RÚSSNESK yfirvöld boðuðu í gær nýjar kröfur til flugrekstraraðila sem Ívan Valov, aðstoðarforstjóri rússnesku flugmálastjórnarinnar (FAS), sagði að myndi stórfækka flugfélögum. Valov sagði að flugfélögunum myndi fækka um rúmlega 250 á næstu þremur árum, eða úr 315 í 53, nýir afkomu- og öryggisstaðlar yrðu þess valdandi.
Rússar fækka flugfélögum

Moskvu. Reuters.

RÚSSNESK yfirvöld boðuðu í gær nýjar kröfur til flugrekstraraðila sem Ívan Valov, aðstoðarforstjóri rússnesku flugmálastjórnarinnar (FAS), sagði að myndi stórfækka flugfélögum.

Valov sagði að flugfélögunum myndi fækka um rúmlega 250 á næstu þremur árum, eða úr 315 í 53, nýir afkomu- og öryggisstaðlar yrðu þess valdandi. "Takmark okkar er að á árinu 2000 verði átta áætlunarflugfélög á landsvísu og 40-45 svæðisbundin," sagði Valov á fréttamannafundi.

Að hans sögn eru nú 315 flugfélög með flugrekstrarleyfi í Rússlandi og reka þau 943 flugvélar og þyrlur. Hins vegar eru 90% allra vöru- og farþegaflutninga á hendi einungis 40 flugfélaganna.

Langflest flugfélaganna eru afsprengi sovéska ríkisflugfélagsins Aeroflot en einokun þess í innanlands- og millilandaflugi var aflétt 1992. Í hitteðfyrra fóru rúmlega eitt hundrað rússnesk flugfélög á hausinn og 65 í fyrra en þá voru 36 ný flugfélög stofnsett, að sögn Valovs.