JAMES Cameron tókst það. Hann gerði Titanic, ríflega þriggja stunda langa ástar- og stórslysamynd, að metsölumynd og bjargaði þar með andlitinu, hefur sjálfsagt endurvakið Hollywood stórmyndina og kveðið að nokkru niður gagnrýnisraddir sem segja að kostnaðurinn við bíómyndagerð í Hollywood sé orðinn stjórnlaus og að mógúlarnir í Hollywood séu ekki með

Stór

mynd um

stórslys Fáar myndir hafa hlotið eins mikið umtal og Titanic eftir James Cameron að sögn Arnalds Indriðasonar enda dýrasta mynd sem gerð hefur verið. Hún hefur slegið í gegn svo um munar og er vinsælasta myndin hér á landi í byrjun ársins. Hverjir fjármögnuðu hana og af hverju varð hún svona dýr og af hverju er hún svona vinsæl? JAMES Cameron tókst það. Hann gerði Titanic, ríflega þriggja stunda langa ástar- og stórslysamynd, að metsölumynd og bjargaði þar með andlitinu, hefur sjálfsagt endurvakið Hollywood stórmyndina og kveðið að nokkru niður gagnrýnisraddir sem segja að kostnaðurinn við bíómyndagerð í Hollywood sé orðinn stjórnlaus og að mógúlarnir í Hollywood séu ekki með öllum mjalla að dæla hundruðum milljónum dollara í bíómynd. Cameron tókst að gera Titanic að mynd sem allir telja sig verða að sjá. Hún mun koma út með gróða. Í Bandaríkjunum hefur hún tekið inn ríflega 200 milljónir dollara og því spáð að hún muni enda í á milli 275 til 300 milljónum dollara. Henni hefur einnig vegnað feikilega vel um heiminn. Hér á Íslandi hafa um 33.000 manns séð hana á tæplega tveimur vikum. Tröllslegar leikmyndir Það var ljóst frá upphafi að framleiðsla myndarinnar mundi kosta óhemju pening. Cameron heillaðist af sögu Titanic eftir að hann kafaði niður að flaki hins sögufræga stórskips og bjó til ýtarlegan söguþráð sem lýsti ferðum niður að flakinu í nútímanum í leit að verðmætum demanti, ástarævintýri um borð í skipinu í fyrstu og einu ferð þess og hinu hörmulega slysi þegar það sigldi á borgarísjaka og sökk og 1500 manns létu lífið. Kostnaðurinn var m.a. fólginn í tröllslegum leikmyndum. Cameron lét smíða 235 metra skipsskrokk, sem aðeins var 10 prósentum smærri en fyrirmyndin. Hann lét koma honum fyrir í 64 milljón lítra tanki þar sem hann sökkti honum. Myndin var tekin á 16 hektara landssvæði sem kvikmyndaverið 20th Century Fox keypti í Rosarito í Mexíkó og Cameron lét kvikmyndaverið greiða fyrir síendurteknar ferðir niður að flaki Titanic, þar sem leikstjórinn notaði kvikmyndavélar sérsmíðaðar eftir hans höfði. Cameron (Tortímandinn, Sannar lygar) hefur orð á sér fyrir að fara fram úr fjárhagsáætlunum en tekjur af myndum hans hafa numið meira en milljarði dollara svo Fox- kvikmyndaverið hikaði ekki við að leyfa honum að ráðast í gerð Titanic. En myndin krafðist slíkst fjármagns að Fox treysti sér ekki til að sjá um hana eitt síns liðs og leitaði liðsinnis hjá öðrum risaverum í Hollywood. Slík samvinna er ekki ný af nálinni vestra, myndir eins og "Braveheart" og "Starship Troopers" voru gerðar í samvinnu tveggja kvikmyndavera. Þegar tökur hófust í júlí árið 1996 átti Fox í viðræðum við Universal, sem áður hafði tekið þátt í kostnaði við gerð Sannra lyga með mjög vænlegum árangri. Þá var fjárhagsáætlun fyrir Titanic aðeins rúmar 100 milljónir dollara en Universal hikaði því áætlunin virtist ekki vel grunduð. Að auki átti myndin að vera þriggja klukkustunda löng sem þýddi að aðeins gæti orðið ein kvöldsýning á henni og það gæti haft alvarleg áhrif á tekjumöguleika. Á meðan Universal hikaði hafði Paramount samband við Fox og spurði hvort það mætti vera með í Titanic. Paramount hafði gert "Braveheart" í samvinnu við Fox og ekki séð eftir því; Mel Gibson gerði frábæra mynd sem fékk góða aðsókn og fjöldann allan af Óskarsverðlaunum. Hvers vegna ætti leikurinn ekki að endurtaka sig? Eitthvað var Paramount að gera sér rellu útaf óraunsærri 100 milljón dollara fjárhagsáætlun og því að engin súperstjarna var í myndinni en Fox á hinn bóginn hélt því fram að Titanic yrði söguleg stórmynd á borð við Sívagó lækni og Á hverfanda hveli. Samningur var gerður sem kvað á um að Paramount tæki þátt í gerð myndarinnar og fengi tekjur af henni á mörkuðum í Bandaríkjunum og Kanada en Fox af dreifingu utan Bandaríkjanna. Paramount þrýsti í gegn samningi sem tryggði að kvikmyndaverið mundi aldrei setja meira en 65 milljónir dollara í framleiðsluna. Það var upphafið á því sem forstjóri Fox kallar "hryllilegt samband" milli fyrirtækjanna. Kostnaður úr böndunum Kostnaðaráætlunin fór fljótlega úr 100 milljónum í 200. Titanic er ekki eina stórmyndin frá Hollywood sem valdið hefur taugatitringi í bókhöldurum stóru kvikmyndaveranna. Himnahliðið eftir Michael Cimino er kannski frægasta dæmið um þá stjórnlausu eyðslusemi sem ein Hollywoodmynd getur orsakað. Fox stóð frammi fyrir samskonar vandamáli og United Artists þegar Cimino var kominn í óefni með myndina sína. Ekki var hægt að reka Cimino á sínum tíma því hann var sá eini sem þó vissi hvað sneri upp og niður á Himnahliðinu. Á sama hátt var Cameron leikstjóri Titanic hvað sem það kostaði og það kom ekki til tals að reka hann. Hann hafði gert handritið og litið var svo á að hann væri einn fárra leikstjóra í heiminum sem ráðið gæti við verkefni af þeirri gríðarlegu stærðargráðu sem Titanic er. Fox varð að standa við bakið á honum. "Það var aðeins ein leið fyrir okkur að fá peninga útúr myndinni og hún var sú að gera þá bestu mynd sem hægt var að gera," hefur vikuritið Time eftir Bill Mechanic, forstjóra Fox. Kostnaðurinn við myndina hækkaði í sífellu. Paramount neitaði að setja meira fé í framleiðsluna og Fox reyndi í fyrstu að halda kostnaðinum undir 150 milljónum dollara og síðan 175 milljónum. Framleiðslukostnaðurinn endaði í 200 milljónum rúmum og þá er ekki reiknað með kostnaði við auglýsingaherferðina. Tökudagarnir urðu 160 og kostnaðurinn við tölvuteikningarnar varð 30 milljónir dollara; alls eru 550 tökur tölvuteiknaðar en til samanburðar má geta þess að það þurfti aðeins 80 slík skot til þess að gera Júragarðinn að metsölumynd. Í stað þess að hætta við atriði í handritinu, sem Cameron fannst að mættu alls ekki missa sín, ákvað hann að draga úr launum sínum. Hann borgaði t.d. sjálfur laun leikkonunnar Kathy Bates, sem fer með hlutverk Molly Brown "hinnar ósökkvanlegu". Og á endanum gaf hann eftir sinn ágóðahlut af myndinni. Það eina sem hann fékk í vasann voru laun fyrir handritsgerðina. Cameron svarar fyrir sig Fjölmiðlar vestra veittu myndinni mikla athygli á framleiðslustiginu og sögðu fréttir af því hversu mjög áætlanir hefðu farið úr böndunum, hvernig Cameron missti iðulega stjórn á skapi sínu og léti kvikmyndatökuliðið vinna hvíldarlaust vikum saman. Fresta varð frumsýningu á myndinni í sumar, sem ekki varð til þess að draga úr neikvæðri athygli á myndinni, og Fox og Paramount áttu opinberlega í orðaskaki vegna frumsýningardagsins í desember. Cameron hefur svarað mörgu af því sem að hans mati sagt hefur verið villandi um myndina hans, m.a. að hún hafi kostað 285 milljónir dollara. Hann heldur sig við 200 milljónirnar. Hann efast um að hún sé dýrasta mynd sem gerð hefur verið og bendir á að stórmyndir fjórða, fimmta og sjötta áratugarins mundu eflaust vera dýrari en Titanic ef þær væru gerðar í dag. Hann segir að enginn hafi gert sér grein fyrir hversu stór og mikil framleiðslan var í raun og veru; skipsskrokkurinn var eins og 75 hæða bygging liggjandi á hliðinni í stærsta vatnstanki sem byggður hefur verið. Um skaplyndi sitt á meðan á tökum stóð segir Cameron að hann hafi ekki persónuleikann sem þarf til þess að vera leikstjóri og honum leiðist sá hluti kvikmyndagerðarinnar mest en hann gætti þess alltaf að fara vel að leikurunum því hans skilningur sé sá að þeirra starf sé það erfiðasta af öllum og hann reyndi alltaf að vera þeim til taks og stuðnings. Hvort hann hafi öskrað á allt og alla á meðan á tökum stóð? Kannski hrópað. "Þegar maður vinnur með hundruðum aukaleikara dag eftir dag í marga mánuði verða hrópin daglegt brauð. Þeim fylgdi næstum aldrei nein reiði." Allt þetta kemur okkur áhorfendum svosem ekki mikið við. Miðaverðið er það sama á Titanic og á 5 milljón dollara mynd. Þegar vel tekst til eins og með Titanic njótum við þeirrar ágætu skemmtunar sem aðeins stórmynd getur veitt. Ástæðurnar fyrir vinsældum myndarinnar eru sjálfsagt margskonar en ein þeirra hlýtur að vera sú að Cameron hefur tekist að búa til raunverulegt bíó á tímum þegar bíómyndir eru gerðar til þess að vera á endanum sýndar á sjónvarpsskjám. Í seinni tíð hafa þær verið lítið annað en útblásnar sjónvarpsmyndir. Það er ekki lengur eins gaman að sjá myndir í kvikmyndahúsum því menn hafa týnt niður hlutföllum og stærðum og sviðsbúnaði og glæsileika og stórfenglegum sögum. Sem betur fer eru til undantekningar og þá taka áhorfendur við sér. Titanic er gott dæmi um þetta. Verða gerðar fleiri 200 milljón dollara stórmyndir í Hollywood á næstunni? Vafalaust. Munu þær allar heppnast eins vel og Titanic? Vafalaust ekki. LEIKSTJÓRINN James Cameron á tökustað Titanic: Næstum aldrei nein reiði. GLAMÚR og glæsileiki um borð í skipinu ósökkvandi; Winslet, DiCaprio og Bates í hlutverkum sínum í Titanic. ALLT á floti allstaðar: 64 milljón lítra vatnstankur var byggður fyrir myndina. HIN fjörgamla Rósa segir söguna af Titanic í mynd Camerons.