leiðariLandvinningar íslenskra söngvara örgum hefur þótt sæta undrum hve fjölskrúðugt íslenskt tónlistarlíf er. Sumum erlendum gestum þykir það til dæmis fjarstæðukennt að hér séu að meðaltali um það bil einir tónleikar á dag árið um kring.
leiðari

Landvinningar íslenskra söngvara

örgum hefur þótt sæta undrum hve fjölskrúðugt íslenskt tónlistarlíf er. Sumum erlendum gestum þykir það til dæmis fjarstæðukennt að hér séu að meðaltali um það bil einir tónleikar á dag árið um kring. En þessi ánægjulega gróska í tónlistarlífi landsmanna kemur ekki síður fram í miklum landvinningum íslenskra söngvara sem hlýtur að vera okkur stöðugt fagnaðarefni. Gott gengi þeirra Kristjáns Jóhannssonar, Kristins Sigmundssonar og Sólrúnar Bragadóttur hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum en færri gera sér kannski grein fyrir því hve mikill fjöldi ungra íslenskra söngvara hefur verið að koma fram á sjónarsviðið nú allra síðustu ár og hve margir þeirra hafa komist að við virtar erlendar óperur.

Síðastliðinn mánudag fengu tónleikagestir í Listasafni Kópavogs að hlýða á einn þessara söngvara, Auði Gunnarsdóttur, sem hefur nýlokið framhaldsnámi í söng við tónlistarháskólann í Stuttgart með hæstu einkunn. Auður hefur komið fram sem einsöngvari á fjölda ljóða- og óperutónleika, meðal annars með W¨urttembergísku Fílharmóníuhljómsveitinni í Reutlingen og Fílharmóníuhljómsveitinni í Stuttgart en er nú á höttunum eftir föstum samningi við óperuhús. Um söng Auðar á mánudagskvöldið sagði Jón Ásgeirsson, gagnrýnandi Morgunblaðsins: "Eftir þessa tónleika verður ekki annað sagt en að Auður Gunnarsdóttir er frábær söngkona og hefur þegar aflað sér mikillar og góðrar tækni, svo að þarna er von í listagóðri söngkonu."

Eins og Auður eru hinir ungu íslensku söngvarar sennilega flestir í Þýskalandi enda eru möguleikarnir þar miklir í um áttatíu óperuhúsum. Síðustu ár hefur bæst í þennan íslenska söngvarahóp árlega og eins og fram kom í grein Þórarins Stefánssonar í Morgunblaðinu fyrir skömmu syngja þeir nær eingöngu veigamikil hlutverk. Of langt mál yrði að telja upp alla þessa söngvara í Þýskalandi, sem eru vel á annan tuginn, en kannski mætti nefna þær Magneu Tómasdóttur, Guðrúnu Ingimarsdóttur og Arndísi Höllu Ásgeirsdóttur sem allar eru enn í námi og hafa sýnt þar að þær muni eiga eftir að láta að sér kveða á óperusviðinu í náinni framtíð.

Íslenskir söngvarar hafa sömuleiðis vakið athygli annarsstaðar í Evrópu, bæði í Suður- og Norður-Evrópu. Máski hefur þó enginn þeirra vakið jafn miklar vonir og væntingar og baritónsöngvarinn Finnur Bjarnason. Þrátt fyrir ungan aldur og að vera enn við nám í Guildhallskólanum í London hefur Finnur vakið óskipta athygli söngfróðra hér heima og erlendis. Þó var það sennilega ekki fyrr en hin kunna söngkona Elly Ameling veitti honum sérstaka viðurkenningu á söngnámskeiði sínu hér á landi í fyrravor sem hann fór að vekja almenna athygli.

Annars eru landvinningar íslenskra söngvara ekki alveg ný saga. Íslenskir söngvarar áttu góðu gengi að fagna á erlendri grund fyrr á öldinni og má með sanni segja að þeir hafi rutt brautina. Hér nægir að nefna nöfn Péturs Á. Jónssonar, sem starfaði við óperuhús í Kiel, Berlín og Bremen 1914 til 1929 við fádæma vinsældir, Maríu Markan, sem starfaði meðal annars í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Berlín, Lundúnum og New York þar sem hún var fastráðin við Metropolitanóperuna árin 1941 til 1944, Stefáns Íslandi, sem átti glæsilegan söngferil við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og varð þar konunglegur hirðsöngvari 1949, og Einars Kristjánssonar, sem söng víða í Evrópu.

Það er einnig gömul saga og ný að á hátíðarstundum minnast ráðamenn á að efla þurfi íslenska menningu því að hún sé skjöldur og krúna stoltrar og sjálfstæðrar þjóðar. Það hefur hins vegar viljað brenna við að einungis daufur ómur af þessum hátíðarorðum heyrðist í lögum þeirra sem fara með sameiginlegt fé landsmanna. Þessi daufi endurómur hefur til dæmis ekki nægt til að reisa þjóðinni og þeim glæsilega flokki tónlistarmanna, sem hér að ofan var getið, tónlistarhús. Og þótt sönglíf sé með miklum blóma í Íslensku óperunni verður ekki sagt að ómur þessara fallegu orða hafi verið hár þar. Þarf engum að blandast hugur um að það yrði mikill sómi að því að bæta hér úr skák og láta orðin standa á borði.