JÓN Þóroddur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs fjarskipta hjá Landssímanum, segir að um mitt ár í fyrra hafi áætlaður kostnaður Íslands af því að tengjast væntanlegu alþjóðlegu ljósleiðaraneti, Oxygen, verið áætlaður 45 milljónir bandaríkjadala, eða tæplega 3,3 milljarðar íslenskra króna.
Tenging gæti kostað 3,3 milljarða króna

JÓN Þóroddur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs fjarskipta hjá Landssímanum, segir að um mitt ár í fyrra hafi áætlaður kostnaður Íslands af því að tengjast væntanlegu alþjóðlegu ljósleiðaraneti, Oxygen, verið áætlaður 45 milljónir bandaríkjadala, eða tæplega 3,3 milljarðar íslenskra króna.

Jón Þóroddur segist telja hæpið við núverandi aðstæður að íslenskir aðilar geti séð sér hag í því að tengjast Oxygen-kerfinu, vegna þess hve kostnaðurinn sé mikill.

Hann segir að sér virðist sem fyrir þessa fjármuni mætti kosta lagningu ljósleiðara í eigu Íslendinga, og e.t.v. samstarfsaðila þeirra, yfir hafið, t.d. milli Austfjarða og Noregs, eða um Færeyjar til Bretlands. Þaðan væri þá hægt að tengjast þjónustu Oxygen-kerfisins, sem stefnt er að því að verði ljósleiðarakerfi sem spannar alla jörðina.

Aðspurður um hugsanlegan hagnýtan ávinning íslenskra aðila af tengingunni sagði hann að sá ávinningur gæti ekki verið annar en sá að fá ódýrari tengingu, meiri bandvídd á lægra verði. Við skoðun á þessum kosti hingað til hefði þetta ekki virst vænlegur kostur fyrir Landssímann, nema einhver aðili gefi sig fram sem kaupandi að því flutningsrými sem býðst fyrir það verð sem sett er upp. Jón Þóroddur sagði slíkan aðila ekki sjáanlegan hér á landi nú; eini hugsanlegi kaupandi þjónustunnar væri Landssíminn. Hann sagði hins vegar að þróunin í fjarskiptaheiminum væri ör og að ekki væri ráðgert að Oxygen-kerfið yrði fullgert fyrr en árið 2003.