Í GREIN minni í Mbl. 8. jan. sl., Mengunarlaus orka, fyrri hluti, var áskorun til SVR að láta nú til sín taka með því að hefja notkun mengunarlausra strætisvagna hér í borg. Í sjónvarpsfréttum sama kvöld var rætt við Lilju Ólafsdóttur, forstjóra SVR, í tilefni þess að verið var að taka nýjan, mengunarminni strætisvagn frá Scania í notkun.
Mengunarlausir strætisvagnar

Vigfúsi Erlendssyni:

Í GREIN minni í Mbl. 8. jan. sl., Mengunarlaus orka, fyrri hluti, var áskorun til SVR að láta nú til sín taka með því að hefja notkun mengunarlausra strætisvagna hér í borg. Í sjónvarpsfréttum sama kvöld var rætt við Lilju Ólafsdóttur, forstjóra SVR, í tilefni þess að verið var að taka nýjan, mengunarminni strætisvagn frá Scania í notkun. Lilja vildi í þessu sambandi vísa boltanum yfir til Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í landinu hvað varðar þróun og notkun á mengunarlausri orku. Málið er bara að í þessu sambandi er boltinn hjá SVR ef hann er þá nokkurs staðar. Á undanförnum árum hefur verið í gangi viðamikil þróun á notkun mengunarlausra orkugjafa og nýrrar tækni. Hægt er að vísa þar til kanadíska fyrirtækisins Ballard, sem hefur verið leiðandi í þróun efnarafala og er í samstarfi við fjöldamarga aðila, m.a. marga bílaframleiðendur. Eftirfarandi þróunaráætlun hefur verið í gangi hjá Ballard m.a. í samstarfi við Daimler-Benz:

Þróunaráætlun Ballard fyrir vetnis- og efnarafalaknúna strætisvagna er sem hér segir:

1. fasi (1993) ­ Sönnun hugmyndar (proof of concept). Drægi: 100 mílur/160 km. Farþegar: 20. Efnarafall: 125 hestafla. Fyrsti ZEV vetnisstrætóinn, (ZEV: zero- emission- vehicle) frá kanadíska fyrirtækinu Ballard 1993 var knúinn 125 hestafla efnarafali.

2. fasi (1995) ­ Framleiðslufrumgerð (commercial prototype). Drægi: 250 mílur/400 km. Farþegar: 60 Efnarafall: 275 hestafla. Ballard ZEV vetnisstrætó frá 1995 var knúinn 275 hestafla efnarafali.

3. fasi (1997) ­ Reynslufloti (demonstration fleet) Drægi: 250 mílur/400 km. Farþegar: 60. Efnarafall: 275 hestafla. NEBUS (New Electric Bus) frá Daimler-Benz, sem kom fram í maí 1997, notar þróaða efnarafala frá Ballard með 55% nýtni. Þessi vagn er kominn á götuna í Þýzkalandi.

4. fasi ­ (1999) Raðframleiðsla (commercial production). Drægi: 350 mílur/560 km. Farþegar: 75. Efnarafall: 275 hestafla.

Eins og fram kom í annarri grein minni um mengunarlausa orku í Mbl. 14. janúar sl. fékk Chicago borg á þessu ári afhenta 3 vetnisvagna til prófunar í tvö ár, þar sem reynt verður hvort slíkir vagnar muni henta m.t.t. afls, kostnaðar, áreiðanleika, þæginda og fleiri þátta með því markmiði að hefja síðan raðframleiðslu slíkra vagna. Framlag SVR til þessara mála gæti verið að hefja tilraunir með reynsluflota fyrir aldamót og helst sem fyrst, sem í fyrstu gæti reyndar verið 1 vagn, og samið við einn af þeim aðilum sem nú þegar eru í fasa 3.

Hitt er svo rétt að orkufyrirtæki og olíufélög geta líka farið að huga að þessum málum, orkufyrirtækin t.d. með efnarafalarafstöðvum og einnig tengingu sólarrafhlaða og vindmylla við efnarafala. Olíufélögin þurfa svo fyrst og fremst að hefja undirbúning í tengslum við dreifikerfi orkugjafanna (s.s. methanól og vetni) en rétt er að benda á að t.d. Shell Solar B.V. í Hollandi rekur mjög umfangsmikla sólarrafhlöðuframleiðslu og hyggur á mjög stóra hluti í þeim efnum. Framleiðslumarkmið þeirra 1997 var 20.000 m = 2MW, 1998: 100.000 m = 10 MW og árið 2000 er framleiðslumarkmiðið 200.000 m = 20 MW af sólarrafhlöðum.

VIGFÚS ERLENDSSON,

tæknifræðingur.