Í dag er annar sunnudagur eftir þrettánda. Meðal texta dagsins eru alkunn orð úr bréfi Páls postula til Rómverja: "Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum. Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú"" (Róm. 1:1­17).
Kraftur Guðs til hjálpræðis

Í hugvekju dagsins segir sr. Heimir Steinsson m.a.: Meðvitundin um nýtt líf í réttlæti trúarinnar verður hlutskipti þitt hverju sinni sem Guð leyfir þér að finna návist sína í leyndardómi.

Í dag er annar sunnudagur eftir þrettánda. Meðal texta dagsins eru alkunn orð úr bréfi Páls postula til Rómverja:

"Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum. Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú"" (Róm. 1:1­17).

Þessi orð eru af ritskýrendum nefnd "aðalefni Rómverjabréfsins" eða þema þess. Þau eru fræg úr kirkjusögunni og ollu m.a. straumhvörfum á trúarferli Marteins Lúthers.

Fáein orð um Rómverjabréfið

Rómverjabréfið í heild er í hópi þýðingarmestu rita Nýja testamentisins. Talið er, að Páll hafi ritað það í Korintuborg á Grikklandi einhvern tíma á árunum 55­57 e. Kr. Um þær mundir hafði kristni þegar skotið rótum í Rómaborg.

Tilefni þess, að postulinn ritar bréfið til Rómverja, er m.a. þáttaskil í lífi hans sjálfs: Hann hefur nú lokið kristniboði í þeim löndum við austanvert Miðjarðarhaf, sem hann í upphafi taldi í sínum verkahring. Hugur hans stefnir til Spánar. Á leiðinni vestur gjörir hann sér vonir um að heimsækja Rómaborg og eyða stundarkorni í samfélagi kristinna manna þar, en halda síðan áfram eftir að hafa notið uppörvunar þeirra. Allur þorri hinna kristnu í Róm hafði enn ekki kynnzt Páli, og þess vegna fannst honum eðlilegt að gjöra nokkra grein fyrir sér og trú sinni.

Páll hafði nú predikað fagnaðarerindið í tvo áratugi. Vel má vera, að postulanum hafi verið ljóst, að hann sakir lífsreynslu og íhugunar hefði náð fullum trúarþroska og að honum með Guðs hjálp bæri að setja fram trú sína ýtarlega og í heild. Hann kann og að hafa haft í huga stærð og vægi kristna safnaðarins í Róm, ­ höfuðborg þess heims, sem Vesturlandabúum þá var kunnur. Víst er um það, að í Rómverjabréfinu birtast viðhorf í postulans með umfangsmeiri hætti en víðast hvar annars staðar. Bréfið hefur því orðið einn af hornsteinum kristins dóms og "þema" þess eða aðalefni að sama skapi áhrifamikið.

Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið

Fyrr í þessum sunnudagshugvekjum hefur ítrekað verið fjallað um "fagnaðarerindið". Kirkja fagnaðarerindisins, hin evangeliska kirkja, tjáir ekki tilverugrundvöll sinn á annan hátt betur en með ævinlegri skírskotum til fagnaðarerindisins.

Hennar verkefni er reyndar hvorki hlutlaus umfjöllun um fagnaðarerindið né fræðileg tilvísun til þess. Kirkjan er til þess sköpuð og kölluð að boða fagnaðarerindið, flytja mönnum hinn gleðilega boðskap þeim til trúar. Verkefni hennar er að taka við orðum frelsarans, er hann sjálfur færði fram í upphafi predikunar sinnar. "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu" (Mark. 1:15). ­ Kirkjan er lifandi veruleiki, og sama máli gegnir um fagnaðarerindið. Það er leyndardómsfullt líf Guðs í heiminum og fæðir af sér líf utan enda.

Páll kveðst ekki "fyrirverða sig" fyrir fagnaðarerindið. Í öðrum stað segist hann predika "Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku" (1. Kor. 1:23). Fagnaðarerindið er sagan um krossfestingu og upprisu Krists. Gyðingar hneyksluðust á boðskapnum um krossfestan Messías. Heiðingjar hlógu að málatilbúnaðinum í heild. Þess vegna tekur Páll það sérstaklega fram, að hann ekki fyrirverði sig fyrir þessa sögu, eins og Gyðingar og heiðingjar, enda sé sagan kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.

Hverjum þeim sem trúir

Að trúa fagnaðarerindinu er að treysta þeim viðburðum, sem fagnaðarerindið greinir frá. Sá sem reiðir sig á Krist, krossfestan og upprisinn, trúir fagnaðarerindinu. Ef þú fyrir þitt leyti setur traust þitt á það, að krossfesting frelsarans og upprisa verði þér til hjálpræðis, ert þú í hópi þeirra, sem trúa. Þá veizt þú líka, að trú þín er "kraftur Guðs" og knýr þig áfram fyrir náð heilags anda. Þú ert sjálfur frelsaður og lifir "ekki framar, heldur lifir Kristur í" þér (Gal.2:20). ­ Þú ert krossfestur með Kristi, dáinn og greftraður með honum til þess að lifa nýju lífi "eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins" (Róm. 6:3-4).

Þetta innihald trúar þinnar er næsta mikilvægt, þessi umskipti á högum þínum, þetta að þú ert orðinn "ný sköpun" (Gal.6:15), "nýr maður" (Ef.4:24). Trúin felur ekki það í sér að hafa komizt á snoðir um eitthvað, aflað sér vitneskju um tiltekin efni, tekið einhverja tíðindasögn trúanlega. Trúin merkir afturhvarf frá einu lífi til annars, endurfæðingu, sem hefst í skírn þinni og stefnir á "vaxtartakmark Krists fyllingar" (Ef.4:13).

Með þetta í huga verður auðveldara að skilja 17. vers 1. kapítula Rómverjabréfsins, síðara versið sem hér er til umræðu: "Því að réttlæti Guðs opinberast í því (þ.e. fagnaðarerindinu) fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú"". Kristur hefur friðþægt fyrir synd þína. Með dauða sínum á krossi hefur hann sýknað þig af ranglæti þínu. Með upprisu sinni hefur hann gefið þér endurfæddum nýtt líf í réttlæti. Þetta kraftaverk meðtekur þú í einni saman trú. Þaðan í frá hvílist þú í Guði. Það ert þú, sem postulinn talar um, er hann segir: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú".

Meðvitundin um nýtt líf í réttlæti trúarinnar verður hlutskipti þitt hverju sinni sem Guð leyfir þér að finna návist sína í leyndardómi. Reynsla þín af einingu við Guð er árétting meðvitundarinnar. Þú öðlast þá reynslu fyrir meðalgöngu heilags anda við lestur Ritningarinnar og við bæn. Jafnframt stendur reynslan undursamlega þér til boða í hvern tíma annan eða "hvar og hvenær sem Guð þóknast" (sbr. Jóh.3:8), undir stjörnum og sól og við farinn veg.