RÚSSNESKI leikmyndahönnuðurinn og myndlistarmaðurinn Stanislav Benediktov dvaldi hér á landi frá miðjum október í fyrra þar til mánudaginn 12. janúar. Hann er margverðlaunaður listamaður sem á að baki langan og glæstan feril, bæði í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi.

Rússnesk sýn á

land, þjóð og list

RÚSSNESKI leikmyndahönnuðurinn og myndlistarmaðurinn Stanislav Benediktov dvaldi hér á landi frá miðjum október í fyrra þar til mánudaginn 12. janúar. Hann er margverðlaunaður listamaður sem á að baki langan og glæstan feril, bæði í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi. Auk þess að hanna leikmynd fyrir uppsetningu Leikfélags Reykjavíkur á "Feðrum og sonum" í Borgarleikhúsinu hefur hann haldið hér tvær sýningar á myndverkum sínum. Sú fyrri var í sal MÍR við Vatnsstíg í Reykjavík. Seinni sýningin stendur nú yfir í kjallara Borgarleikhússins.

Kvöldið fyrir brottför félaganna Benediktovs og Alexeis Borodíns, leikstjóra "Feðra og sona", hélt Leikfélag Reykjavíkur þeim kveðjuhóf á Hótel Holti. Benediktov laumaðist stundarkorn afsíðis með túlki sínum, Trausta Einarssyni, til að ræða sýningarnar, Íslandsdvölina og viðhorf sín til listarinnar, leikhússins og lífsins.

Djúpstæð áhrif Íslands

Blaðamaður bað Benediktov að lýsa í örfáum orðum sýningunni í Borgarleikhúsinu og tildrögum hennar. "Sýningin samanstendur af hluta þeirra verka sem ég hef unnið síðan ég kom til Íslands fyrir þremur mánuðum. Þótt leikhúsið sé mitt sérsvið og uppsetningin í Borgarleikhúsinu hafi verið megintilgangur dvalarinnar hér eyddi ég öllum frístundum í teikningarnar. Þetta hefur því verið óvenju afkastamikill tími fyrir mig.

Ísland hafði strax mjög sterk áhrif á mig. Fyrstu ferðir mínar um landið og fyrstu kynnin af Reykjavík voru á þann veg að ég fann mig knúinn til að tjá það sem ég sá með myndlistinni. Á sýningunni í MÍR voru aðallega eldri verk sem tengdust leikhúsinu en þó einnig nokkrar myndir sem ég teiknaði hér á landi. Ég lofaði sjálfum mér þá að halda hér sýningu tileinkaða Íslandi áður en ég sneri heim. Ég efndi þetta loforð og afrakstur þess innblásturs sem landið hefur veitt mér er nú að sjá í Borgarleikhúsinu."

Andstæður náttúru og borgar

Í verkum sínum leggur Benediktov annars vegar áherslu á borgina og hins vegar náttúruna. Hann stillir borg og náttúru upp sem skýrum andstæðum sem þó eru í stöðugu gagnvirku sambandi: "Íslensk náttúra og samspil hennar við mannlífið og borgina veittu mér innsýn í veröldina sem heild. Ég skynjaði vel þá krafta sem búa í náttúrunni og um leið eðli mannsins og samband hans við hana. Náttúran er efnisleg en maðurinn er gæddur anda. Ég sé þessa tvo þætti hverfast hvor við annan í síkviku samspili sem ég reyni að festa á blað. Það má líkja andstæðum og samspili borgar og náttúru við spennuna í samskiptum kynjanna og þannig finnst mér náttúran kvenleg en borgin karlleg. Þetta kemur gjarnan fram í verkum mínum."

Íslensk trú

Trúarleg minni eru jafnframt áberandi á sýningu Benediktovs. Hann teiknar íslensku kirkjuna eins og hún birtist honum, bæði sem stofnun í ímyndum presta og sem byggingarlist í kirkjunum sjálfum. "Trúin er mikilvægur hluti hvers samfélags. Hún miðlar jafnt milli andstæðna náttúru og samfélags sem og andstæðna innan samfélagsins sjálfs. Trú er því táknrænt skapandi sameiningarafl sem hjálpar mönnum að framkvæma stórar hugsjónir. Ég upplifði viðhorf Íslendinga til kirkjunnar mjög sterkt í kringum biskupsvígsluna í haust og það er þess vegna sem trúmál eru áberandi á sýningunni. Þessir atburðir höfðu mikil áhrif á mig og veittu mér innsýn í eðli trúarinnar í víðara samhengi."

List og lífssýn Kjarvals

Mörg verka Benediktovs minna á landslagsmyndir Kjarvals þar sem menn, vættir og dýr renna saman við jörðina. Benediktov var beðinn að útskýra þau viðhorf sem liggja að baki myndunum og hvort um bein áhrif frá Kjarval væri að ræða.

"Eitt af því sem heillaði mig við Ísland var að hér hefði lifað og starfað jafn tilfinninganæmur og sterkur myndlistarmaður og Kjarval. Ég held að hann hafi upplifað náttúruna og samband mannsins við hana á líkan máta og ég geri, en ég held varla að kynni mín af honum hafi breytt myndlist minni á afgerandi hátt. Ég sé heiminn sem heild þar sem efnisheimurinn rennur saman við anda mannsins og maðurinn að sama skapi saman við náttúruna, hraunið og grjótið. Þetta finnst mér koma fram í verkum Kjarvals og sú sýn er mjög nálægt minni eigin. Ég dáist mjög að þessum verkum Kjarvals."

Lífið í náttúrunni og náttúran í leikhúsinu

Greinileg áhrif frá leikhúsinu eru í mörgum myndum sýningarinnar, sem sumar eru nánast eins og sviðsmyndir eða myndir af leikpersónum í búningum. Aðspurður hvort leikhúsvinnan væri undir áhrifum frá sérstakri náttúrusýn hans sagði Benediktov að svo væri. ,Eiginlega má segja að borgin sé dulargervi, eins konar leikbúningur náttúrunnar. Náttúran líkt og klæðist samfélaginu og liggur alltaf undir grímunni jafnframt því að vera órjúfanlegur hluti samfélagsins. Sumar myndirnar á sýningunni, t.d. konan með skipið á höfðinu, eru eins konar myndhverfingar þessarar sýnar. Ég reyni alltaf að færa þessa lifandi náttúruskynjun inn í leikhúsið með sviðsmyndum mínum."

Morgunblaðið/Halldór

Stanislav Benediktov

ALEXSEI Borodin, leikstjóri, kinkar kolli til Þórhildar Þorleifsdóttur, leikhússtjóra, í kveðjuhófi sem haldið var fyrir hann og Stanislav Benediktov síðastliðið sunnudagskvöld.

"Ég lofaði sjálfum mér þá að halda hér sýningu tileinkaða Íslandi áður en ég sneri heim"