NIÐURSTÖÐUR rannsóknarskýrslunnar um yfirtöku Færeyinga á Færeyjarbanka hafa orðið til þess að auka kröfur Færeyinga um aukna sjálfsstjórn í eigin málum og skýrari mörk í sambandinu við Danmörku. Virðist almennur stuðningur meðal stjórnmálamanna í Þórshöfn við þá tillögu Javnaðarflokksins að Lögþingið kjósi stjórnlaganefnd er geri tillögur um nýja stjórnskipan er leysi af hólmi heimastjórnarlögin
Færeyskir stjórnmálamenn vilja endurskoða sambandið við Dani

Vilja fá aukna sjálfsstjórn

Þórshöfn. Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. NIÐURSTÖÐUR rannsóknarskýrslunnar um yfirtöku Færeyinga á Færeyjarbanka hafa orðið til þess að auka kröfur Færeyinga um aukna sjálfsstjórn í eigin málum og skýrari mörk í sambandinu við Danmörku. Virðist almennur stuðningur meðal stjórnmálamanna í Þórshöfn við þá tillögu Javnaðarflokksins að Lögþingið kjósi stjórnlaganefnd er geri tillögur um nýja stjórnskipan er leysi af hólmi heimastjórnarlögin frá 1948. Sjálvstýrisflokkurinn vill reyndar ganga lengra og hyggst leggja fram tillögu um að efnt verði til þjóðaratkvæðis um fyrirkomulag sambandsins við Dani fyrir árið 2002.

Marita Petersen, fyrrverandi lögmaður, segir að fyrirkomulag heimastjórnarmálanna sé úrelt og fullyrðir að mál Færeyjabanka hefðu farið öðru vísi með annarri stjórnskipan. Hún segir að skýra verði efnahagslegt samband ríkjanna og Færeyingar verði að fá að vera sjálfstætt ríki.

Bjarni Djurholm, þingmaður Fólkaflokksins, lýsir stuðningi við að samband Færeyja og Danmerkur verði endurskoðað en Edmund Joensen lögmaður er ekki samþykkur því og hefur birting rannsóknarskýrslunnar ekki breytt þeirri afstöðu hans.

Fréttaskýrendur danskra fjölmiðla fjölluðu í gær, laugardag, um rannsóknarskýrsluna um yfirtöku Færeyinga á Færeyjabanka, og voru sammála um það, að endanleg ábyrgð á meintri sviksemi Den Danske Bank og óskilvirkni embættismanna hvíldi hjá Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra. Einna harðast í gagnrýni sinni á Nyrup er Information , en önnur blöð segja að forsætisráðherra beri siðferðilega ábyrgð og að boðskapur hans til Færeyinga á föstudag um einhvers konar fjárbætur hafi verið vel við hæfi. Í leiðara á forsíðu segir Information að það sé neyðarlegt að Nyrup skuli nú skjóta sér á bak við embættismenn, sem hafi greinilega álitið bankamálið snúast um pólitík en ekki aðeins um efnahagsmál. Embættismennirnir hefðu því ekki álitið sig geta tekið málið föstum tökum, þar sem fundin yrði pólitísk lausn. Að mati blaðsins var Nyrup og Mogens Lykketoft fjármálaráðherra mest umhugað um að Den Danske Bank slyppi sem best frá Færeyjabanka, þótt þeir hefðu í raun verið í sterkri aðstöðu til að þrýsta á danska bankann. Togstreita ráðherranna hefði staðið milli þess að ganga ekki of hart að danska bankanum og hins vegar að þurfa ekki að láta Færeyinga hafa of mikla peninga. Nú eins og þá reyndi stjórnin að hylma yfir þennan þankagang. En þótt frammistaða bankans og embættismanna sé ámælisverð sé þó verst að Nyrup og félagar axli ekki ábyrgð sína, heldur tali sig frá henni. "Af ýmsum hagkvæmnisástæðum er meirihluti þingmanna tilbúinn til að taka því," segir blaðið.

Önnur blöð eru vægari í dómum sínum. Aktuelt , sem oft endurspeglar skoðanir Jafnaðarmannaflokksins, bendir á danska bankann sem sökudólg. Skýrslan sé skelfilegt dæmi um hvernig afdrifaríkar ákvarðanir séu teknar á ónógum forsendum. Hins vegar megi ekki líta framhjá því, að kjarni málsins sé eyðsla Færeyinga um efni fram, og sú yfirsjón færeyskra stjórnmálamanna, að grípa ekki í taumana. Þar við bætist þáttur danskra stjórna, sem af kurteisi hafi ekki þorað að láta Færeyjar til sín taka. Af viðbrögðum er ljóst að skýrslan mun að öllum líkindum ekki leiða til falls stjórnarinnar, en enginn vafi er á að þingið mun samþykkja þungar ákúrur á hendur Nyrup og Lykketoft. Skýrslan inniheldur dæmi um að þessir tveir ráðherrar hafi gefið þingnefndum og þinginu upplýsingar, sem telja má villandi, en eins og Information bendir á verður varla meirihluti til að fella stjórnina.