BORGHILDUR Sigurbergsdóttir er sjálfstætt starfandi næringarráðgjafi, sem hefur meðal annars unnið að ráðgjöf á hjúkrunarheimilum bæði í Reykjavík og úti á landi. Einnig hefur hún endurskoðað matseðla á þessum stöðum með tilliti til þarfa aldraðra. Aðspurð segir hún að tvímælalaust eigi matseðlar á elli- og hjúkrunarstofnunum að vera næringarútreiknaðir.
Borghildur Sigurbergsdóttir

næringarráðgjafi Næringin er stór hluti

af líðan fólks

BORGHILDUR Sigurbergsdóttir er sjálfstætt starfandi næringarráðgjafi, sem hefur meðal annars unnið að ráðgjöf á hjúkrunarheimilum bæði í Reykjavík og úti á landi. Einnig hefur hún endurskoðað matseðla á þessum stöðum með tilliti til þarfa aldraðra.

Aðspurð segir hún að tvímælalaust eigi matseðlar á elli- og hjúkrunarstofnunum að vera næringarútreiknaðir. "Mér finnst næringarsviðið vera vanrækt innan öldrunarkerfisins og veit að margir eru mér sammála. Næringin er stór hluti af allri meðferð og líðan fólks. Inni á öldrunarstofnunum er fólk með mismunandi þarfir, sem þarf að sinna. Ef mataræðið er ekki í takt við þarfir þess líður því illa."

Aðspurð hvort fólk með skert sykurþol, sem fær aðkeyptan mat, geti borðað sama og meirihlutinn, ef sett er strásæta í stað sykurs svarar Borghildur, að það fari eftir einstaklingnum. "Margir með skert sykurþol eru alltof feitir. Mér finnst sama hvert vandamálið er. Það þarf að vera hægt að afgreiða matinn að einhverju leyti einstaklingsbundið eins og til dæmis skammtastærðir og samsetningu. Mér finnst ég oft heyra um fólk sem gefst upp á heimsendum mat af því að það fær allt annað en það langar í. Að mínu mati þarf að aðlaga matinn meira þörfum þess."

Í sambandi við þá sem búa einir og sjá sjálfir um máltíðir sínar, segir Borghildur að þar sé hættan mest á fábreyttu mataræði. "Fólk missir hvatninguna til að elda fjölbreyttan mat og kaupa inn því magnið er svo lítið. Ef maður eldar ekki, er mikil hætta á að maturinn verði sá sami fimm sinnum á dag, s.s. brauð og kökur. Því er mikilvægt að fólk haldi áfram að sjóða fisk- eða kjöstykki til að fá tilbreytinguna. Einnig er til mikið úrval af tilbúnum réttum, sem rétt er að nýta sér."

Að lokum nefnir Borghildur mikilvægi þess að drekka nóg og bendir á að þorstatilfinningin dofni með aldrinum. Gamalt fólk gleymi hreinlega að drekka. "Það fer eftir holdarfari hvað á best við, s.s. vatn, djús, mjólk, kaffi eða te. Mikil mjólkurdrykkja er þó ekki góð því mjólkin er stemmandi."

Morgunblaðið/ Borghildur Sigurbergsdóttir