SEX árum og á að giska 100.000 mannslífum eftir að borgarastríð braust á ný út í Alsír eru menn enn litlu nær um hvað raunverulega er að gerast í landinu. Heimsbyggðin stendur agndofa frammi fyrir fréttaflutningi af morðum og óhæfuverkum sem lýsa þvílíkri grimmd og blóðþorsta að leitun er að viðlíka hryllingi.
Uppreisn gegn "valdinu" í nafni Spámannsins Ekkert lát er á viðurstyggilegum fjöldamorðum á óbreyttum borgurum í Alsír og kröfur eru teknar að magnast um að alþjóðasamfélagið freisti þess að stilla til friðar í landinu. Ásgeir Sverrisson segir borgarastríðið í Alsír snúast um völd og að nærtækara sé að líta á það sem uppreisn gegn gjörspilltri valdastétt landsins en trúarbragðastríð. SEX árum og á að giska 100.000 mannslífum eftir að borgarastríð braust á ný út í Alsír eru menn enn litlu nær um hvað raunverulega er að gerast í landinu. Heimsbyggðin stendur agndofa frammi fyrir fréttaflutningi af morðum og óhæfuverkum sem lýsa þvílíkri grimmd og blóðþorsta að leitun er að viðlíka hryllingi. Þrátt fyrir mikinn þrýsting hafa stjórnvöld í Alsír þráast við að gefa trúverðugar skýringar á blóðbaðinu og þau hafa reynst öldungis ófær um að stöðva það. Á alþjóðavettvangi hefur fram til þessa ekki komið fram vilji til að hafa bein afskipti af borgarastríðinu enda deilt um á hvaða borði þessi vandi eigi heima. Þrýstingurinn fer hins vegar vaxandi og nú hefur fyrsta skrefið verið stigið því í vikunni er væntanleg til landsins þriggja manna ráðherranefnd frá Evrópusambandinu (ESB).

Fyrir sex árum var Islamska frelsisfylkingin (FIS) við það að vinna sigur í lýðræðislegum þingkosningum í Alsír. Flokkurinn boðaði að reisa bæri nýtt ríki á grundvelli islamskra laga. Í fyrri umferð kosninganna höfðu samtökin unnið 189 þingsæti af 231 og áttu sigurinn vísan í þeirri síðari. Þá greip herinn inn í. Chadli Benjedid forseta var steypt af stóli, herlög sett, kosningum var aflýst og leiðtogar FIS fangelsaðir. Skömmu síðar klofnaði FIS-hreyfingin og enn er að finna í Alsír hófsama menn sem leita vilja leiða til að hefja stjórnmálaþátttöku á ný í nafni samtakanna og hvetja því til viðræðna við stjórnvöld. Hinir róttækari mynduðu hins vegar skæruliðasveitir FIS. Síðar kom fram á sjónarsviðið enn öfgafyllri hreyfing er nefnist GIA. Stjórnvöld segja að þessir flokkar manna séu ábyrgir fyrir blóðbaðinu sem birtist heimsbyggðinni í fréttum af fjöldamorðum á óbreyttum borgurum. Hryllingurinn heim í stofu Talið er að 90-100.000 manns hafi látið lífið í Alsír frá því að kosningarnar voru lýstar ógildar. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna þess efnis að sigur á öfgaöflunum sé á næsta leiti hefur ekkert dregið úr blóðbaðinu. Öðru nær. Á síðustu vikum hafa reglulega borist fréttir af því að hundruð manna, kvenna og barna hafi verið myrt með viðurstyggilegum hætti. Morðaldan virðist óstöðvandi og nú er heimsbyggðin loks tekin að sýna óhugnaðinum áhuga. Viðbrögðin nú minna um margt á borgarastríðið í Sómalíu sem skyndilega kveikti svo heitar tilfinningar með m.a. Bandaríkjamönnum er sjónvarpsmyndir af villimannslegum glæpaverkum tóku að berast, að George Bush, þáverandi forseti, lét það verða eitt síðasta embættisverk sitt í desember 1991 að senda herlið til landsins til að stilla til friðar. Þeirri herför í nafni mannúðarinnar lauk með ósköpum. Margir munu verða til þess að vísa til þeirrar reynslu ef magnast taka kröfur um að alþjóðasamfélagið freisti þess að binda enda á morðæðið í Alsír. Ríkisstjórnin sögð ábyrg Herfræði morðsveitanna virðist vera sú að skapa algjöra upplausn í þeirri von að unnt reynist að fella ríkisstjórn landsins með því að leiða í ljós að hún standi gjörsamlega ráðalaus gagnvart hryllingnum. Við þessu hafa stjórnvöld brugðist af hörku og jafnframt látið þau boð út ganga að stríðið sé einkamál alsírsku þjóðarinnar. Margir hafa orðið til þess að halda því fram að með ólíkindum sé að ríkisstjórninni skuli ekki hafa tekist að stemma stigu við ofbeldinu og dularfullt þykir að í mörgum tilfellum skuli morðingjarnir geta framið ódæðisverk sín klukkustundum saman án þess að her eða lögregla skerist í leikinn. Kröfum um óháða rannsókn er jafnan hafnað. Margir stjórnarandstæðingar halda því fram að ríkisstjórnin sjálf sé a.m.k. ábyrg fyrir hluta morðanna enda sé viðvarandi óstöðugleiki og hryllingur fallinn til að slá á allar vangaveltur um að innleiða beri lýðræðislega stjórnarhætti. Vestrænir stjórnarerindrekar hafa sumir hverjir tekið undir þessa skýringu. Olíu- og gasvinnslan varin Stjórnvöld bera við að herafli landsins sé fámennur, einungis 130.000 manns í 29 milljóna manna ríki. Þessar sveitir geti ekki haldið uppi stöðugu eftirliti enda sé landið risastórt sem það vissulega er, um 2,4 milljónir ferkílómetra. Hins vegar hafa fjöldamorðin flest hver verið framin á fremur litlu svæði í norðurhluta landsins, sem margir fullyrða að auðveldlega mætti verja. Furðu hefur vakið að her landsins skuli hafa náð að einangra algjörlega og vernda iðnaðarsvæðin miklu í suðurhluta landsins þaðan sem olían og gasið kemur. Forgangsröðin þarf á hinn bóginn ekki að koma á óvart, þaðan koma þjóðartekjurnar sem hingað til hafa að stærstum hluta runnið til hersins og forréttindastéttarinnar sem landinu ræður. Og þær tekjur eru umtalsverðar. Í Alsír er að finna fimmtu stærstu gaslindir í heimi hér og landið er í 14. sæti hvað olíuna varðar. Ýmislegt er hins vegar óljóst í þessu efni. Fullyrt er að dauðasveitir stjórnvalda beiti því kunnuglega bragði að búa sig út sem skæruliða og að hryðjuverkamennirnir stundi það að klæðast að hætti hermanna áður en lagt er til atlögu við saklausa borgara. Áreiðanlegur fréttaflutningur er mjög af skornum skammti enda hika erlendir fjölmiðlar við að halda úti fréttariturum í landinu vegna þess hversu hættulegt það er. Meira en 50 blaðamenn hafa verið myrtir í Alsír á síðustu sex árum vegna skrifa sinna. Uppreisn gegn "valdinu" Hryllingurinn í Alsír kann að virðast enn eitt hryggilegt dæmið um þau óhæfuverk sem menn eru tilbúnir til að fremja í nafni trúarinnar. Þessi mynd er hins vegar engan veginn tæmandi. Borgarastríðið í Alsír er miklu fremur barátta um völd sem reynt er að réttlæta með tilvísun í islam.

Hið sama gerðist í fyrra stríðinu í Alsír á árunum 1954 til 1962 er þjóðernissinnar risu upp gegn yfirrráðum Frakka og hófu vopnaða baráttu fyrir sjálfstæði. Þá eins og nú var hvatt til þjóðareiningar í nafni Spámannsins og helgrar baráttu gegn kúguninni og misréttinu. Bæði Frakkar og þjóðernissinnar frömdu ólýsanleg grimmdarverk í sjálfstæðisstríðinu, sem kostaði um eina milljón manna lífið en um 950.000 þeirra voru Alsírbúar. Blóðbaðið og hryllingurinn er því ekki nýtt og áður óþekkt fyrirbrigði í sögu þessarar þjóðar. Að þessu sinni beinist uppreisnin gegn "Le pouvoir", "Valdinu", sem samanstendur af her landsins, stjórnmálastéttinni og viðskiptalífinu er mynda flókið net spillingar, hagsmunagæslu og arðráns sem orðið hefur til þess að dæma stóran hluta þjóðarinnar til sárustu fátæktar. Forréttindastéttin hefur hins vegar allt til alls og nýtur fríðinda sem um margt minna á þau sem kommúnistar í Austur-Evrópu skópu sér, enda hefur marxískum stjórnarháttum löngum verið fylgt í landinu frá 1962. Þessi hópur manna lifir í vellystingum, makar krókinn á alls kyns svartamarkaðsbraski og ólöglegum gjaldeyrisviðskiptum á meðan alþýða manna lepur dauðann úr skel. Í Alsír búa um 29 milljónir manna en tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru undir þrítugsaldri. Um 85% karlmanna á aldrinum 15 til 30 ára eru án atvinnu. Unga fólkið eygir enga von. Hefðbundnum stjórnmálaöflum hafnað Nærtækt er að horfa til örlítið kunnuglegri slóða þegar þess er freistað að draga upp mynd af ástandinu í Alsír. Í Egyptalandi hafa hryðjuverkasveitir múslima framið fjöldamorð á erlendum ferðamönnum á undanförnum árum. Er það liður í baráttu þeirra gegn ríkisstjórn landsins sem beitt hefur mikilli hörku í viðskiptum sínum við öfgaöflin og handtekið tugþúsundir manna. Líkt og í Alsír eru það einkum óbreyttir borgarar sem orðið hafa fórnarlömb þessara átaka. Ástæðan fyrir því að óbreyttur almúginn snýst til fylgis við flokka og samtök sem kveðast boða hina hreinu trú samkvæmt réttri túlkun á kenningum Spámannsins er fyrst og fremst óánægja með hefðbundin stjórnmálaöfl. Í Egyptalandi hefur stjórnarandstaðan reynst ófær um að halda uppi andófi gegn misréttinu, spillingunni og valdníðslunni sem tíðkast og ýmsir halda því fram að viljinn sé einfaldlega ekki fyrir hendi. Hreintrúarsamtökin leita inn í fátækrahverfin og eru oft eina aðstoðin sem örvæntingarfullur og allslaus almúginn fær. Þar fellur boðskapurinn í frjóan svörð. Þessar forsendur fyrir fylgi hreintrúarflokkanna hafa á hinn bóginn breyst. Í Egyptalandi er almenningur tekinn að óttast að landsins bíði að fara sömu leið og Alsír. Í báðum þessum löndum hefur stuðningurinn við þessi róttæku öfl því farið minnkandi eftir því sem fórnarlömbum ofbeldismanna hefur fjölgað. En áhrifanna gætir víðar og þau virðast ávísun á frekari óstöðugleika. Hreintrúarmenn í öðru nágrannaríki, Marokkó, hafa hvatt til þess að fram fari viðræður allra stjórnmálaafla í landinu til að koma í veg fyrir að sams konar ástand skapist þar og í Alsír. Alþjóðlegur vandi Evrópusambandið (ESB) hefur lýst yfir því að átökin í Alsír séu alþjóðlegur vandi og ljóst er að óttinn er sá að stríðið breiðist út. Robin Cook, utanríkisráðherra Bretlands, vék sérstaklega að þessu er hann hafnaði í liðinni viku þeirri röksemd stjórnvalda í Alsír að borgarastríðið væri einkamál landsmanna: "Við þekkjum mörg dæmi þess að umsvif hryðjuverkamanna í einu landi hafi orðið til þess að þau breiðist til annarra landa." Nefndinni sem stjórnvöld í Alsír hafa fallist á að taka við er ætlað að koma á framfæri áhyggjum ESB vegna þróunarinnar í landinu, afla upplýsinga um ástandið og bjóða fram "tæknilega aðstoð". Lengra verður ekki gengið að þessu sinni enda engar forsendur til þess. Sú varfærni sem ríkisstjórnir á Vesturlöndum hafa sýnt í afskiptum sínum af stríðinu í Alsír virðist rökrétt. Sáttaviljinn er enginn og reynslan hræðir auk þess sem íbúar Alsír hafa vara á sér í samskiptum við Evrópumenn sem margir tengja enn við arðrán og nýlendustefnu. Stjórnvöld eru ofurviðkvæm fyrir hverju því sem þau telja líkjast afskiptum af innanríkismálum. Þess er því tæpast að vænta að nýtt ár færi íbúum Alsír nýja von. Hryðjuverkasveitir öfgamanna og öryggissveitir ríkisstjórnarinnar hafa tekið sér leyfi til að fara með ófriði gegn íbúum landsins í nafni "helgra hagsmuna". Vesturlandabúar standa hjá enda er hagsmunum þeirra ekki ógnað. Ekki enn. Breyting kann að verða þar á taki flóttamenn að streyma yfir Miðjarðarhafið til Evrópu eða verði olíu- og gasvinnslan í suðurhlutanum heft.

Reuters ALSÍRSK kona yfirkomin af sorg við gröf barna sinna sem myrt voru sl. sunnudag í árás dauðasveita hreintrúarmanna á þorpið Sidi Hamed um 30 kílómetra suður af Algeirsborg.

Verja frekar olíu- og gasvinnsluna

Óttast að átökin breiðist út