Svo er önnurhlið þessa máls en sú sem ég hef áður minnzt á, þarsem konur eru séðar í öðru og verra ljósi - og má það undarlegt heita að svo skuli vera í frásögnum af ástarskáldinu mikla í Fóstbræðra sögu.
Svo er önnur hlið þessa máls en sú sem ég hef áður minnzt á, þarsem konur eru séðar í öðru og verra ljósi - og má það undarlegt heita að svo skuli vera í frásögnum af ástarskáldinu mikla í Fóstbræðra sögu.

Bessi faðir Þormóðar Kolbrúnarskálds sagði við son sinn eftir allumfangsmikið kvennafar hans hér heima áðuren hann hélt á fund Ólafs digra, Óþarfa unnustur áttu, hlauzt af annarri örkuml þau, er þú verður aldrei heill maður, en nú er eigi minni von, að bæði augu spryngi úr höfði þér! Það var ekki undarlegt að svo færi fyrst skáldið orti Kolbrúnarvísur um Þorbjörgu Kolbrúnu en sneri þeim síðan vegna hugleysis til lofs við Þórdísi til heilla og sátta og ástar við sig einsog segir í sögunni. Það er augljóst, gömul hetju- og ástarsaga höfð í flimtingum.

Kolbrúnarvísur eru með öllu glataðar en sumir telja að þær hafi verið frægt kvæði í fornöld, svosem ráða má af ummælum Landnámu og viðurnefni Þormóðar. Þetta þarf þó ekki að vera og vísast að þetta margfræga ástarkvæði hafi aldrei verið ort. Ef svo hefði verið væru til úr því slitur en hvergi finnst af því tangur né tetur og er það í hæsta máta heldur tortryggilegt. Af lýsingu Fóstbræðra sögu á Þórdísi að dæma var engin ástæða til að yrkja henni ástarkvæði og ekki hefur Þorbjörg Kolbrún heldur verið sérlega eldfimt efni í svo ástríðufullan óð sem ætla mætti. Báðar voru þær fjölkunnugar, hvor með sínum hætti en auk þess var gyðjan Kolbrún "eigi einkar væn" sem merkir eigi sérlega fríð sýnum, þótt kurteis væri að jafnaði, "útfætt, en eigi alllág". Ástir Þormóðar hafa sem sagt verið jafn afkáralegar og margt annað sem lýst er með hæðni og hálfkæringi í texta þessarar grátbroslegu "hetjusögu". Enginn höfundur ástarsögu sem hefði verið staðráðinn í því að láta lesendur sína taka eitthvert mark á frásögninni hefði lagt áherzlu á að Þorbjörg Kolbrún hefði verið jafn útskeif og hún var óþörf unnusta!

Þegar Gibbon fjallar um Germani í hinu mikla, sí gilda riti sínu, segir hann m.a.:

"Germanir sýndu konum sínum virðingu og traust, og höfðu þær með í ráðum í öllum mikilvægum málum og lifðu í þeirri sælu trú að þær varðveittu í brjósti sér heilagleika og vizku sem væri meira en mannleg. Nokkrar af þessum forlagadísum stjórnuðu, í nafni guðdómsins, grimmustu þjóðum Germaníu. Hinar konurnar, sem voru ekki dýrkaðar sem gyðjur, nutu virðingar sem frjálsir og jafnir félagar stríðsmanna; við hjónavígsluna var líf þeirra jafnvel tengt striti, hættum og sæmd. Í herbúðum barbaranna í innrásunum miklu voru herskarar kvenna, sem létu engan bilbug á sér finna mitt í vopnabrakinu, hinum ýmsu myndum eyðileggingar, og sæmdarlegu blóði sona sinn og eiginmanna. Germanskir hermenn, sem misstu móðinn, voru oftar en einu sinni reknir aftur gegn óvininum vegna göfugrar örvæntingar kvenna sem óttuðust dauðann miklu minna en ánauðina. Ef ósigur varð ekki umflúinn í orrustunni kunnu þær að bjarga sér og börnum sínum frá ódæðum sigurvegarans af eigin rammleik. Slíkar kvenhetjur kunna að kalla á aðdáun okkar; en þær voru örugglega hvorki elskulegar né opnar fyrir ást. Á meðan þær lögðu sig í framkróka við að líkja eftir hörðum dyggðum karlsins hljóta þær að hafa glatað þeirri geðfelldu mýkt sem er höfuðprýði yndisþokka konunnar. "

Íslendinga sögur eru fyrst og síðast skáldlegar um búðir um líf manna til forna. Þær eru skrifaðar af kristnum mönnum á 13. öld, oft um heiðna menn um og eftir landnámsöld. Reynt er að flétta saman heiðinn germanskan arf og þá kaþólsku geymd sem menntaðir menn íslenzkir tileinkuðu sér uppúr kristni. Margt af þessu er glatað. Táknmál og goðsagnir ásatrúar hafa ekki þá merkingu sem áður var, myndhvörf hafa glatað skírskotunum sínum og margt í goðsögnunum er án tengsla við upprunalega merkingu og sjálfsagða fyrrá tímum. Þess vegna meðal annars eigum við í basli með dróttkvæðin. Þau eru viðstöðulausar skírskotanir í þessi heiðnu trúarbrögð og við vitum ekki merkingu margra orða nema með því að kynna okkur þau sérstaklega. Oftogeinatt er merkingin glötuð með öllu og við stöndum uppi án tengsla við fortíð sem er lifandi þáttur í þessum arfi okkar. Samt getum við notið kvæðanna. Þau eru á hljómmikilli íslenzku, músíkin hljómar enn fagurlega í eyrum okkar, hrynjandin og þessi máttugi sláttur sem er einatt svo nátengdur efninu.

Þessi hjartsláttur íslenzkrar arfleifðar.

M.