SENDINEFND íslenzkra stjórnvalda, skipuð þeim Helga Ágústssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Kristni F. Árnasyni, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins, og Jóni Agli Egilssyni, skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu, átti í síðustu viku fundi með ráðuneytisstjóra franska utanríkisráðuneytisins og embættismönnum innanríkisráðuneytis Frakklands í París.
Fundir með frönskum stjórnvöldum

Útskýra hagsmuni Ís-

lands vegna Schengen

SENDINEFND íslenzkra stjórnvalda, skipuð þeim Helga Ágústssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Kristni F. Árnasyni, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins, og Jóni Agli Egilssyni, skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu, átti í síðustu viku fundi með ráðuneytisstjóra franska utanríkisráðuneytisins og embættismönnum innanríkisráðuneytis Frakklands í París.

Stefnt að reglulegum fundum

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er að því stefnt að koma á reglulegum fundum íslenzka og franska utanríkisráðuneytisins, en slíkir fundir eru nú haldnir bæði með þýzkum og brezkum stjórnvöldum. Er tilgangur þeirra bæði að ræða tvíhliða samskipti ríkjanna og málefni, sem varða Evrópska efnahagssvæðið og samskipti Íslands við Evrópusambandið.

Á fundunum í París lögðu íslenzku embættismennirnir sérstaka áherzlu á að útskýra hagsmuni og stöðu Íslands í fyrirhuguðum samningaviðræðum um aðlögun að breyttu Schengen-vegabréfasamkomulagi.

Schengen heyrir nú undir Evrópusambandið en ríki þess hafa til þessa verið fremur treg til að samþykkja að Ísland og Noregur, sem hafa gert samstarfssamninga við Schengen-ríkin, fái undanþágur frá valdsviði yfirþjóðlegra stofnana ESB. Lögfræðinganefnd, sem skilaði utanríkisráðherra áliti fyrir stuttu, segir slíkar undanþágur nauðsynlegar, eigi nýr samstarfssamningur við ESB að standast íslenzku stjórnarskrána.

Einkum var rætt um Schengen- mál á fundinum með innanríkisráðuneytinu, en á fundinum með ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins var farið yfir breitt svið samskipta Íslands við Frakkland og Evrópusambandið.