Eins og á fyrri sýningum hér í Detroit, eru hugmyndabílar áberandi í útstillingum bílaframleiðenda sem sækja sýninguna. Hugmyndabílar eru útfærslur á framtíðardraumum framleiðanda - draumum sem oftar en ekki verða að veruleika fyrr en marga grunar.
Alþjóðlega bílasýningin í Detroit

Hugmyndabílar og

orkusparnaður

Tíunda alþjóðlega bílasýningin í Detroit var opnuð fyrir almenningi í síðustu viku. Fréttaritari Morgunblaðsins, Björn Malmquist, hefur, ásamt rúmlega 5.000 öðrum blaðamönnum, kynnt sér það helsta sem fyrir augu ber á sýningunni. Eins og á fyrri sýningum hér í Detroit, eru hugmyndabílar áberandi í útstillingum bílaframleiðenda sem sækja sýninguna. Hugmyndabílar eru útfærslur á framtíðardraumum framleiðanda - draumum sem oftar en ekki verða að veruleika fyrr en marga grunar. Þannig kynnti Volkswagen til dæmis, sem hugmynd, frumgerð nýju Bjöllunnar hér í Detroit fyrir fjórum árum og renndi síðan fjöldaframleiddri útgáfu fram á sviðið í síðustu viku. Annað dæmi er Dodge Viper og Plymouth Prowler, sem Chrysler kynnti fyrst sem hugmyndabíla og setti síðan í framleiðslu fáum árum síðar.

Umhverfið ofar öllu

Þetta árið eru umhverfisvænir bílar áberandi meðal þeirra hugmynda sem framleiðendur kynna, enda verða þær raddir sem krefjast slíkra bíla æ háværari, jafnt í Bandaríkjunum sem og annars staðar. Í upphafi sýningarinnar kynnti stærsti bílaframleiðandi heims, General Motors, nýja línu af bílum sem byggðir eru á rafmagnsbíl sem GM setti á götuna fyrir tveimur árum síðan, EV 1, bíl sem hlaut mikla athygli, en takmarkaða sölu.

Á sýningunni í ár voru kynntar útgáfur sem knúnar eru með bensíni, útgáfa sem knúin er með samruna vetnis og súrefnis með efnarafala, og einnig svokallaður tvinnbíl, sem notar bæði rafmagn og orku frá venjulegri bensínvél. Forráðamenn GM sögðu við kynningu bílanna, að þeir byggjust við að vera tilbúnir með framleiðslu á einhverjum af þessum bílum á fyrstu árunum eftir aldamót.

Ford dregur úr útblæstri jeppa

Chrysler og Ford hafa einnig kynnt hugmyndir sínar um umhverfisvæna framtíðarbíla, auk þess sem báðir þessir framleiðendur segjast munu draga verulega úr útblæstri venjulegra bensínknúnna bifreiða sem nú eru í framleiðslu. Chrysler kynnti í síðustu viku framtíðarútfærslu af Dodge Intrepid, kallaða EXS2, rennilegan fólksbíl sem knúinn er með rafmótor og sprengihreyfli og er sagður komast 70 mílur á einu galloni. Ford sýndi einnig tvinnbíl sem komast á 63 mílur á einu galloni og mun verða tilbúinn í framleiðslu árið 2001.

En það sem vakti hins vegar meiri athygli var sú ákvörðun Ford fyrirtækisins að draga verulega úr útblæstri og mengun jeppanna sem Ford er hvað þekktast fyrir um þessar mundir. Forstjóri Ford, Alex Trotman, tilkynnti á blaðamannafundi í síðustu viku að allir jeppar sem Ford framleiðir, Explorer, Expedition, Mountaineer og Navigator, sem og fjölnotabíllinn Ford Windstar, myndu á næsta ári standast hörðustu kröfur sem gerðar eru í Bandaríkjunum fyrir venjulega fólksbíla. Þetta ætlar fyrirtækið að gera með því að setja stærri og öflugri hvarfakúta í bílana, og draga þannig bæði úr mengun þeirra svo og ímyndinni um mengandi bensínháka sem fylgt hefur þessum bílum í nokkurn tíma.

Lúxus á 21. öldinni

Fyrir utan umhverfisvænar hugmyndir um framtíðarfarartæki, mátti einnig sjá skemmtilegar hugmyndir um "venjulega", bensínknúna bíla á sýningunni. Þannig kynnti Chrysler þrjá hugmyndabíla á sýningunni, þ.e. framtíðarútgáfuna Jeep Jeepster, sem er hugmynd fyrirtækisins um samruna jeppa og sportbíls, Plymouth Pronto Spyder, sem er tveggja dyra sportbíll með ytra byrðið úr plasti, og Chrysler Chronos, glæsilega útfærslu á bíl sem sumir segja að gæti orðið að flaggskipi Chrysler í framtíðinni. Honda kynnti framtíðarútfærslu á fjölnotabíl með myndavélum í stað baksýnisspegla, tölvuskjá við hvert sæti og GPS leiðsögukerfi, og í lúxusflokknum sló Mercedes Benz alla út með því að kynna framtíðarbílinn Mercedes Maybach, sem sennilega er það lengsta sem hægt er að komast, hvað þægindi og íburð varðar. Bíllinn er búinn fullkominni samskiptatækni, ferðatölvuna er að finna í hanskahólfinu, hægt er að horfa á sjónvarpið frá aftursætinu og ef farþegarnir vilja komast út og hreyfa sig, þá fylgja með tveir vel útbúnir golfpokar í rúmgóðri farangursgeymslunni. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni hvort þessi bíll myndi standast ströngustu kröfur um mengandi útblástur.

MERCEDES-Benz Maybach er lúxusbíll eins og þeir gerast róttækastir.

CHRYSLER Chronos hugmyndabíllinn gæti orðið flaggskip Chrysler innan fáeinna ára.

PLYMOUTH Spyder er að mestu gerður úr samskonar plasti og notað er í gosdrykkjadósir.

JEEP Jeepster er hugmynd fyrirtækisins um samruna jeppa og sportbíls.

PONTIAC Montana Thunder hugmyndabíllinn er blanda fjölnotabíls og jeppa.