STJÓRN Póstmannafélagsins furðar sig á því að Íslandspóstur hf. skuli að hluta til bera kostnað af ferð samgöngunefndar Alþingis til höfuðstöðva Evrópusambandsins í Brussel. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin hefur sent frá sér. "Stjórn Póstmannafélagsins sér ástæðu til að gera mjög alvarlega athugasemd við framkvæmd þessa.
Póstmenn gagnrýna ferð til Brussel

STJÓRN Póstmannafélagsins furðar sig á því að Íslandspóstur hf. skuli að hluta til bera kostnað af ferð samgöngunefndar Alþingis til höfuðstöðva Evrópusambandsins í Brussel. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin hefur sent frá sér.

"Stjórn Póstmannafélagsins sér ástæðu til að gera mjög alvarlega athugasemd við framkvæmd þessa. Allt síðastliðið ár hafa verið í gangi miklar aðhaldsaðgerðir og niðurskurður innan póstþjónustunnar, aðgerðir sem stjórn félagsins hefur fyrir sitt leyti sýnt skilning og starfsmenn mátt sætta sig við. Niðurskurður þessi hefur haft slæm áhrif og valdið óróleika hjá starfsmönnum og munu þeir, í ljósi frétta þessara, eiga erfitt með að sýna skilning á áframhaldandi aðhaldi og niðurskurði."

Stjórnin bendir ennfremur á að það sé í hæsta máta óeðlilegt að fyrirtækið Íslandspóstur hf. leggi fé til ferðar samgöngunefndar, sem sé nefnd sem eigi að vera aðhalds- og eftirlitsaðili með starfsemi fyrirtækisins. Telji samgöngunefnd þörf á að kynna sér reglur ESB um rekstur póst- og símaþjónustu eigi Alþingi að bera kostnað af því.