FERÐALANGAR á leið um dönsku borgina Árósa ættu ekki að láta Portobello í miðju latínuhverfinu fara fram hjá sér, hafi þeir á annað borð áhuga á fallegum antíkmunum. Portobello er spennandi antíkverslun þar sem hillurnar svigna undan fallegum glösum og vösum, hnífapörum, íkonum, og búddalíkneskjum svo fátt eitt sé nefnt. Portobello er í raun tvískipt.

Tin og annað áhugavert

FERÐALANGAR á leið um dönsku borgina Árósa ættu ekki að láta Portobello í miðju latínuhverfinu fara fram hjá sér, hafi þeir á annað borð áhuga á fallegum antíkmunum. Portobello er spennandi antíkverslun þar sem hillurnar svigna undan fallegum glösum og vösum, hnífapörum, íkonum, og búddalíkneskjum svo fátt eitt sé nefnt.

Portobello er í raun tvískipt. Í öðrum hlutanum eru munir úr silfri og tini og í hinum hlutanum munir úr messing og kopar. Það eru sérstaklega þungir og dökkir tinhlutirnir sem falla viðskiptavinunum í geð þessa dagana.

"Tinið er á uppleið eftir töluverðan tíma," segir Inga Teilmann, sem rekur Portobello ásamt manni sínum Erik. Inga segir að það sé helst yngra fólkið sem falli fyrir tininu, því líki vel grófari hlutir. "Það er mjög vinsælt meðal þeirra yngri að skreyta nýtískuleg heimili sín með gömlum munum," segir hún.

Antikglösin standa líka alltaf fyrir sínu. Viðskiptavinirnir eru þó sjaldnast að leita að tólf eins glösum, heldur vilja gjarnan raða saman mismunandi stærðum og litum. "Það gerir matarborðið líflegra og svo er hreinlega praktískara að eiga glös sem bæði er hægt að hafa til skrauts á milli þess sem drukkið er úr þeim, í stað þess að geyma þau þá inni í skáp."

ÞESSI súputarína úr tini er frá 1850 og kostar 4.500 danskar krónur í Portobello, eða sem svarar til um 45.000 króna íslenskra.