning til óþurftar

Miðað við hina öru hagþróun í heiminum verður erfitt og jafnvel óraunhæft fyrir litlar þjóðir að halda úti eigin mynt- og hagkerfum, að mati Þórðar. "Hætt er við að sveiflur verði alltaf meiri þar en í stærri og stöðugri kerfum. Ekki er langt síðan seðlabankastjóri Kanada kvartaði undan því að smæð hagkerfisins leiddi til meira óstöðugleika í gengi og vöxtum en t.d. í Bandaríkjunum. Kanadamenn eru þó um tuttugu milljónir.

Einhliða tenging krónunnar ekki trúverðug

-Kæmi einhliða tenging krónunnar við EMU til greina að þínu mati?

"Ég held að einhliða tenging krónunnar við annan gjaldmiðil, t.d. evró, yrði ekki trúverðug við ríkjandi aðstæður. Það yrði gífurlega erfitt að verja hana í hinu frjálsa fjármagnsflæði sem nú er ráðandi. Reynsla Hong Kong-búa er lærdómsrík að þessu leyti en þeir hafa tengt gjaldmiðil sinn, Hong Kong dollarann, einhliða við Bandaríkjadollar. Það getur reynst þeim erfitt að halda í þessa tengingu og ráða þeir þó yfir digrum gjaldeyrisvarasjóðum. Þá óttast Norðmenn um framtíð sinnar krónu þrátt fyrir mikla olíusjóði"

Ekki valkostur að standa utan EMU

-Hvaða möguleika telur þú vera á að Íslendingar nái samkomulagi um tvíhliða tengingu krónunnar við evru á meðan þeir kjósa að standa utan Evrópubandalagsins

"Afstaða Íslendinga til ESB hlýtur að takmarka valkostina í þessum efnum en Íslendingar verða að vera óhræddir við að skoða alla kosti í gengismálum og það er brýn þörf að hraða þeirri vinnu þannig að niðurstaða liggi fyrir árið 2000. Mér finnst eðlilegt að Íslendingar leiti eftir einhvers konar samstarfi eða aðild að EMU en í mínum huga er það ekki valkostur að standa algerlega utan við bandalagið eftir að það kemst til framkvæmda. Mér finnst að það ætti að láta á það reyna hvort unnt sé að ná tvíhliða samningi við bandalagið um gengismál þótt engin fordæmi séu fyrir slíku."

­Mun starfsemi EMU hafa einhverja kosti í för með sér fyrir Íslendinga, jafnvel þótt þeir kjósi áfram að standa utan bandalagsins?

"Já. Bandalagið mun nýtast okkur, hvort sem við göngum í það eða stöndum fyrir utan. EMU fækkar gjaldmiðlum og það mun vafalaust auðvelda íslenskum fyrirtækjum og bönkum að fylgjast með gjaldeyrismörkuðum. Þetta mun spara bæði tíma og mannafla innan fyrirtækjanna og vonandi að einhverju leyti vega upp kostnað vegna aukins vaxtaálags. Gengiskostnaður fyrirtækjanna myndi þó lækka mun meira ef Íslendingar næðu samkomulagi um tvíhliða tengingu krónunnar við evruna og það yrði mikill ávinningur fyrir íslenskt atvinnulíf."

Morgunblaðið/Halldór "TVÍHLIÐA tenging krónunnar við evru yrði mikill ávinningur fyrir atvinnulífið," segir Þórður Magnússon, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips. Fjármagnskostnaður fyrirtækja allt of mikill

Háir vextir éta upp hagnað íslenskra fyrirtækja