RONALDO frá Brasilíu hafði mikla yfirburði í kjöri knattspyrnumanns ársins sem Alþjóða knattspyrnusambandið gengst fyrir árlega. Ronaldo, sem var kjörinn bestur í fyrra, var aftur í fyrsta sæti og var í raun í sérflokki. Hann fékk 86 atkvæði í fyrsta sæti, 16 í annað sæti og 2 atkvæði í þriðja sæti eða 480 stig alls.

Ronaldo

í sérflokki RONALDO frá Brasilíu hafði mikla yfirburði í kjöri knattspyrnumanns ársins sem Alþjóða knattspyrnusambandið gengst fyrir árlega. Ronaldo, sem var kjörinn bestur í fyrra, var aftur í fyrsta sæti og var í raun í sérflokki. Hann fékk 86 atkvæði í fyrsta sæti, 16 í annað sæti og 2 atkvæði í þriðja sæti eða 480 stig alls. Landi hans Roberto Carlos var næstur með 65 stig en Hollendingurinn Dennis Bergkamp og Frakkinn Zinedine Zidane fengu sín 62 stigin hvor.

Ronaldo sagði að útnefningin í fyrra hefði örvað sig til enn frekari dáða. "Hún hjálpaði mér og mér hefði sárnað hefði ég ekki verið útnefndur aftur." Hann hrósaði varnarmanninum Roberto Carlos. "Hann er mjög góður leikmaður sem hefur bætt sig til muna að undanförnu. Hann er vinur minn og ég virði hann mikils."

Ronaldo, sem er aðeins 21 árs, hefur alls staðar slegið í gegn nema í úrslitakeppni heimsmeistarakeppninar. Hann var í hópnum hjá Brasilíumönnum á HM í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum en fékk ekki að spila og eru það mestu vonbrigði kappans til þessa. Frakkinn Just Fontaine gerði 13 mörk í HM 1958, sem er met. "Gaman væri að slá það en aðalatriðið er að verða heimsmeistari," sagði Ronaldo, spurður hvort hann gæti slegið metið. "Ég er enn ungur og hef nægan tíma til að fá fleiri verðlaun og setja fleiri met en ég hætti að spila þegar örvunin dvínar."

Þótt Ronaldo hafi unnið til flestra helstu verðlauna í knattspyrnu hefur hann ekki orðið landsmeistari en það er markmiðið með Inter á Ítalíu á líðandi tímabili. Engu að síður er hann í sérflokki samanber niðurstöðu kjörs FIFA, sem 121 þjálfari og aðrir áhrifamenn í alþjóða knattspyrnu tóku þátt í.

Reuters KNATTSPYRNUSNILLINGURINN Pele á milli landa sinna, sem urðu í fyrsta og öðru sæti, Ronaldo og Roberto Carlos, sem verða í sviðsljósinu í HM í Frakklandi í sumar ­ 40 árum eftir að Pele var aðeins 17 ára heimsmeistari í Svíþjóð 1958.