VERIÐ er að kanna í heilbrigðisráðuneytinu hvort sjúkraflug á landsbyggðinni verður boðið út, en hugsanlegt er að ákvæði í EES- samningnum kveði á um að slíkt þurfi að gera. Ráðuneytið tók yfir þennan málaflokk um síðustu áramót, en hann heyrði áður undir samgönguráðuneytið. Á þessu ári er áætlað á fjárlögum að 15,7 milljónir fari til sjúkraflugs.
Sjúkraflug hugsanlega boðið út

VERIÐ er að kanna í heilbrigðisráðuneytinu hvort sjúkraflug á landsbyggðinni verður boðið út, en hugsanlegt er að ákvæði í EES- samningnum kveði á um að slíkt þurfi að gera. Ráðuneytið tók yfir þennan málaflokk um síðustu áramót, en hann heyrði áður undir samgönguráðuneytið. Á þessu ári er áætlað á fjárlögum að 15,7 milljónir fari til sjúkraflugs.

Dagný Brynjólfsdóttir, deildarstjóri í fjármáladeild heilbrigðisráðuneytisins, sagði að mál þetta væri til skoðunar í ráðuneytinu m.a. með vísan til EES-samningsins. Þess væri ekki að vænta að neinar breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulagi sjúkraflugs fyrsta hálfa árið.

Fjögur flugfélög sinntu sjúkraflugi á síðasta ári. Sérstakur samningur er í gildi milli ráðuneytisins og Íslandsflugs um sjúkraflug til Vestfjarða, en um sjúkraflug til annarra staða hefur ekki verið gerður formlegur samningur. Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í að greiða fyrir sjúkraflug.