HVAÐ finnst fólki í sjávarplássum um kvótakerfið? Óðinn Gunnar Óðinsson er sjálfur Austfirðingur og bjó um hríð á Borgarfirði eystra þar sem hann var skólastjóri grunnskólans. Íbúar eru um 200 og mikilvægasta atvinnugreinin er smábátaútgerð.

Stór hluti óánægjunnar

á sér siðferðislegar rætur

HVAÐ finnst fólki í sjávarplássum um kvótakerfið? Óðinn Gunnar Óðinsson er sjálfur Austfirðingur og bjó um hríð á Borgarfirði eystra þar sem hann var skólastjóri grunnskólans. Íbúar eru um 200 og mikilvægasta atvinnugreinin er smábátaútgerð. Óðinn ákvað að taka púlsinn á fólkinu á staðnum, kanna hvað það segði sjálft um kvótann og birti niðurstöðurnar í mannfræðiritgerð sinni til meistaraprófs við Háskólann í fyrra. Hann viðurkennir að hætta geti verið á að fræðimaður sé of nátengdur viðfangsefninu þegar viðmælendur séu sumir persónulegir vinir og kunningjar. Þyngra vegi samt að þekking hans á aðstæðum hafi komið að mjög góðu gagni, verið ómetanleg.

­ Þú segir að líklega hefði mátt finna heppilegri leiðir til að hindra ofveiði en kvótakerfi, segir að hlusta hefði átt betur á raddir fólksins. Hvað áttu við og hvaða lausnir hefðu þá verið notaðar?

"Á sjöunda og áttunda áratugnum voru hagfræðingar duglegir að benda á það, þegar þeir voru að koma fram með sín fiskveiðistjórnunarlíkön, að þau stjórntæki líffræðinganna sem fram að því höfðu verið ráðandi, væru "félagslega merkingarlaus" vegna þess að þau tækju ekki á þáttum eins og hagkvæmni veiðanna, offjárfestingu.

Of einföld mynd

Ég er sammála því að ofnýting auðlinda er félagslegt vandamál og að það verður að taka á því út frá öllum þeim margbreytilegu mannlegu þáttum sem þar spila inn í. Hagrænu módelin sem nú eru í tísku taka hins vegar á of fáum þáttum, það eru of fáar breytur í jöfnunni, svo og er myndin sem upp er dregin af manninum sem veru of einföld. Þrátt fyrir marga góða kosti markaðarins, t.d. drifkraft hans og sköpunarmátt, þá loðir sú ímynd við hann að eins og sjálfkrafa komi með honum svör við vandamáli eins og ofnýtingu auðlindar. Um leið er gefið til kynna að allt sem áður hefur verið hugsað um samhengi manns og auðlindar sé óbrúkanleg forneskja.

Í ritgerðinni er ég ekki að reyna að benda á aðrar leiðir til fiskveiðistjórnunar en nú eru farnar. Ég er aftur á móti að reyna að lýsa og greina hvernig menn töluðu sig inn í fiskveiðistjórnun með kvótum og síðan reyni ég að lýsa hvernig orðræðan tekur smátt og smátt á sig nýja siðferðislega mynd þegar menn átta sig á afleiðingum kerfisins.

Ég trúi því hins vegar að ef vel eigi að takast í jafnveigamiklu, flóknu og afdrifaríku máli eins og fiskveiðistjórnun hjá okkur Íslendingum þurfi að vinna málið meira niðri á jörðinni og þá á ég við að hana þurfi að ákveða með fólkinu. Taka þurfi tillit til m.a. siðferðislegra þátta vegna þess að þeir eru samþættir efnahagsstarfseminni.

Stór hluti óánægjunnar með kvótakerfið á sér siðferðislegar rætur. Þegar ég tala um að vænlegra sé að hlusta á raddir fólksins þá á ég m.a. við þetta vegna þess að ég veit að í þeim er líklegra að leiðir finnist sem meira viðunandi eru. Fólk vill vera skynsamt og ábyrgðarfullt og leitar yfirleitt sjálft leiða til þess að vera það. Það er ekki þar með sagt að fræðin geti ekki einnig komið þar að gagni.

Það er margt að núverandi kerfi, bæði í vistfræðilegum, hagrænum og öðrum félagslegum skilningi og á því er nauðsynlegt að taka yfirvegað en óhikað. Þar eru einnig góðir þættir sem þarf að halda í. Menn þurfa að vera tilbúnir að viðurkenna gallana og leita nýrra leiða."

­ Í ritgerðinni er fjallað um sérstök tengsl þjóðarinnar við fiskveiðar, gagnrýnt að hagfræðingar hafi einblínt á efnahagslega þáttinn þegar þeir fjalla um fiskveiðistjórnun. Þeim hætti til að hundsa félagslega og menningarlega þætti.

"Þegar ég er að gagnrýna hina hagfræðilegu áherslu þá er það ekki gert á þeim forsendum að mikilvægir hagrænir þættir eins og hagkvæmni og offjárfesting skipti ekki máli. Það er hins vegar mikilvægt að aðgreina ekki efnahagsstarfsemina frá öðrum félags- og menningarlegum þáttum eins og tíðum er gert í hinni "hagrænu" umræðu, líkt og hún væri utan samfélagsins og kæmi ekki öðru en sínu einangraða fyrirbæri við.

Það er eitthvað í íslenskri menningu sem gerir það að verkum að fyrir marga Íslendinga er þetta of stórt stökk, frá því að hugsa um og umgangast fiskinn í hafinu sem auðlind sem allir gátu sótt í, sem nokkurs konar óþrjótandi matarkistu. Nú verður hún takmörkuð eign tiltölulega fáeinna einstaklinga sem geta selt öðrum réttinn til þess að sækja í þessa kistu. Eða eins og Jón gamli Vídalín hefði orðað það, með því "að selja einum þörf sína" sem var fordæmanlegt samkvæmt gömlum boðskap kirkjunnar. Þetta ásamt fleiri þáttum er eftir sem áður siðferðislega óviðunandi í huga margra."

Sjávarútvegurinn aflar rúmlega helmings gjaldeyristekna Íslendinga en þetta hlutfall hefur lækkað stöðugt undanfarna áratugi með tilkomu tekna af ferðaþjónustu og stóriðju. Spyrja má hvort fiskurinn sé ekki orðinn fjarlægari í vitund meirihlutans sem vinnur við ýmsa þjónustu eða iðnað, mun fjarlægari en í litlu sjávarþorpi.

"Margt hefur breyst undanfarin ár, þ.á m. vegna breyttra viðskiptahátta, fleira til góðs en ekki, held ég," svarar Óðinn. "Fiskveiðistjórnunarkerfið er að vissu leyti partur af þessu ferli sem við getum kallað markaðsvæðingu og felst m.a. í því að gera alla hluti sambærilega, svipta þá sinni félagslegu sögu svo að þeir verði gjaldgengir fyrir aðra hluti, t.d. peninga. Gegn þessu virðist erfitt að spyrna þótt margir Íslendingar eigi enn erfitt með að ímynda sér að óveiddur fiskur geti verið markaðsvara."

Hann bendir á að Íslendingar hafi styrkt sjálfsímynd sína og samtöðu í landhelgisdeilnum en nú sé svo komið að hugurinn beinist meira inn á við, að innbyrðis tengslum þegar rætt sé um sjávarútveg. Menn gangi heldur ekki að ímyndinni um Íslendinga sem jafna einstaklinga vísri lengur.

"Þannig að á vissan hátt býr fiskurinn enn með þjóðinni á sinn huglæga hátt eða kannski holdgerða hátt, þótt fáir hafi afkomu sína beint af honum. Það er líka ljóst að Íslendingar eru ekki einsleitur hópur né búa þeir við sambærilegar aðstæður. Þess vegna getum við sagt að fiskurinn sé nær hinni daglegu vitund íbúa í sjávarplássi. Það er spurning hvort ekki eigi að taka tillit til þess þegar um jafn afdrifaríkar aðgerðir og fiskveiðistjórnun er að ræða."

Fiskveiðar á undanhaldi?

­ Fiskveiðar eru frumframleiðsla og slíkar atvinnugreinar eru á undanhaldi í flestum ríkum löndum, einnig veiðar með smábátum. Er þetta þróun sem hlýtur að verða hér þannig að sjávarútvegurinn verði innan nokkurra áratuga ekki lengur "aflvaki þjóðarinnar", eins og það er orðað í ritgerðinni?

"Ég veit ekki hvort fiskveiðar, þótt þær flokkist stundum undir svonefnda frumframleiðslu, séu endilega á undanhaldi, allavega ekki alls staðar og svo fer þetta eftir því frá hvaða sjónarhorni þetta er skoðað. Við munum alltaf þurfa á næringu að halda og jarðarbúum fjölgar hratt. Vissulega hefur þeim sem vinna við þessar greinar fækkað undanfarna áratugi. Engu að síður skipta veiðar víða miklu máli, einnig í vestrænum löndum.

Sem efnahagslegur aflvaki á sjávarútvegur sennilega lengi enn eftir að gegna miklu hlutverki á Íslandi. Sem huglægur aflvaki skiptir hann enn miklu máli eins og við sjáum á deilunum um kvótakerfið."

­ Er meiri ástæða til að vernda smábátaútgerð en starf litla kaupmannsins á horninu?

"Ég veit ekki hvort þessi samanburður er endilega réttmætur þegar á bak við er skyggnst. Við sjáum líka að stórir frystitogarar, það sem Íslendingar kölluðu ryksugur fyrir nokkrum árum, virðast nú sums staðar eiga undir högg að sækja. Róðurinn gegn þessu útgerðarformi á eflaust eftir að þyngjast að einhverju leyti, ekki síst af vistfræðilegum ástæðum. Margir telja útgerð smábáta vistvænni en annarra.

Þá er rétt að hafa í huga að hún er grundvöllur byggðar í nokkrum plássum á Íslandi og svo sem víðar í nágrannalöndum okkar, hvað þá annars staðar í heiminum. Margir telja einnig að hér sé um lífsstíl að ræða, þ.e. þessi sveigjanlegi einyrkjarekstur sem fjölskyldan er stundum öll innvikluð í, sem eigi rétt á að fá að lifa. Það að smábátaútgerð er víða á undanhaldi getur verið vegna þess að hún búi við aðstæður sem eru henni fjandsamlegar en ekki vegna þess að það sé eitthvert lögmál að hún hljóti að hverfa.

Þessar ójöfnu aðstæður eru víða þekktar, s.s. eins og minni aðgangur að fjármagni lánastofnana, valdameiri hagsmunasamtök stórútgerða sem oft eiga þar með auðveldara með að koma sjónarmiðum og áhrifum sínum á framfæri innan stofnana fjármála og ríkisvalds. Og svo hefur berlega komið í ljós að stórútgerðarrekstur á auðveldara með að þrífast innan kerfis þar sem kvótar eru framseljanlegir."

­ Nú segja margir að reynt sé að treysta gildandi kerfi í sessi með skattalögum og minni háttar breytingum, koma á það hefðarrétti enda sé mikið í húfi, ekki eingöngu hagsmunir nokkurra einstaklinga heldur allur verðbréfamarkaðurinn íslenski. Verður þetta reyndin, hvernig sérðu framtíðina í þessum efnum fyrir þér?

"Það er ljóst að hér er um mikla hagsmuni að ræða og ekki óeðlilegt að þeir sem yfir kvóta ráða vilji áfram hafa eitthvað um hann að segja. Kvótinn sem verðmæt eign er mjög flæktur inn í ólíkustu þætti þjóðlífsins eins og bankakerfið, lífeyrissjóðakerfið, sparnað manna og svo framvegis. Sterkasta leiðin til að tryggja núverandi kerfi í sessi er verðbréfavæðing útvegsfyrirtækjanna sem meira og minna eru metin m.t.t. kvótastöðu þeirra. Það hlyti eitthvað að gefa sig ef skyndilega ætti að fara að krukka í þetta samband.

Auðlindagjald, sem nú er mikið talað um, þýðir í raun ekki breytingu á kerfinu. Slíkt gjald myndi styrkja núverandi kerfi í sessi og því er í raun með ólíkindum hvað útgerðarmenn eru tregir að ljá máls á þeirri hugmynd, svona taktískt séð, því sú ráðstöfun myndi koma til móts við réttlætiskennd margra. Og kerfi sem menn búa við verður bæði að vera réttlátt og hagkvæmt. Dómstólarnir hafa undanfarin ár verið styrkja kerfið, þótt það sé á vissan hátt gert óbeint. Í dag er t.d. greiddur erfðafjárskattur af eignfærðri kvótaeign við uppgjör á dánarbúi.

Af þessu öllu má sjá að það verður sífellt erfiðara að breyta kerfinu sem ég held þó að sé vilji meirihluta þjóðarinnar. Auðvitað ættu ráðamenn sem fyrst að kalla saman stóran hóp hagsmunaaðila og þá á ég við margvíslegra aðila. Fulltrúar almennings og fjölbreytilegs hóps fræðimanna ættu að fara í gegnum fiskveiðistjórnunarkerfið, kryfja það með opnum og málefnalegum huga til þess að komast að ákjósanlegri niðurstöðu fyrir sem flesta."

­ Víða um heim er rányrkja mikið vandamál í sjávarútvegi. Er ástæða til að ætla að ábyrgðartilfinning íslenskra sjómanna og útvegsmanna sé meiri en annars staðar og líklegra að þeir gæti hófs ef þeim verður selt sjálfdæmi um sókn?

"Rányrkja á höfunum á sér víða stað, það er rétt. Það er hins vegar ekki rétt sem oft er haldið fram að sé aðgangurinn að miðunum almennur hljóti það að vera svo að engar reglur eða takmarkanir gildi um sóknina.

Margt sýnir okkur að fyrir daga kvótakerfisins umgengust Íslendingar hafið af mikilli óforsjálni og jafnvel græðgi þannig að hegðun þeirra féll vel að hugmyndum áhrifamikilla hagfræðinga, sem ganga út frá manninum sem gráðugum, félagsfirrtum einstaklingi. Við skulum þó átta okkur á því að þetta átti sér stað í ákveðnu efnahagslegu umhverfi, t.d. með samspili kapítalísks markaðar og aukinnar tækni.

Ég veit ekki hvort ábyrgðartilfinning kemur með valdboði. Mér sýnist að þrátt fyrir stöðugt aukna veiði fyrir daga lögskipaðra takmarkana hafi sjómenn á Íslandi engu að síður verið gæddir ábyrgðartilfinningu. Flestir voru líka hlynntir takmörkunum þegar menn voru sannfærðir um að of nærri fiskistofnum væri gengið. En ég veit einnig að ýmsum sem töluðu árið 1983 sem ákafast með takmörkun veiða með leyfisbundnum kvótum, t.d. á Fiskiþingi, blöskrar hvernig kerfið hefur þróast.

Það er líka auðséð að kerfið virðist ekki hafa gert menn ábyrgari gagnvart náttúrunni því frákast fisks er mikið í kerfinu og að vísa til þess að þannig hafi það alltaf verið er léleg afsökun. Menn koma hins vegar ekki með meiri afla að landi en yfirvöld hafa ákveðið.

Sá yngsti hálffertugur

Það er einnig til aragrúi skjala í sjávarútvegsráðuneytinu frá því fyrir daga kvótakerfisins, frá t.d. sjómönnum, bæjarstjórnum og samtökum sem oft eru að leggja til ýmsar aðgerðir sem stundum hafa þann tilgang að vernda fiskistofna. Það var sem sagt í gangi ákveðin umræða, reyndar óformleg, þar sem menn voru sífellt að glíma við hugmyndir um nýtingu á fiskinum. Ég held að þarna kunni að hafa verið lausnir sem hefðu getað verið nýtanlegar í púkk undir árangursríkt fiskveiðistjórnunarkerfi.

Leyfisbundnir kvótar gætu vel átt heima í þessu púkki, þó þannig að aðgengi nýrra útgerðarmanna yrði auðveldara en nú er. Í plássinu þar sem ég gerði rannsókn mína er yngsti útgerðarmaðurinn nú að verða hálffertugur og enginn nýr hefur í raun bæst við síðan fyrir daga kvótakerfisins.

Kannski vantaði betri vettvang til þess að taka á þessu máli á opnari hátt en gert var og hann vantar enn. Þeir sem réðu ferðinni voru of mótaðir af einu skapalóni, þ.e. þessu sem við þekkjum þar sem markaðslausnir eru til grundvallar. Nú eru markaðslausnir búnar að sýna fyrir löngu að þær eru oft heppilegasta formið í viðskiptum manna og þær geta líka verið það þegar taka þarf á auðlindanýtingu. Það er hins vegar ekki sjálfgefið. Þær geta leyst einn vandann, en þær geta líka skapað annan. Ef aðgerðir eins og auðlindastýring eru þannig framkvæmdar að þær eru í andstöðu við vilja eða siðferðiskennd meirihluta þjóðarinnar, þá eru þær dæmdar til að misheppnast.

Nú vil ég taka fram að ég er ekki endilega á móti kvótakerfum með markaðslausnum, mér sýnist jafnvel sem flestir Íslendingar gætu sætt sig við þær í grundvallaratriðum, þ.e. með heildartakmörkunum og aflaúthlutun til ákveðinna leyfishafa. Ýmsum öðrum þáttum í kerfinu væri hins vegar vænlegra að sleppa ef sátt ætti að nást. Ég gagnrýni hvað menn eru tilbúnir til að horfa fram hjá mörgum vanköntum þessa kerfis til að ná fram öðrum þáttum. Það er spurning hvort þar ráði um of hagsmunir ákveðinna hópa.

Ég held það sé augljóst að ekki þýddi að veita útgerðum eða sjómönnum sjálfdæmi um sókn við núverandi aðstæður. Ég held að það þurfi hins vegar að gefa þeim aukið sjálfdæmi við að móta reglur sem eru sanngjarnar, réttlátar og áhrifaríkar. Kannski væri ráð að virkja aftur stofnun eins og Fiskifélag Íslands og svæðasamböndin til þess í alvöru, ásamt fjölbreytilegum hópi fræðimanna, að ræða fiskveiðistjórnun og finna á henni viðunandi lausn, í víðum skilningi, fyrir sem flesta."

­ Þú fjallar mikið um siðferðislega þætti í gagnrýni á kvótakerfið, nefnir að sumir viðmælendur þínir telji að "eitthvað óeðlilegt" sé við það að fá greitt fyrir óveiddan fisk, fá fé fyrir rétt sem stjórnvöld hafi afhent nokkrum einstaklingum. Einnig kemur fram að margir séu tvíbentir í afstöðu sinni.

"Markaðsviðskipti hafa sterka tilhneigingu til að fletja allan mismun út, hvað sem líður margbreytni félagslegs lífs hlutanna, eins og mannfræðingar orða það. Það er m.a. þetta sem gagnrýni sú sem hefur verið að birtast í dagblöðum undanfarin ár á framsal og einkaeign á óveiddum fiski hefur beinst að."

"Að liggja með tærnar upp í loft"

Óðinn segir viðmælendur sína ekki á móti markaðsvæðingu í sjálfu sér, heldur séu þeir á móti því sem hamlar starfsemi þeirra og á móti því að hún fari fram á óviðeigandi hátt. Þeir séu á móti þeirri siðferðislegu umbreytingu sem hún hafi í för með sér. "Þar á ég t.d. við að hægt sé að selja það sem maður á ekki, eins og óveiddan fisk og geti hagnast án þess að beita líkamsafli sínu. Það að hagnast á því "að liggja með tærnar upp í loft", eins og sumir viðmælenda minna kalla það, og lifa af leigutekjum er í andstöðu við reynslu þeirra af lífinu og samræmist ekki hugmyndum sem eru samofnar sögu þeirra og menningu.

Í sjávarplássinu mínu er skilningur á mikilvægi sjósóknar fyrir atvinnu fólks í landi og tengsl smábátaútgerðar við aðra þætti byggðarlagsins skýr og áberandi í allri umræðu er snertir fiskveiðistjórnun. Almennt séð líta sjómennirnir ekki á sig sem einstaklinga sem sé fullkomlega frjálst að ráðstafa afla eða kvóta eftir lögmálum þar sem hæsta verð er hið eina agn sem lokkar og bindur mann við vöru. Aðrir íbúar staðarins ætlast ekki heldur til þess að svo sé.

Mikilvægt er að við skoðum vitund íbúanna, ef svo má segja, um sig sem einhvers konar heild sem gerir sér grein fyrir ábyrgð og mikilvægi hvers og eins. Eins og við höfum orðið vitni að þá ógnar sala og leiga á kvóta möguleika manna til búsetu í sumum byggðarlögum. En um leið ógnar þetta siðrænum skyldum sem snúast m.a. um að skapa og viðhalda atvinnu, um að standa saman um lífsviðurværi manna í byggðarlögum sem eiga undir högg að sækja.

Því verður hins vegar ekki á móti mælt að um leið standa menn frammi fyrir ýmsum valkostum kerfisins. Það gefur þeim sem yfir kvótanum ráða færi á sveigjanleika sem hægt er að nýta sér á margvíslegan hátt, t.d. til fullkominna einkanota, ef svo má orða það, með því að skipta endanlega á óveiddum fiski fyrir peninga. En möguleikarnir eru fleiri. Algengara er að með millifærslum á kvóta sé markmiðið að viðskiptin komi bæði einstaklingnum og plássinu til góða. En að svo þurfi að vera til frambúðar er ekki sjálfgefið."

Morgunblaðið/Kristinn ÓÐINN Gunnar Óðinsson. "Ég veit ekki hvort ábyrgðartilfinning kemur með valdboði."

Margir telja einnig að hér sé um lífsstíl að ræða, þessi sveigjanlegi einyrkjarekstur sem fjölskyldan er stundum öll innvikluð í, sem eigi rétt á að fá að lifa.Ég held það sé augljóst að ekki þýddi að veita útgerðum eða sjómönnum sjálfdæmi um sókn við núverandi aðstæður.Í plássinu þar sem ég gerði rannsókn mína er yngsti útgerðarmaðurinn nú að verða hálffertugur og enginn nýr hefur í raun bæst við síðan fyrir daga kvótakerfisins.