LEIGUNAUTUR minn er með verslunareitrun. Um daginn fór hann á eftir-jólaútsölu með vini sínum sem vantaði skó. Ekkert annað. Fjórum tímum seinna komu þeir út, pinklum hlaðnir, en ekki með neina skó. Síðan þá hefur sambýlingurinn verið svo fráhverfur smásöluverslun að hann baðst undan því að fara með mér í vikuleg heimilisinnkaup. "No more shopping!" sagði hann og rétti mér óútfyllta ávísun.

Stór, stærri

stærstur

Tvíburaborgabréf

Ef smásala væri trúarbrögð væri Mall of America Páfagarður, Mekka og Taj Mahal undir einu þaki. Að sögn Gauta Sigþórssonar kemur fjöldi ferðamanna til Minneapolis og St. Paul á hverju ári til þess eins að heimsækja þar kringlu kringlanna.

LEIGUNAUTUR minn er með verslunareitrun. Um daginn fór hann á eftir-jólaútsölu með vini sínum sem vantaði skó. Ekkert annað. Fjórum tímum seinna komu þeir út, pinklum hlaðnir, en ekki með neina skó. Síðan þá hefur sambýlingurinn verið svo fráhverfur smásöluverslun að hann baðst undan því að fara með mér í vikuleg heimilisinnkaup. "No more shopping!" sagði hann og rétti mér óútfyllta ávísun. Ég get víst ekki áfellst hann. Þetta er allt Mall of America að kenna.

Ef smásala væri trúarbrögð væri Mall of America Vatíkanið, Mekka og Taj Mahal undir einu þaki. Hingað til Minneapolis og St. Paul kemur fjöldi ferðamanna á hverju ári sérstaklega til þess að heimsækja þessa kringlu kringlanna. Um 40 milljónir gesta koma þangað árlega, sem eru fleiri heimsóknir en Disneylöndin og Stóragljúfur fá samanlagt. Það er óhætt að segja að þrátt fyrir að hér sé af nógu að taka, sé fátt annað í Tvíburaborgunum jafn frægt á landsvísu.

Mall of America var opnaður árið 1992, og er sá stærsti sinnar tegundar í Bandaríkjunum (ennþá). Minnesotabúar geta þar að auki stært sig af því að hér liggja rætur kringlumenningarinnar. Árið 1956 var Southdale Mall, fyrsti yfirbyggði verslanaklasinn, opnaður í Edina, sem er eitt af best megandi úthverfum Minneapolis (í framhjáhlaupi má nefna að í Minnesota var líka fyrsti "drive-through" bankinn opnaður). Það er auðvelt að gleyma því núna þegar það er "mall" í hverju bandarísku úthverfi að þetta fyrirbæri á sér mjög fróðlegar sögulegar rætur í efnahags- og samfélagsbyltingu eftirstríðsáranna.

Southdale Mall er sagður hafa verið byggður til þess að bregðast við skorti á almenningsrými í Edina, sem var þá nýlegt úthverfi suðvestur af Minneapolis. Í raun eru þessar byggingar skilgetin afkvæmi hraðbrautanna, einkabílsins, úthverfamenningar, flótta miðstéttarinnar úr stórborgunum og neyslusamfélagsins. Eftir seinni heimsstyrjöld lagði bandaríska ríkið í byggingu hraðbrautakerfis sem borið gæti mikla liðsflutinga á landi ef kæmi til stríðs við Sovétríkin. Á þessum uppgangstímum tók almenningur að eignast bíla, og með tilkomu hraðbrautanna varð mögulegt að búa umtalsvert lengra frá vinnustað en áður tíðkaðist. Hin ört stækkandi bandaríska miðstétt hóf að flytja í hverfi utan við borgina, þar sem allir gátu átt garð, einbýlishús og bílskúr við snyrtilegar hornrétt skipulagðar götur.

Vandinn við þetta nýja rúðustrikaða borgarskipulag var að hverfin voru daufleg, í þeim var enginn miðbær og lítið sameiginlegt svæði. Þar komu kringlurnar til bjargar. Á sjöunda og áttunda áratugnum var fjöldi yfirbyggðra verslunarsamstæða reistur í úthverfunum, sem sameinuðu almenningsrými og verslun undir merkjum einkaframtaksins. Viðskiptavinir tóku þessari nýjung vel, og "the mall" varð fastur liður í bandarískum úthverfum, og á síðasta áratug í miðborgunum líka.

En Mall of America er af annarri kynslóð. Hann er "megamall", risakringla sem sumir segja að sameini skemmtigarð og verslunarhúsnæði á alveg nýjan hátt. Ég bætti mér nýlega í hóp 40 milljónanna, skildi tékkhefti og kreditkort eftir í hanskahólfinu og heimsótti kaupgarðinn mikla. Eins og Disneyland girðir Mall of America raunveruleikann af utan hárra veggja. Innandyra er skrýtinn og skemmtilegur undraheimur þar sem maður getur stigið inn í nýjan hliðarveruleika á hverju horni. Í einni búð lifir sjötti áratugurinn, rétt hjá er Rainforest Café þar sem hægt er að borða umkringdur laufþykkni og dýrahljóðum, og í miðjunni er skemmtigarðurinn Camp Snoopy með veglegum rússíbana og öðrum tívolígræjum. Hitabeltisplöntur þrífast undir háu glerþakinu og í fiskabúrunum má sjá hákarla og skötur á einum stað, og skrautlega hitabeltisfiska á öðrum. Það er auðvelt að týnast, rölta hring eftir hring, og finna eitthvað nýtt handan við hvert horn.

Samlíkingin við Disneyland er þess vegna fölsk. Öll Disneylöndin eru skipulögð þannig að þú getur ekki villst. Þar fara allir ferða sinna fótgangandi, og markmiðið er að gestinum líði alltaf vel og viti alltaf hvar hann er staddur þrátt fyrir að hann geti áhyggjulaust gleymt sér í umhverfinu. Ólíkt því er Mall of America stór kassi á mörgum hæðum, með nær engum hliðargluggum, þar sem öllu er raðað í hring. Þar eru engir fastir endapunktar til að miða sig við, einungis skemmtigarðurinn í miðjunni sem gengið er í kringum. Ólíkt gestum Disneys á kringlukúnninn ekki að vita hvar hann er staddur hverju sinni.

Það er ekki þar með sagt að gesturinn sé beinlínis leiddur á verslunar-villigötur. Kort eru auðfundin á hverri hæð, á hverjum vegamótum. Þar er hver verslun merkt og bæði er hægt að leita að búðum eftir varningi og nafni. En það er bara byrjunin. Þótt þú vitir hvert þú ætlar, þarftu að komast þangað. Á leiðinni eru tugir verslana, útstillinga, bása, skyndibitastaða og leiktækja. Umhverfið sjálft er mótfallið þeim sem ganga inn með skýr markmið í huga, því það er einfaldlega of mikið á leiðinni að settu marki, alltaf eitthvað annað sem grípur athyglina.

En aftur að heimsókninni. Var það gaman? Ójá! Ég týndist eins og hönnunin gerir ráð fyrir, skoðaði mig um í búðum þar sem alklæðnaður hefði kostað mánaðarlaunin mín og glápti á fólk. Keypti ég eitthvað? Eiginlega ekki, léttan hádegisverð og kaffibolla. Ég skildi tékkheftið og kreditkortið eftir í bílnum, og sé ennþá eftir því. Næst ætla ég í rússíbanann.