DR. INGA Þórsdóttir, forstöðumaður næringarstofu Landspítala segir að niðurstöður um næringarskort við bráðainnlögn séu í sjálfu sér ekki óeðlilegar, þar sem fólk hafi legið veikt heima og lystarlítið í mislangan tíma. Þar af leiðandi hafi það ekki nærst nægilega.
Fá aldraðir næga næringu?

20% sjúklinga á aldrinum 20-70 ára, sem lögðust inn á bráðadeild Landspítala, voru vannærð við innlögn. Ástæðan er meðal annars lystarleysi og lítil inntaka matar um nokkurt skeið. Í framhaldi af því velti Hildur Friðriksdóttir fyrir sér hvernig ástandið er hjá öldruðum sem hafa búið einir um langan tíma. Nærast þeir nóg? Hvernig er almennt næringarástand aldraðra heima sem á stofnunum?

DR. INGA Þórsdóttir, forstöðumaður næringarstofu Landspítala segir að niðurstöður um næringarskort við bráðainnlögn séu í sjálfu sér ekki óeðlilegar, þar sem fólk hafi legið veikt heima og lystarlítið í mislangan tíma. Þar af leiðandi hafi það ekki nærst nægilega. Hún leggur hins vegar áherslu á að mikilvægt sé að taka tillit til þessara upplýsinga til að bæta næringarástandið á sem skemmstum tíma og þar með auka batahorfur sjúklinganna.

Í framhaldi af fyrrgreindum niðurstöðum er forvitnilegt að velta fyrir sér hvernig næringarástand aldraðra er, einkum þeirra sem búa einir og hafa gert í langan tíma. Samkvæmt rannsókninni sem gerð var á Landspítalanum og kynnt var í desember síðastliðnum, var ástand aldraðra ekki kannað sérstaklega, enda náði rannsóknin einungis til fólks upp að sjötugu.

Rannsókn í gangi

Hins vegar stendur nú yfir rannsókn þar sem verið er að kanna samanburð á heilsufari og hjúkrunarþörf aldraðra sem eru á öldrunarstofnunum og fá heimaþjónustu. Að rannsókninni standa heilbrigðisráðuneytið, öldrunarsvið Sjúkrahúss Reykjavíkur og öldrunarstofnanir. Þátttakendur eru 400-500 manns, sem búa heima en njóta heimaþjónustu. Má gera ráð fyrir að niðurstöður hennar verði birtar í vor. "Þegar við fáum niðurstöðurnar getum við séð hvort munur er á næringarástandi aldraðra sem eru í þörf fyrir aðstoð og búa heima og þeirra sem búa á öldrunarstofnunum," segir Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri á öldrunarsviði Sjúkrahúsi Reykjavíkur.

Samkvæmt 8-10 ára gamalli rannsókn sem Kolbrún Einarsdóttir næringarráðgjafi, Helga Hreinsdóttir næringarfræðingur og fleiri gerðu á 127 manns á öldrunarlækningadeildum í Hátúni og á Sjúkrahúsi Egilsstaða kom í ljós að 14% aldraðra þjáðust af næringarskorti. Meðal 12% sjúklinga, sem dvalist höfðu á öldrunardeildinni í þrjá mánuði var næringarskorturinn 12% en 20% meðal þeirra sem höfðu verið þar skemur. Í heildina fengu sjúklingar á deildunum of lítið af ákveðnum vítamínum og steinefnum í gegnum matinn.

Batnandi ástand

Anna Birna Jensdóttir segir að mikil breyting í þessum málum hafi átt sér stað inni á stofnunum á undanförnum 8-10 árum. "Í þá daga sá maður aldrað fólk með næringarskort við innlögn og jafnvel kom það frá öldrunarheimilum. Nú er mikil vannæring sjaldséð og þá nánast alltaf vegna langvarandi krabbameins eða annars sjúkdóms. Það er líka liðin tíð að sjá næringarskort vegna fátæktar, vanrækslu eða óþrifa. Þetta þýðir ekki að við sjáum ekki fólk sem lítur vel út en er með B-vítamínskort. Aftur á móti eru flestir í kjörþyngd, sem koma inn og frávikin í hvora átt eru langt undir 10%," segir hún.

Ástæðuna fyrir batnandi ástandi, sem má rekja til ársins 1994, segir hún tvímælalaust vera vegna aukinnar fræðslu bæði almennings svo og innan hjúkrunargeirans. "Þá fóru fram svokallaðar RAI-mælingar (Raunverulegur aðbúnaður íbúa á öldrunarstofnunum). Þar var allt í sambandi við heilsufar og þarfir íbúa á öldrunarstofnunum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri skoðað. Í kjölfarið var sett í reglugerð að alls staðar á Íslandi skyldu menn nota þessi mælitæki. Rannsóknina notuðum við til að greina hvaða þætti við vildum bæta og eitt af því var næring," segir Anna Birna.

Komið var á fót námskeiði og fræðslufundum sem um 150 manns sóttu, sem fóru síðan hver til síns heima og fræddu þá sem ekki komust. "Það má segja að þarna hafi farið af stað bylgja, því við sáum ástandið lagast, ekki bara hjá okkur heldur alls staðar í borginni. Árið 1996 mældust 6% fólks á öldrunarstofnunum með næringarskort, sem er kannski ekki óeðlileg tala, því inni í henni eru þeir sem nýlagðir hafa verið inn auk deyjandi fólks, en á því stigi er fæðu ekki neytt ofan í viðkomandi."

Heimsendur matur

Leiða má líkur að því að almennt næringarástand aldraðra hafi farið batnandi á undanförnum áratrug, því öll þjónusta í sambandi við máltíðir virðist hafa aukist til muna á undanförnum áratug, að minnsta kosti í Reykjavík og á Akureyri. Til dæmis geta þeir, sem eru ekki færir af einhverjum ástæðum um að elda sjálfir, fengið heimsendan heitan mat í hádeginu gegn gjaldi. Þó er litið á það sem neyðarúrræði bæði vegna kostnaðarins og eins vegna þess að fólk verður frekar leitt á matnum og borðar minna þegar það er eitt. Því þykir æskilegra að fólk sæki félags- og þjónustumiðstöðvar og borði þar. Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum Öldrunarþjónustudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur fyrri hluta árs 1997 voru 85% þeirra sem fengu heimsendan mat konur og flestar á aldrinum 80-89 ára.

Einnig gefst öllum Reykvíkingum eldri en 67 ára kostur á að borða í félags- og þjónustumiðstöðvum gegn gjaldi. Á fyrri hluta ársins 1997 voru tæp 60% matargesta konur og voru flestar á aldrinum 75-89 ára. Karlarnir voru heldur yngri eða 70-84 ára. Mikill meirihluta þessa fólks bjó eitt.

Morgunblaðið/Golli FJÖLDI aldraðra borðar daglega í mötuneytum félags- og þjónustumiðstöðva og enn aðrir fá matarbakka senda heim. Mikilvægt er að máltíðir aldraðra séu vel samansettar út frá næringarsjónarmiði og lystugt að sjá.Mataræði aldraðra er að breytast.Spaghettí er gríðarlega vinsælt.Lyf geta breytt nýtingu næringarefna.Nýta á heimsóknir til að fara í gönguferð með hinum aldraða.Aldraðir drekka sjaldnast nægan vökva.