NÝJASTA mynd spænska leikstjórans Carlosar Saura hefst sem hefðbundin saga um árekstra milli kynslóða, þ.e. unglingsstúlkunnar Paz og foreldra hennar, en fljótlega verður sagan að harmleik þegar unga stúlkan verður ástfangin.
KVIKMYNDIR / Háskólabíó hefur tekið til sýninga nýjustu mynd spænska leikstjórans Carlosar Saura, Taxi, en hún fjallar um hóp leigubílstjóra sem láta til sín taka í skjóli nætur

Bílstjórar

í vígahug

Frumsýning

NÝJASTA mynd spænska leikstjórans Carlosar Saura hefst sem hefðbundin saga um árekstra milli kynslóða, þ.e. unglingsstúlkunnar Paz og foreldra hennar, en fljótlega verður sagan að harmleik þegar unga stúlkan verður ástfangin. Líf hennar fer nefnilega í rúst þegar hún kemst að því að bæði kærastinn og faðir hennar tilheyra klíku leigubílstjóra sem eyða nóttinni í það að hreinsa göturnar af því sem þeir telja óæskilegan ruslaralýð, þ.e. útlendinga sem eru svo ógæfusamir að ferðast í leigubílum þeirra. Þegar kærastinn reynir allt hvað hann getur að sanna raunverulega ást sína á Paz er líf þeirra hins vegar komið á það stig að ekki verður aftur snúið og upp úr sambandinu slitnar. Í skjóli ofbeldisfullrar næturinnar er Paz svo orðin skotspónn leigubílstjóraklíkunnar og verður hún að berjast fyrir lífi sínu og jafnframt reyna að fá kærastann aftur á sitt band.

Carlos Saura er fyrir löngu búinn að skapa sér nafn sem einn þekktasti kvikmyndaleikstjórinn í Evrópu. Ferill hans spannar orðið þrjá áratugi og á hann að baki jafn margar kvikmyndir sem handritshöfundur og/eða leikstjóri, og hefur hann unnið til fjölda verðlauna fyrir margar mynda sinna. Saura er fæddur árið 1932 og á námsárunum í Madrid vaknaði áhugi hans á ljósmyndun, og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn atvinnumaður í faginu. Árið 1953 hóf hann nám í kvikmyndagerð og þá með leikstjórn sem aðalfag, og kenndi hann um skeið bæði leikstjórn og handritsgerð. Fyrstu kvikmyndina í fullri lengd gerði Saura árið 1959 og var hún valinn til keppni á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Síðan hefur hann unnið til fimm verðlauna í Cannes, fimm gullbirni og tvo silfurbirni hefur hann unnið á kvikmyndahátíðinni í Berlín og tvisvar hafa myndir hans verið tilnefndar til óskarsverðlauna. Árið 1986 var hann gerður að heiðursfélaga kvikmyndaakademíunnar í Hollywood. Meðal þekktra mynda sem Saura hefur gert er Carmen, sem hann gerði 1983, og sópaði sú mynd að sér verðlaunum um víða veröld.

ÁSTARSAMBANDI Paz og kærasta hennar er stefnt í voða þegar í ljós kemur hvað hann aðhefst á nóttunni.

KLÍKA leigubílstjóra eyðir nóttunni í að hreinsa göturnar af óæskilegum ruslaralýð.

CARLOS Saura ásamt aðalleikurunum í Taxi.