TVEIR af þremur gagnrýnendum Morgunblaðsins völdu Málið gegn Larry Flynt ­ The People vs Larry Flynt, ('96), eina af 10 bestu myndum ársins sem var að líða. Það var ekki til að slæva ánægjuna að hún var einnig myndin sem kom stórleikstjóranum Milos Forman aftur inná landakort þeirra bestu. Forman er af tékknesku bergi brotinn, fæddur 1932 í nágrenni Prag.
MILOS FORMAN

Sígild myndbönd TVEIR af þremur gagnrýnendum Morgunblaðsins völdu Málið gegn Larry Flynt ­ The People vs Larry Flynt, ('96) , eina af 10 bestu myndum ársins sem var að líða. Það var ekki til að slæva ánægjuna að hún var einnig myndin sem kom stórleikstjóranum Milos Forman aftur inná landakort þeirra bestu. Forman er af tékknesku bergi brotinn, fæddur 1932 í nágrenni Prag. Foreldrar hans, faðirinn af gyðingaættum, móðirin mótmælandi, báru beinin í útrýmingarbúðum nasista. Snemma á sjötta áratugnum lauk hann kvikmyndanámi við listaháskólann í Prag og varð strax notadrjúgur á því sviði. Gerði nokkrar eftirtektarverðar stuttmyndir og lék í myndum vina sinna uns hann lauk sinni fyrstu, löngu mynd, Konkurs , 1963. Á þessum árum fór andrúmsloftið hlýnandi í Tékkóslóvakíu og mikil gróska í listalífi, ekki síst kvikmyndagerð. Þriðja mynd leikstjórans, Svarti Pétur ­ Cerný Petr, (63) , fór víða og hlaut mikið lof. Það var hinsvegar sú næsta . Ástir ljósku ­ Lásky jedné plavovlásky/The Loves of a Blonde, ('65) , sem vakti athygli umheimsins á þessum unga leikstjóra sem þótti góður sögumaður með skopskynið í lagi. Dansleikur brunavarðanna - Horí má panenko/The Fireman's Ball, (68) , veitti honum alþjóðlega viðurkenningu. Enn ríkti vor í Prag og skopast Forman óspart undir rós að sovésku stríðsherrrunum. Sem reyndust takmarkaðir húmoristar. Myndin hans Formans um dansleik þar sem brunaverðirnir missa stjórnina á eldinum, endurspeglaði óbeit landa hans á stjórnmálaástandinu. Gagnrýnisraddirnar gerðust æ háværari uns sovéski járnhællinn hófst hátt á loft og buldi á tékknesku þjóðinni með fullum þunga. Það tók hana síðan önnur tuttugu ár að losna endanlega undan farginu og verða frjáls þjóð að nýju. Sovéska setuliðið varð þess valdandi að frjáls hugsun tæpast skrimti. Hvergi skjól í landinu nema neðanjarðar, þar sem menn einsog Václav Havel voru með menninguna í gjörgæslu. Forman flúði land ásamt fjölda góðra kvikmyndagerðarmanna; Vilmos Zsigmond, Laszlo Kovacs, Ivan Passer, Miroslav Ondricek, ofl. Ádeilan dulbúna, Dansleikur brunavarðanna , er ein af bestu myndum Formans, bæði hún og Ástir ljósku eru til hér á leigum og eru góður kostur. Forman var fljótur að komast í gang í Hollywood, gerði 6 myndir fyrir bandaríska aðila á árunum 1971 ( Taking Off ) til 1984, ( Amadeus ). Þá var röðin komin að Valmont, ('89) , rislágri útgáfu Formans af Les Liaisons Dangereuses , svo miklu slakari en mynd Stephens Frears, sem þá hafði farið sigurför um heiminn, að Forman tók sér sjö ára hvíld. Margir héldu að dagar hans sem leikstjóri væru taldir, en þá kemur þessi fína mynd um klámkónginn Flynt og nú eru aðdáendur hans í sjöunda himni. Maðurinn sem gerði Gaukshreiðrið , eina bestu mynd samtímans, er aftur kominn á strik. Forman er með tvær myndir í smíðum sem á að frumsýna í ár. Man on the Moon , sem er rómantísk gamanmynd með ungu stjörnunum Natalie Portman, Thora Birch og Brad Renfro, og The Little Black Book , með Danny De Vito. Eftir gamalkunnugt handbragð hans á Málinu gegn Larry Flynt , ætti öllum að vera óhætt að hlakka til . . . GAUKSHREIÐRIÐ ­ ONE FLEW OBER THE COCKOO'S NEST, ('75)Ein af bestu myndum allra tíma segir sögu smákrimma (Jack Nicholson) sem álítur að hann geti losnað við fangelsisdóm ef hann er vistaður á geðsjúkrahúsi. Þar mætir hann ofjarli sínum, yfirhjúkrunarkonunni, (Louise Fletcher). Hún kann tökin á að gera menn að löggildum vanvitum þegar hún sér að þeir geta ógnað veldi hennar. Á yfirborðinu sjáum við hvernig hinn frjálsi andi er kæfður innan veggja sjúkrahússins. Forman hefur sjálfsagt haft örlög heimalandsins í huga, sem þá var í járngreipum Sovét. Það má túlka aðstæðurnar á marga vegu. Hvaða leið sem er farin er myndin óendanlega áhrifamikil. Lengi vel er hún óborganleg gamanmynd, síðan tekur gamanið að grána og lokakaflinn þegar búið er að brjóta McMurphy niður, laga hann að kerfinu, er nánast óbærilegur. Það leggst allt á eitt, enda var myndin sú fyrsta í fjóra áratugi til að fá 4, reyndar 5, eftirsóttustu Óskarsverðlaunin; fyrir leikstjórn, bestan leik í aðalhlutverkum og besta mynd ársins. Þau fimmtu fyrir handritið. Aukaleikararnir eru einnig hver öðrum betri. Mynd sem allir verða að sjá. TAKING OFF, ('71)

Fyrsta mynd Formans í Vesturheimi er ekkert sérlega þekkt, engu að síður bráðfyndin skoðun gestsins á hinum sérstaka tíðaranda sem ríkti á Vesturlöndum við lok sjöunda áratugarins og framá þann áttunda. Kenndur við blóm, hippa og dóp. Þeir Forman og handritshöfundurinn Buck Henry, sem einnig fer með eitt aðalhlutverkið, gera honum eftirminnileg skil í skoplegri, einfaldri frásögn um kynslóðabilið ­ sem hefur líklega aldrei verið stærra. Aðalpersónurnar eru foreldrar (Henry og Lynn Carlin) stúlku sem strokið hefur að heiman. Í öngum sínum reyna þau að setja sig í spor hinnar uppreisnargjörnu æsku blómatímans með þeim árangri að spurningin er hver sé vandamálið. AMADEUS, ('84)Reisn og fall Wolfgangs Amadeusar Mozart (Tom Hulce) og þáttur kollega hans og öfundarmanns, Salieri (F. Murray Abrahams) í því mikla sjónarspili og eyrnakonfekti, er umfjöllunarefni þessarar margverðlaunuðu, sannsögulegu myndar. Einstaklega vel heppnuð sem búningamynd og drama, tónlistin fær vitaskuld mikið rúm og að henni hlúð á allan hátt. Abrahams stendur uppúr sem hinn slægvitri Salieri, ásamt búningahönnuðunum, tónlistarupptökustjórum og Forman, sem hefur gott tak á öllum þáttum þessarar tilkomumiklu og margbrotnu myndar. Sæbjörn Valdimarsson Milos Forman

TOM Hulce fór á kostum í hlutverki Mozarts.

JACK Nicholson bregður á leik í Gaukshreiðrinu.

LYNN Carlin og Audra Lindley í "Taking Off".