HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra ákvað í gær að samgönguráðuneytið skyldi standa undir kostnaði við ferð samgöngunefndar Alþingis til Brussel, sem nefndin fór til að kynna sér breytingar sem eru að verða í rekstrarumhverfi póst- og símafyrirtækja. Áður hafði verið áformað að Landssíminn hf. og Íslandspóstur hf. greiddu ferðina.

Ráðuneytið borgar

ferð samgöngunefndar

HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra ákvað í gær að samgönguráðuneytið skyldi standa undir kostnaði við ferð samgöngunefndar Alþingis til Brussel, sem nefndin fór til að kynna sér breytingar sem eru að verða í rekstrarumhverfi póst- og símafyrirtækja. Áður hafði verið áformað að Landssíminn hf. og Íslandspóstur hf. greiddu ferðina.

Í yfirlýsingu sem Halldór sendi frá sér í gær staðfestir hann að samgönguráðuneytið hafi boðið samgöngunefnd í kynnisferðina. Ferðin hafi verið gagnleg og upplýsandi. Hins vegar hafi verið gagnrýnt að Landssíminn hf. og Íslandspóstur hf. ættu að standa undir ferðakostnaði þingmanna. Sjálfsagt sé að koma til móts við þessa gagnrýni.

Hver á að borga ferðir þingnefnda?

"Þessi reynsla hlýtur eftir sem áður að skilja eftir sig þá spurningu hverjir eigi að bera kostnað af því að þingnefndir geti fylgst með flóknum og erfiðum málefnum á vettvangi Evrópusambandsins. Samgönguráðuneytinu er ljúft að gera það að þessu sinni, en vill um leið minna á, að það er þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga og snertir virðingu Alþingis að þingnefndir séu ekki upp á aðra komnar ef þær meta það svo að þörf sé á vinnu- og kynnisferðum eins og þeirri sem nú var farin til Brussel. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að þær grundvallarreglur sem gilda í fjarskipta-, póst- og samkeppnismálum eru settar í Brussel. Framkvæmd samþykkta ESB getur hins vegar verið með ýmsum frávikum. Því er mikilvægt að stjórnvöld og þingmenn hafi sem gleggstan skilning á eðli og markmiðum hinna ýmsu tilskipana, en það getur ráðið miklu um framkvæmd þeirra hér á landi. Einnig er mikilvægt að Íslendingar séu vakandi og geti komið að athugasemdum og fyrirvörum þegar íslenskir hagsmunir kalla á það við þróun nýrra reglna og tilskipana Evrópusambandsins," segir í yfirlýsingu samgönguráðherra.