ÉG HLUSTAÐI á forsetann á nýjársdag. Honum mæltist vel eins og hans er von og vísa og það má forseti vor eiga, að hann hefur skoðanir og þorir að setja þær fram. En ég verð að segja það eins og er. Ég sat skelfingu lostinn á eftir.
HUGSAÐ UPPHÁTT Nokkur góð ár með álveri

Nú má ekki lengur drepa hval sér til matbjargar. Það má ekki lengur reykja í návist annarra, það má ekki aka um í bensínvæddum bíl, það verður að sortera sorpið, það verður að fara með blaðapappírinn í sérstaka endurvinnslu og menn mega ekki einu sinni syngja í baðinu. Það er kannski ekki skrítið að Ellert B. Schram sitji uppi með rosalegan móral.ÉG HLUSTAÐI á forsetann á nýjársdag. Honum mæltist vel eins og hans er von og vísa og það má forseti vor eiga, að hann hefur skoðanir og þorir að setja þær fram. En ég verð að segja það eins og er. Ég sat skelfingu lostinn á eftir. Lýsingarnar á tortímingu Íslands af völdum mengunar og gróðurhúsaáhrifa voru uggvænlegar, svo ekki sé meira sagt. Reyndar hafði maður heyrt ávæning af þessum ragnarökum frá ráðstefnunni í Kyoto, en það er nú svo margt sagt á ráðstefnum og mátulega mikið mark á því takandi.

En þarna sat sjálfur forseti Íslands og dró saman kjarna þeirrar hrakspár sem svartsýnustu menn sjá fyrir og ekki var annað að heyra en landið okkar væri orðið óbyggilegt um það leyti sem barnabörnin okkar væru að komast á fullorðinsaldur. Þetta var ófögur lýsing og ég sat þarna óbreyttur þjóðfélagsþegninn með hendur í skauti og tók auðvitað alvarlega aðvaranir forsetans, sem gerði þó ekki annað en að lýsa því sem vísindin höfðu sagt honum.

Manni fallast hálfpartinn hendur. Nú má ekki lengur drepa hval sér til matbjargar. Það má ekki lengur reykja í návist annarra, það má ekki aka um í bensínvæddum bíl, það verður að sortera sorpið, það verður að fara með blaðapappírinn í sérstaka endurvinnslu og maður má ekki einu sinni syngja í baðinu. Allt flokkast þetta undir mengun, hvort heldur hún heitir loftmengun, sorpmengun eða hávaðamengun. Gott ef það telst ekki mengun að pissa utan í húsvegg.

Maður situr auðvitað uppi með rosalegan móral þegar slíkar umskiptingar eiga sér stað í lífinu og umhverfinu og mér verður hugsað til þeirrar ævi sem ég hef eytt hér innan um aðra Íslendinga án þess nokkurn tíma að hafa gert mér grein fyrir þessari lífshættu og tortímingu og verið mér nánast ómeðvitandi um háskann sem leynist bak við reykskýin og útblásturinn og allt ruslið sem er á vitlausum stað. Og börnin og barnabörnin horfa á mann ásökunaraugum og forsetinn varar unga fólkið við þessari kynslóð minni, sem hefur vísvitandi anað út í mengunarforaðið og brugðist framtíðinni, sem nú er öll á vonarvöl.

Hvernig fór maður eiginlega að því að lifa alla þessa mengun af?

Jú, ég hef borgað skítaskattinn til borgarinnar með glöðu gleði, vegna þess að ég hef hingað til séð gamla skolpræsið í fjörunni út um stofugluggann hjá mér og er því feginn að losna við ógerilssneytt særokið í austanáttinni. Ekki var það beint lyktarbætandi.

Að öðru leyti hef ég ekki verið mér meðvitandi um mengunarhættuna og þessa voðalegu ógnun. Ég var meira að segja í hópi þeirra Íslendinga sem fögnuðu álverinu á sínum tíma og hef tekið því opnum örmum, þegar menn hafa verið að ræða um byggingar fleiri slíkra álvera. Ég hef sem sagt allur verið fyrir stóriðjuna og ekki séð neinar hættur því samfara, nema þá sem kommarnir voru að tala um í gamla daga að þjóðin glataði sjálfstæði sínu, þegar erlendur auður flæddi yfir landið og um það eru þúsund dálkar í þingtíðindum hvernig menn rifust um þá hlið málsins og öll landráðin sem fylgdu auðhringunum. En það hafði aldrei neitt með mengunina að gera.

Ég man til að mynda vel eftir því, þegar ég sat uppi á pöllunum á alþingi sem þingfréttaritari, og Einar heitinn Olgeirsson flutti sínar mögnuðu ræður um landráðin og hætturnar af Unilever, hvað mér þótti mikið til um hvað hann gat talað hratt og heitt og ég hefði sjálfsagt farið að trúa honum, nema fyrir það að mér var borgað fyrir að trúa honum ekki.

Nú er Einar fallinn í valinn fyrir löngu og raunar er Hjörleifur eini móikaninn, sem ennþá heldur því fram að stóriðjan skaði sjálfstæðið.

Þeir eru hins vegar orðnir fleiri, móikanarnir, sem eru á móti stóriðju. En af allt öðrum ástæðum og jafnvel Davíð forsætisráðherra vill fara varlega og maður veit ekki lengur í hvorn fótinn er rétt að stíga til að vera í takt við þá pólitik, sem þjónar flokknum eða þjóðinni. Ekki frekar en í Evrópumálunum eða kvótabraskinu, þar sem allt er á huldu um stefnuna. Enda er ekki ætlast til að menn hafi aðrar skoðanir en þær sem leyft er að tala um.

Ég hef átt nokkur góð ár og nokkra góða daga með álveri en nú tekur forsetinn og forsætisráðherra og eflaust þjóðin öll undir með húsameistara ríkisins og segir: ekki meir, ekki meir.

Ég hef stundum verið ferðalangur í útlöndum og séð þar verksmiðju við verksmiðju, eins og til dæmis í Sviss, þar sem allt er fínt og fágað í því friðsæla landi og snjórinn fellur skjannahvítur til jarðar og grasið er grænt eins og náttúran litar það. Hvernig má það vera að fornfrægar iðnaðarþjóðir komast upp með það að bjóða hverskyns kompaníum upp á lóðir og loftrými og byggja fabrikur út um allar koppagrundir án þess að nokkur æmti né skræmti?

En svo þegar kemur að því að reisa hér annað álver, ætlar allt vitlaust að verða og heimurinn á mörkum tortímingar? Ég sem hélt að stormbeljandinn á Íslandi svipti því litla í burtu, sem skaðað gæti mannlífið og síst af öllu þyrftum við að hafa áhyggjur af loftmengun á þessum útkjálkavindrassi. Kannske er það þá vindurinn og rokið eftir allt saman, sem feykir útblæstrinum út í himingeiminn og veldur öllum þessum umhverfisspjöllum? Það hefur þá ekki verið til einskis þegar maður bölvar þessum eilífa stormbeljanda!

Mér hefur satt að segja skilist af öllum auglýsingunum og hátt stemmdum lýsingum í ferðabæklingum allra handa ferðaskrifstofa fyrr og síðar að hér væri hreint land og fagurt og ekkert að óttast nema þá helst það að landið legðist í eyði vegna veðurfars og vangetu okkar til að laða fjárfesta og stóriðjuhölda til að fjárfesta í orkunni, sem rennur óbeisluð til sjávar. Og nú er ferðaþjónustan orðinn valkostur í stað stóriðjunnar, hvernig svo sem það verður þegar túristarnir troða illsakir við íslensk griðlönd og landið allt verður orðið samfelldur friðaður þjóðgarður og umhverfisráðuneytið bannar útikamra og bannar líka fólki að pissa úti í guðsgrænni náttúrunni. Þá fyrst verður nú "ballade" í mengunarátakinu.

Hefur það ekki verið keppikefli stjórnmálamanna að reisa hér álver og kísilverksmiðjur og nú er einmitt nýbúið að gefa út myndarlega ævisögu Einars Benediktssonar, sem gat sér það frægðarorð að vera á undan samtíð sinni, með öllum sínum hugmyndum um virkjanir og óbeisluð vatnsföll? Er það virkilega að koma í ljós að Einar hafi haft rangt fyrir sér og þar af leiðandi hvorki verið á undan samtíð sinni né á eftir henni? Að minnsta kosti væri Einar ekkert betur staðsettur í nútímanum, ef svo fer sem horfir að stóriðja er vísasta leiðin til glötunar. Hann fengi ekki góðar kveðjur í áramótaávörpum, sá mikli framúrstefnumaður.

Já, svona er nú heimurinn skrítinn og tilveran kröpp. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að Íslendingar þyrftu að vísa framförunum á bug af ótta við að tortíma sjálfum sér og jafnvel allri heimsbyggðinni. Kannske er best að hverfa aftur til fortíðar og setjast að í torfkofunum sálugu og una glaður við sitt.