UM DAGINN fór ég ásamt kunningja mínum frá Úganda á gajin pöbb eða útlendingakrá. Þar var margt um manninn og mér var tekið eins og gömlum kunningja enda ekki margir útlendingar í borginni og þessi krá virðist vera þeirra afdrep og samkomustaður. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom þangað en Tim, kunningi minn fyrrnefndur, kynnti mér staðinn.
Tannpínukvöldið Japansbréf Sá sem ekki er japanskur verður aldrei annað en gajin, sama hve lengi hann dvelur í landinu og reynir að aðlaga sig menningunni, skrifar Þóroddur Bjarnason og segir frá heimsókn sinni á útlendingakrá.

UM DAGINN fór ég ásamt kunningja mínum frá Úganda á gajin pöbb eða útlendingakrá. Þar var margt um manninn og mér var tekið eins og gömlum kunningja enda ekki margir útlendingar í borginni og þessi krá virðist vera þeirra afdrep og samkomustaður. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom þangað en Tim, kunningi minn fyrrnefndur, kynnti mér staðinn. Sá sem ekki er japanskur verður aldrei annað en gajin, sama hve lengi hann dvelur í landinu og reynir að aðlaga sig menningunni. Um þetta ræðum við Tim þarna á barnum eftir að ég hafði innt hann eftir framtíðaráætlunum sínum. Var hann sestur að í Japan? Eða ætlaði hann að snúa aftur til Úganda. Af þessum kunningja mínum hef ég fræðst mikið um Afríku og hvernig lífshættir þar eru.

Fyrst þegar ég hitti hann varð ég undrandi á því hve lýtalausa ensku hann talaði, en þar var fáfræði minni um að kenna, því hann sagði mér að enska væri opinbert mál í landinu þó reyndar talaði hann úgandísku og swahili einnig en það væri meira brúkað spari. Þegar talið barst að mínu eigin tungumáli vildi hann ólmur fá að heyra hvernig það hljómaði. Ég fór með nokkur vel valin orð á hinu ástkæra ylhýra og Tim greip það á lofti og svaraði mér með einhverju sem hjómaði glettilega líkt. "Þetta hljómar alveg eins og eþíópska," sagði hann og brosti og brá aftur fyrir sig talanda Eþíópa. Þetta fannst honum stórmerkilegt og mér reyndar líka og umsvifalaust fór ég að hugsa um tengsl landanna. Voru einhver tengsl? Trúboðar, Rauði krossinn eða hvað, en ég vissi að þetta hlaut að vera tilviljun. Ég nýt óneitanlega ákveðinnar sérstöðu að koma frá landinu kalda, sem ég á erfitt með að útskýra fyrir þeim sem ég hitti að sé eiginlega ekki eins kalt og hægt er að áætla af nafni landsins. Og þrátt fyrir að ég viðri vitneskju mína um golfstrauminn og mistökin sem í upphafi tíma hafi verið gerð í nafngiftum Íslands og Grænlands hefur það oftast lítið að segja. Ég er í raun hættur að nenna að útskýra þetta, segi bara; já rosalega kalt, burrrrr, og hristi mig allan þegar Ísland ber á góma.

Menn eru líka undrandi að sjá mig, íslenska víkinginn, dúðaðan með trefil og með handprjónaða ullarvettlinga, sem mér satt að segja datt ekki í hug að ég myndi taka upp úr skúffu hér í Japan, það var aðeins fyrir þrákelkni móður minnar að ég féllst á að stinga þeim ofaní ferðatöskuna áður en ég hélt af landi brott. Ég held stundum að ég ætti kannski að harka af mér, ganga bara á stuttermabol úti í kuldanum, til að sýna mönnum ljóslifandi hreysti íslenskra víkinga en ég læt nægja að segja bara burrrrrr. Áður en við fórum á gajin barinn, sem er rekinn af skoskum manni og japanskri konu hans, sagði Tim mér að hann væri einkum sóttur af útlendingum og svo japönsku kvenfólki. Sárafáir japanskir karlar stigju fæti inn á krána enda mættu þeir sín lítils gegn aðráttarafli útlendinganna á japanskar konur. Þetta kom svo allt á daginn enda er það satt að útlendingar, hversu vel eða illa þeir eru af Guði gerðir, geta hæglega tekið innfæddar konur á löpp, eða þær þá, eftir því hvernig á það er litið.

Góða útskýringu á þessu fékk ég reyndar í upphafi dvalar minnar í Japan þegar ég hitti Bill, sem hafði dvalið hér við enskukennslu, eins og flestir aðrir útlendingar, og ætlaði að freista þess að komast í bandaríska flugherinn að lokinni dvöl sinni hér. Hann sagði mér að ekkert í sambandi við kynlíf væri syndsamlegt fyrir japanskar stúlkur og það væri enginn bókstafur í þeirra trúarlega innræti sem segði að líkamlegt samneyti við aðila af gagnstæðu kyni fyrir hjónaband væri eitthvað sem ætti að fara í felur með. Hann sagðist, eins og fleiri enskukennarar hafa sagt mér líka, einkum dvelja í Japan sökum hrifningar sinnar á japönskum konum og hefði hann nóg að gera við að sinna því áhugamáli sínu. En hvað um það. Hlutirnir eru kannski ekki alveg svona einfaldir. Ef að því kemur að stofnað er til sambands sem endar í hjónabandi geta hlutirnir breyst þó vissulega sé hjónaband japanskra kvenna og útlendinga oft nokkuð annað en hjónaband milli innfæddra. Útlendingar líta gjarnan hjónabandið öðrum augum og telja það mál beggja aðila að hlúa að því á meðan japanskar eiginkonur fórna frelsi sínu fyrir hjónabandið og sjá fram á löng kvöld heima með börnunum þar sem eiginmaðurinn er alltaf í vinnunni og konan sér um allt sem að heimilinu snýr. Það kemur því ekki á óvart að konur sem vilja ná metorðum fresti hjónabandi eins lengi og hægt er og nýjustu tölur sýna að færri gifta sig ár frá ári, barneignum fækkar og skilnuðum fjölgar. Tim vinur minn er einn þeirra sem giftir eru japanskri konu. Einmitt þetta kvöld hafði hann raunir að rekja og yfir bjórglasi sagði hann mér að hann þyrfti nú ekkert að vera að hafa áhyggjur af því að fara snemma heim í rúm, enda rúmið autt og kalt og yrði svo þartil næsta dag. "Og hvers vegna, eru einhver vandamál hjá ykkur?" spurði ég og beið eftir að heyra sorgarsöguna. "Við kynntumst í Tókyo," byrjaði Tim að segja mér, "og þá var allt í himnalagi, engin vandamál og slíkt en síðan við fluttum hingað til Kitakyushu hefur ýmislegt breyst." Jú, ástæðan var sú að í Kitakyushu býr móðir konu hans og ástæðan fyrir því að þau fluttu þangað var búseta hennar þar. "Það er ekki að mér finnist eitthvað að því að hún heimsæki móður sína en það sem ég er ekki sáttur við er að ef það koma upp einhver vandamál þá leitar hún fyrst til mömmu en segir mér svo af því seinna og þegar hún fer til móður sinnar er það ekki stutt heimsókn heldur dvelur hún alltaf yfir nótt. Ég er góður eiginmaður, þríf heimilið, elda og þvæ þvottinn."

Tim fannst hann greinilega ekki eiga þetta skilið og ég sagðist skilja raunir hans. Þetta kvöld okkar á gajin barnum var einmitt eitt af þessum kvöldum. Kona hans hafði fengið tannpínu og heimsótt tannlækni og til að jafna sig eftir á hafði hún farið til móður sinnar og ætlaði að gista þar yfir nóttina. Ég veit að það er ekki ástleysi sem hrjáir þau skötuhjú heldur viðurkenndi Tim að undirrótin væru ólíkir menningarheimar, Úganda og Japan. Annars sagði hann mér að það væri fullt samkomulag milli þeirra um framtíðina, þau ætluðu að safna peningum í Japan í tvö ár, setja kannski upp afrískt veitingahús, og snúa síðan til Bandaríkjanna þar sem Tim ætlaði að fullmennta sig í viðskiptafræðum en snúa síðan til Úganda til að lifa góðu lífi og til að undirstrika það sagði hann að hann væri nú þegar ríkur maður á úgandískan mælikvarða. Fyrir japönsku kennaralaunin ein getur maður lifað eins og kóngur, í stóru húsi, haldið þjónustulið, og lifað áhyggjulaus til æviloka. Ég er strax farinn að hlakka til heimsóknar minnar í höll Tims í Úganda, hann er þegar búinn að taka frá herbergi fyrir mig í höllinni, og þar ætlum við að eiga góða tíma, borða vínber, drekka kampavín og rifja upp sögur af dvöl okkar í Japan.