NOKKRUM sinnum gegnum tíðina hef ég flogið til Lúx, labbað með farangurinn yfir á bílaleiguna við hliðina á flugstöðinni og brunað síðan af stað til annarra landa án þess að veita umhverfinu mjög nána athygli.
LÚXEMBORG

Skemmtilegir

haustdagar

Lúxemborg er í augum margra ferðamanna lítið annað en flugvöllur og bílaleiga. Áslaug Óttarsdóttir fékk nýja og betri mynd af borginni eftir að hafa eytt þar nokkrum góðum dögum.

NOKKRUM sinnum gegnum tíðina hef ég flogið til Lúx, labbað með farangurinn yfir á bílaleiguna við hliðina á flugstöðinni og brunað síðan af stað til annarra landa án þess að veita umhverfinu mjög nána athygli. Ég hafði þó tekið eftir því að það sem ég sá af landinu þegar ég keyrði þar um var fallegt og það er alltaf freistandi að heimsækja önnur lönd svo ég ákvað að slá til, taka boðinu og skoða Lúxemborg að hausti. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Hótel Nobilis

Hótelið sem varð fyrir valinu heitir Hótel Nobilis. Það er staðsett skammt frá aðaljárnbrautarstöðinni en þangað fórum við með rútu frá flugvellinum. Hótel Nobilis var byggt árið 1980 og allt gert upp árið 1993. Það stendur við verslunargötu og í sama húsi eru margs konar verslanir. Herbergin eru hlýleg og notaleg, öll með baðherbergi, sjónvarpi og síma. Ég lét ekki reyna á veitingahús hótelsins en get hiklaust mælt með morgunmatnum. Þar sem ég er þannig gerð að ég er lystug frá því ég vakna á morgnana þar til ég sofna á kvöldin finnst mér hótelmorgunmatur alltaf mjög spennandi og læt mig ekki vanta þar. Ég var því full eftirvæntingar þegar ég mætti fyrsta morguninn til morgunverðar á Hótel Nobilis og hann stóðst allar mínar væntingar. Hlaðið borð með góðu brauði, mörgum tegundum af jógúrt, ferskum ávöxtum og góðum ostum. Ég fékk vatn í munninn og hlakkaði til að vakna næstu þrjá morgna.

Fyrsti dagurinn í nýju landi fór í það að skoða nánasta umhverfi hótelsins. Rölta um og skynja borgina, skoða í búðarglugga, kanna matseðla veitingahúsanna, njóta þess að vera í fríi og skoða fólkið sem byggir þessa borg sem ég var í fyrsta sinn að heimsækja almennilega.

Það fyrsta sem ég tók eftir og gladdi mig mikið var hversu auðvelt var að rata í Lúxemborg. Ég sem er alltaf eins og útlendingur í Reykjavík og villist þar auðveldlega. Í Lúxemborg þvældist ég um eins og innfædd, var aldrei í vafa í hvaða átt skyldi haldið og var farin að vísa til vegar þeim sem betur þekktu borgina.

Áberandi var hversu allir voru vel til hafðir og fínir. Þær komu í röðum litlu huggulegar konurnar í fallegu drögtunum og kvenlegu vönduðu skónum. Karlmennirnir gáfu þeim ekkert eftir, allir eins og klipptir út úr auglýsingu, óaðfinnanlega klæddir.

Það er greinilegt að hér býr ríkt fólk. Bílarnir á götunum bera þess merki að almenningur í Lúxemborg virðist hafa næg efni, það sáust ekki gamlir né illa farnir bílar. Betlara sér maður ekki í Lúxemborg.

Verslanir

Þrátt fyrir góðan ásetning og fögur fyrirheit var haldið í verslunarferð. Það var liður í því að kynnast landi og þjóð enn betur. Verslanirnar voru allar mjög í anda þess sem ég hafði upplifað þegar ég skoðaði íbúa borgarinnar. Klassískar verslanir með klassísk, falleg og vönduð föt.

Ég var fljót að sjá það að hér yrði ekkert verslað fyrir táningana mína, ég sé þær ekki fyrir mér í Rodier-drögtum og Ballý-skóm.

Tvennt var það sem vakti athygli mína þegar ég skoðaði verslanirnar. Annars vegar voru það ilmvatnsbúðirnar sem mér fannst vera í öðru hvoru húsi. Þetta voru engar smáverslanir og ég hef aldrei á ævinni séð jafn margar ilmvatnstegundir saman komnar á einum stað eins og í stærstu versluninni sem ég fann. Það var mikið sprautað og þefað á leiðinni gegnum verslunina. Annað sem ég tók eftir var fjöldi tískuverslana fyrir verðandi mæður. Þrátt fyrir það sá ég aðeins eina ófríska konu þessa fjóra daga sem ég dvaldi í borginni. Það er greinilega mikið lagt upp úr því að verðandi mæður séu huggulegar til fara eins og hinar konurnar.

Barnafataverslanir eru einnig margar og fötin mjög skemmtileg sem þar fást, en það var eins og það vantaði verslanir fyrir táninga. Levi's-búðir sá ég að vísu, en það er mikill munur ef við berum borgina saman við Reykjavík þar sem mér finnst meirihluti verslana ætlaður ungu fólki.

Við lauslega athugun á verðlagi í verslunum sem skoðaðar voru fannst mér það nokkuð svipað því sem ég á að venjast hér á landi.

Öðru máli gegnir um matvöruna. Hún er ódýrari í Lúxemborg. Það fyrsta sem ég skoðaði var verð á steinselju þar sem hún er það besta sem ég fæ. Þvílíkur munur og það flaug í gegnum hugann að flytja úr landi þegar ég sá magnið af steinselju sem ég fékk fyrir sama verð og einn lítill poki af henni kostar hér á landi. Er nauðsynlegt að selja hana svona dýrt?

Út að borða

Á þessum fjórum dögum voru nokkrir veitingastaðir prófaðir. Það var mjög ómarkviss prófun, þegar ég varð svöng settist ég inn á næsta stað og fékk mér næringu. Það var mikið úrval af stöðum og það sem ég prófaði var gott og ekki spillti verðið fyrir. Þarna er hægt að fara út að borða og fá sér rauðvín með matnum án þess að því fylgi samviskubit. Í Lúxemborg er mikið af litlum kaffihúsum í tengslum við bakarí. Kökurnar og konfektið eru eins og listaverk og ég dróst að þessum stöðum og skoðaði varninginn eins og ég væri að skoða listaverk.

Það eru sjálfsagt margir merkilegir staðir og söfn sem spennandi væri að skoða í Lúxemborg. Ég læt það bíða næstu ferðar. Bókasafnsfræðingurinn ég gat þó ekki gengið fram hjá þjóðarbókhlöðunni í Lúxemborg án þess að kíkja aðeins inn. Það er svo gaman að finna að það er alltaf sama lyktin á öllum bókasöfnum sama hvar maður er staddur í heiminum. Mér finnst lyktin góð og hana finn ég bara á bókasöfnum. Ég minnist þess ekki að hafa áður séð bókasafn byggt við kirkju en þjóðarbókasafnið í Lúxemborg stendur við hlið Notre Dame-kirkjunnar. Hana skoðaði ég líka. Kirkjan er frá 17. öld, falleg, stór og mikið skreytt.

Lúxemborg er falleg borg sem gaman er að heimsækja og ég vona að ég hafi tök á því að gera það aftur í framtíðinni. Það sem helst einkennir landslag borgarinnar eru gilin. Það var mjög fallegt að sjá hvernig hús hafa verið byggð í hlíðum giljanna og gróðurinn ofan í giljunum var mjög fallegur, margar tegundir af hávöxnum trjám. Gróðurinn naut sín sérstaklega vel þar sem haustlitirnir voru farnir að prýða laufin.

Eftir þessa frábæru frídaga í Lúxemborg fór ég að skilja vinsældir helgarferðanna að hausti sem eru svo vinsælar hjá íslensku þjóðinni. Hingað til hef ég skoðað stórborgir heimsins í miklum hita sumarsins en það er ólíkt betra að labba um í 15-17 hita og ef tilgangur ferðanna er að kaupa föt er mun hentugra að gera það í hita sem er nær því sem við eigum að venjast.

Að lokum langar mig að minnast á forsíðufrétt í Morgunblaðinu um svipað leyti og ég hélt til Lúxemborgar. Þar segir frá því að karlmenn gangi snyrtilegar um en konur. Það kom mér ekkert á óvart þegar ég sá að úrtakið í könnuninni voru hótelgestir. Hversu oft er það að við konur komumst í þá aðstöðu að geta gengið um eins og okkur sýnist, nota þrjú handklæði þegar við förum í sturtu, fara niður til morgunverðar frá óumbúnu rúminu, nota í morgunverðinum alla þá diska og öll þau áhöld sem á þarf að halda og standa svo upp frá öllu saman og koma upp í herbergið tiltekið, búið að búa um rúmin, tína saman óhreinu handklæðin og ný komin í staðinn. Þetta hljómar eins og draumur og ég naut hans.

Höfundur er bókasafnsfræðingur. FRÁ brúnni sem tengir saman nýja og gamla bæinn.

HAUSTLITIR í Lúxemborg.

NOTRE Dame kirkjan í Lúxemborg.

GÖTUMYND úr gamla bænum.

Það er áberandi hversu allir voru vel til hafðir og fínir.