RANNSÓKNARSKÝRSLA um aðdraganda yfirtöku Færeyinga á Færeyjabanka var birt á föstudag og er hún sögð áfellisdómur fyrir dönsk yfirvöld. Ríkisstjórn Pouls Nyrup Rasmussen vísaði hins vegar í fyrradag á bug að hún bæri ábyrgð á málinu. Rasmussen viðurkenndi þó að Færeyingar hefðu verið hlunnfarnir og sagði að þeir hefðu ástæðu til að vænta bóta frá Dönum.
Færeyingar vilja skaðabætur

RANNSÓKNARSKÝRSLA um aðdraganda yfirtöku Færeyinga á Færeyjabanka var birt á föstudag og er hún sögð áfellisdómur fyrir dönsk yfirvöld. Ríkisstjórn Pouls Nyrup Rasmussen vísaði hins vegar í fyrradag á bug að hún bæri ábyrgð á málinu. Rasmussen viðurkenndi þó að Færeyingar hefðu verið hlunnfarnir og sagði að þeir hefðu ástæðu til að vænta bóta frá Dönum. Viðbrögð færeyskra leiðtoga við birtingu skýrslunnar voru varfærnisleg, en Edmund Joensen, lögmaður Færeyja, sagði að illa hefði verið með Færeyinga farið og lét í ljós þá skoðun sína, að eðlilegt væri að Færeyingar fengju tveggja milljarða danskra króna skaðabætur vegna málsins. Þá sagði hann að eftir væri að ákveða hvort farið yrði í mál gegn Dönum og þá hvort málshöfðun yrði á hendur stjórninni eða Den Danske Bank.

Kreppan í Asíu segir til sín í Evrópu

FJÁRMÁLAKREPPAN í Asíu tók nýjan kipp í byrjun vikunnar er gengi verðbréfa í Hong Kong tók dýfu og órói var víða í kauphallarviðskiptum. Vonast er til að boðaðar efnahagsumbætur í Indónesíu snúi þróuninni við. Þá urðu ný teikn um að efnahagur Suður-Kóreu sé kominn yfir versta hjallann til að draga úr áhyggjum áhrifamestu seðlabankastjóranna, sem funduðu í Sviss um aðstoð við Asíuríkin og áhrif asísku kreppunnar á efnahagslíf heimsins. Er hún þegar tekin að hafa neikvæð áhrif á hagvaxtarhorfur í Evrópu þar sem ljóst er að útflutningur frá Evrópu til Asíu mun minnka.

FUGLAFLENSAN á líklega upptök sín í Hong Kong en ekki Kína, sagði sérfræðingur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á föstudag.

DEILT var um Dreyfus- málið og þrælahald í Frakklandi fyrir 150 árum á franska þinginu á fimmtudag. Hægrimenn kröfðust afsagnar Lionels Jospin forsætisráðherra, sem sagði hægrimenn hafa stutt þrælahaldið og verið andvíga því að sýkna Alfred Dreyfus. Boðaði Jospin afsökunarbeiðni í næstu viku.

Í ÞEIM tilgangi að draga úr umferðarslysum hafa norsk umferðaryfirvöld lagt til að ungir ökumenn fái fyrst eftir bílpróf ekki að aka að nóttu til.

SJÖ ár voru í gær frá upphafi Persaflóastríðsins og af því tilefni hótaði Saddam Hússein Íraksforseti að hætta samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar um vopnaeftirlit nema efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Írak yrði aflétt. Írakar stöðvuðu starf vopnaeftirlitshópa SÞ á þriðjudag og héldu þeir frá Bagdad á föstudag. Rússar leituðust við að miðla málum í vikunni en spenna vex og stefndu Bretar t.a.m. flugmóðurskipinu Invincible til Persaflóa.