VIGDÍS Finnbogadóttir var í síðustu viku útnefnd formaður Alþjóðaráðs UNESCO um siðferði í vísindum og tækni. Ráðið mun einbeita sér að þremur málaflokkum sem varða orku, nýtingu ferskvatnsforða og siðferði upplýsingasamfélagsins.

Siðferðileg álitamál

eru mér hugleikin

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, situr ekki auðum höndum á meðan hún býr að óskertri starfsorku. Hún segir Ragnhildi Sverrisdóttur að nú ætli hún að einbeita sér að formennsku í Alþjóðaráði UNESCO um siðferði í vísindum og tækni, auk þess að leggja samvinnu Norðurlanda lið. Nýjasta viðfangsefnið þar er að koma á laggirnar menningar-, vísinda- og viðskiptasetri í Kaupmannahöfn.VIGDÍS Finnbogadóttir var í síðustu viku útnefnd formaður Alþjóðaráðs UNESCO um siðferði í vísindum og tækni. Ráðið mun einbeita sér að þremur málaflokkum sem varða orku, nýtingu ferskvatnsforða og siðferði upplýsingasamfélagsins. Mikið starf bíður Vigdísar á næstu mánuðum við að velja samstarfsmenn í ráðið. Þar verða fulltrúar úr öllum heimshornum, konur til jafns við karla. Vigdís segir að hún muni að sjálfsögðu hafa samráð við yfirstjórnendur UNESCO um skipan ráðsins, en sjálf hafi hún hug á að kalla ekki eingöngu vísindamenn og heimspekinga til liðs við sig, heldur einnig listamenn; spegla samfélagsins.

Útnefning Vigdísar Finnbogadóttur til formennsku í ráðinu er mikill heiður. Hún kveðst hafa átt von á að vera kölluð til starfa hjá UNESCO, Menningar- og vísindamálastofnun Sameinuðu þjóðanna. "Ég hef oft hitt Federico Mayor, aðalframkvæmdastjóra UNESCO, á undanförnum árum og hann hefur stundum nefnt að hann myndi leita eftir starfskröftum mínum. Þar kom að ég vissi að eitthvert verkefni væri í gerjun, sem ég yrði beðin um að ljá krafta mína. Ég er mjög sátt við að það skuli vera Alþjóðaráð um siðferði í vísindum og tækni, enda hafa siðferðileg álitamál lengi verið mér hugleikin."

Viðfangsefnin seint útrædd

Alþjóðaráðið verður skipað 20-24 manns. "Ráðið á að starfa til frambúðar, enda verða viðfangsefni þess seint útrædd," segir Vigdís. "Ætlunin er að fyrsti fundur þess verði næsta haust. Framundan er tími sem einna helst er hægt að líkja við að lesa til háskólaprófs, því ég þarf auðvitað að kynna mér ýmis mál ofan í kjölinn."

Því fer fjarri að formennska Vigdísar í Alþjóðaráði UNESCO marki upphaf þátttöku hennar í nefndum og ráðum sem láta alþjóðleg mál til sín taka. "Mér er sérstaklega hugleikinn félagsskapurinn Club Budapest, en ég sit í heiðursráði hans. Club Budapest, sem áður var kenndur við Vínarborg, veltir fyrir sér framtíðinni frá ýmsum sjónarhornum, lætur meðal annars umhverfismál mjög til sín taka og hugleiðir afleiðingar styrjalda og óeiningar í heiminum. Þarna sitja núverandi og fyrrverandi forsvarsmenn þjóða, til dæmis Dr. Richard von Weizacker, fyrrverandi forseti Þýskalands. Club Budapest hefur veitt svokölluð Planetary Consciousness Prize, meðal annars þeim Mikael Gorbasjov og Mohamed Yunus, stofnanda og forstöðumanni Graham-bankans, sem hefur veitt einstaklingum lán til uppbyggingar atvinnurekstrar í þróunarlöndum. Ég get sótt ómetanlegar upplýsingar um sérfræðinga í ýmsum málum til Club Budapest, þegar kemur að því að skipa í Alþjóðaráðið. Á Íslandi er líka fjöldi vísindamanna og hugsuða, sem ég veit þegar að munu veita mér lið."

Vigdís segir að áreiðanlega verði úr vöndu að ráða við skipan í Alþjóðaráðið. "Mér finnst óhugsandi annað en að rithöfundur eigi þar sæti, því þeirra er að spegla samfélagið. Þarna þarf líka að sitja einhver sem gjörþekkir nýja upplýsingatækni. Ég leita ekki einungis með UNESCO að sérfræðingum í tækni og vísindum, heldur þeim sem eru næmir á þjóðfélagið. UNESCO vill að ráðið skipi einstaklingar frá öllum heimshlutum, sem hafa getið sér gott orð fyrir vel unnin störf á sviði vísinda, lögfræði, heimspeki, menningar og stjórnmála."

Af þeim málaflokkum, sem Alþjóðaráðinu er ætlað að einbeita sér að, hefur aðeins verið unnin forvinna í orkumálum. Umræða um nauðsyn þess að gera úttekt á siðferði í orkumálum heimsins hófst innan UNESCO árið 1995 og árið 1996 skilaði sérfræðinganefnd skýrslu um stöðu mála. Vigdís segir að Alþjóðaráðið fari yfir þá skýrslu og móti farveg frekari vinnu á þessu sviði. "Af nógu er að taka. Við þurfum að ræða skógareyðingu, kjarnorku, olíulindir, sjálfbærar auðlindir eins og heita vatnið okkar, rafmagn og aðra orkugjafa. Ástandið er auðvitað mjög misjafnt eftir heimshlutum, en víða er pottur brotinn í umgengni okkar um orkulindir."

Tengist mannréttindum ekki síður en siðferði

Vigdís segir að starf Alþjóðaráðsins muni óhjákvæmilega snúast mjög um mannréttindi. "Aðgengi að fersku vatni telst auðvitað til mikilvægra mannréttinda. Það sama á við um aðgengi að upplýsingum, hvort sem er á bókum eða á Netinu. Þar koma siðferðileg álitamál einnig upp. Við vitum af klámi, jafnvel barnaklámi, á Netinu og ekki beinlínis geðslegt eða siðlegt að ýta undir viðskipti á því sviði. Hins vegar hefur reynst erfitt að koma böndum á þetta. Þá ber líka að hafa í huga að annað efni Netsins, sem særir ekki siðferðiskennd í einu landi, getur hæglega gert það í öðru landi. Alltaf þegar umræða um takmarkanir á efni Netsins skýtur upp kollinum heyrast raddir á móti, sem vitna í mikilvægi tjáningarfrelsisins. Sjálfsagt er erfitt að feta meðalveginn. Ýmsir viðskiptahagsmunir eru einnig í húfi og þegar slíkir hagsmunir eru miklir er siðleysið oft skammt undan."

Vigdís kveðst viss um að starf Alþjóðaráðsins verði ekki öllum að skapi. "Ráðið mun aðeins veita upplýsingar um stöðu mála og ráðgjöf, en svo er það mál hvers ríkis hvort og hvernig tekið verður á vanda hverju sinni. Ráðið fer ekki í neitt stríð, en það mun auðvitað stugga við ýmsum. Stofnun ráðsins er stórmerkileg, því við megum ekki láta kyrrt liggja. Enginn kærir sig um að fyrirhyggjuleysi og siðleysi ráði lögum og lofum."

Umræða um siðferði er oft á villigötum, að mati Vigdísar. "Hér á landi er siðferði nánast ekki nefnt nema í tengslum við kynferðismál. Ég vil að foreldar innræti börnum sínum almennt siðferði frá unga aldri, svo þau læri að greina rétt frá röngu. Ef siðferðisstyrkurinn væri meiri, þá væri það að skjóta undan skatti sjálfsagt óþekkt; að hnupla frá sjálfum sér, því skattarnir okkar ganga jú til sameignar þjóðarinnar. Sama á við um að selja hluti eða vinnu sína án þess að greiða lögboðin gjöld, að ég nú ekki nefni siðleysið í eiturlyfjasölu. Til að snúa við blaðinu til framtíðar verðum við að setja börnum okkar og æsku strangar siðferðilegar reglur og bæta aga. Þar verðum við að ganga á undan með fordæmi."

Einræktun fólks fullkomlega siðlaus

Mánudaginn 12. janúar, sama dag og stofnun Alþjóðaráðsins var tilkynnt, skuldbundu ríkin sem eiga aðild að Evrópuráðinu sig til að banna rannsóknir á einræktun fólks í sínum heimalöndum. Alþjóðaráð um siðferði í vísindum og tækni mun deila skrifstofubyggingu með Bio-Ethics-nefnd UNESCO, sem fjallar um siðferðileg álitamál í líffræði og læknisfræði, þar á meðal einræktun. "Alþjóðaráðið lætur þessi mál ekki til sín taka, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn. Hins vegar kann svo að fara að nefndin sameinist Alþjóðaráðinu síðar. Afstaða mín til einræktunar á fólki er skýr; mér finnst hugmyndin fullkomlega siðlaus og engu líkjast nema hinni skelfilegu heimsmynd í skáldsögunni Brave New World eftir Aldous Huxley. Svo virðist hins vegar sem margir, sem núna eru eindregnir andstæðingar einræktunar fólks, sætti sig nánast við þá tilhugsun að hún verði að veruleika innan einhverra ára. Flest ríki heims eru að setja lög sem banna einræktun fólks, svo hún yrði þá framkvæmd í trássi við þau. Ég vona að það verði aldrei, mér finnst tilhugsunin skelfileg."

Helgi steinninn er enn ófundinn

Vigdís á að eigin sögn erfitt með að koma auga á helga steininn, sem sumir töldu að hún myndi setjast í eftir sextán ár í embætti forseta. "Ég er orkumikil eins og Skógarfoss. Af hverju ætti ég ekki að nýta þá orku? Margir leita til mín og biðja mig um að leggja ýmsum málefnum lið og ég hef orðið við því eins og kostur er. Hins vegar hef ég bægt mjög frá mér undanfarið, því ég hef hugsað mér að helga mig Alþjóðaráðinu á næstunni, auk þess sem ég sit í forsæti alþjóðlegra samtaka kvenþjóðarleiðtoga."

Samtök kvenþjóðarleiðtoga eru til húsa í Harvard-háskólanum í Bandaríkjunum, í Stjórnsýslu- og leiðtogaskóla Harvard, sem kenndur er við John F. Kennedy, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Samtökin eru vettvangur kvenna, sem hafa gegnt eða gegna æðstu stöðum í heimalandi sínu, til að finna hagkvæmar lausnir í alþjóðlegum stjórnmálum. Auk þess starfa samtökin með Harvard- háskóla og virka sem hvatning fyrir ungar konur að reyna fyrir sér á æðstu stöðum.

Vigdís er enn að fylgja eftir ýmsum eldri verkefnum. "Þar má ekki gleyma að ég er mikill talsmaður norrænnar samvinnu. Umræða um Evrópumál á Norðurlöndunum hefur þau áhrif að þjóðirnar sem þau byggja hafa mikla þörf fyrir að styrkja sjálfsmynd sína, velta fyrir sér hverjar þær séu, hvað tengi þær. Með fjarskipta- og samgöngubyltingu er heimurinn orðinn svo lítill, en minni þjóðir óttast að raddir þeirra heyrist ekki. Samvinna Norðurlandaþjóðanna er hins vegar einsdæmi og til þeirra er litið sem fyrirmyndar annarra lýðræðisþjóða. Það þarf ekki mannfjölda eða herstyrk til að láta að sér kveða. Fólk þarf hins vegar styrk til að styðja við þjóðerni sitt. Mér finnst stundum að mín kynslóð hafi vanrækt að ala æskuna svo upp að hún kunni að meta þessi nágrannalönd okkar að verðleikum og verðmæti þess að eiga samleið með þeim. Ég vil leggja mitt af mörkum til að bæta þar úr."

Menningar-, vísinda- og viðskiptasetur

Vigdís leggur sitt af mörkum m.a. með því að stýra nefnd, sem hefur það að markmiði að endurbyggja vöruhús við Grönlands Handels Plads í Kaupmannahöfn. Þar hét áður Islands Handels Plads, enda lögðust Íslandsför þar að bryggju. Undanfarin ár hefur hluti hússins verið nýttur sem geymsla. "Þetta stóra pakkhús ilmar enn af íslensku lýsi, íslenskri ull og grænlensku selskinni," segir Vigdís. "Pakkhúsið er í eigu Told & Skat. Forstöðumaður Dansk Polarcenter eða dönsku heimskautastofnunarinnar, Morten Melgaard, átti hugmyndina að því að breyta pakkhúsinu í menningar-, vísinda- og viðskiptasetur fyrir Færeyjar, Grænland, Ísland og Norður-Noreg, gamlar nýlendur Dana við Norður-Atlantshaf."

Í undirbúningsnefndinni eiga sæti, auk Vigdísar, ýmsir fulltrúar danskra yfirvalda, arkitektar og fulltrúar þjóðanna sem hlut eiga að máli. "Við erum með stóra drauma um hvernig fjármagna eigi þetta verkefni, sem þegar hefur fengið heitið Nord-Atlantens Brygge. Við höfum gefið út bækling til að kynna hugmyndir okkar og fengið mjög góðar viðtökur."

Vigdís Finnbogadóttir segist aldrei hafa séð eftir þeirri ákvörðun sinni að láta af embætti forseta Íslands. Hún hefur næg verkefni sem tengjast hugðarefnum hennar, þar á meðal siðferðilegum álitamálum og mannréttindum. Á meðan svo er kemur hún ekki auga á helga steininn.Af nógu er að taka. Við þurfum að ræða skógareyðingu, kjarnorku, olíulindir, sjálfbærar auðlindir eins og heita vatnið okkar, rafmagn og aðra orkugjafa. Ástandið er auðvitað mjög misjafnt eftir heimshlutum, en víða er pottur brotinn í umgengni okkar um orkulindir.Morgunblaðið/Golli VIGDÍS Finnbogadóttir formaður Alþjóðaráðs UNESCO um siðferði í vísindum og tækni.