JÓN Elvar Wallevik lauk á liðnu ári meistaraprófsverkefni í eðlisfræðiskor Háskóla Íslands sem beindist að áhrifamestu þáttum í hreyfingu hafíss. Verkefnið var unnið undir umsjón Þórs Jakobssonar aðalleiðbeinanda og meðleiðbeinandanna Svens Þ. Sigurðssonar dósents og Þorbjörns Karlssonar prófessors.
Hafíslíkan prófað fyrir íslenskt hafsvæði

Markmiðið að

geta gefið skip-

um viðvaranir

JÓN Elvar Wallevik lauk á liðnu ári meistaraprófsverkefni í eðlisfræðiskor Háskóla Íslands sem beindist að áhrifamestu þáttum í hreyfingu hafíss. Verkefnið var unnið undir umsjón Þórs Jakobssonar aðalleiðbeinanda og meðleiðbeinandanna Svens Þ. Sigurðssonar dósents og Þorbjörns Karlssonar prófessors.

­ Hvernig er hugmyndin að hafíslíkaninu til komin?

"Síðari hluta ársins 1995 fékk svið hafísrannsókna á Veðurstofu Íslands í hendur hafíslíkan frá Kanada sem varð hvatinn að þessu meistaraprófsverkefni. Verkefni mitt var að setja upp þetta líkan og keyra og skoða þannig helstu áhrifaþættina í hreyfingu hafíssins. Ég byrjaði á því að fara til Noregs í nám við Óslóarháskóla þar sem ég dvaldi árið 1996 og tók námskeið í haffræði, veðurfræði og fræði samfelldra efna. Vinnan við verkefnið sjálft hófst síðan í febrúar árið 1997."

­ Hver er tilgangurinn með þessu verkefni?

"Hann er sá að gera grein fyrir helstu áhrifaþáttum í hreyfingu hafíss við Ísland og koma með uppástungur um næstu skref varðandi notkun líkana við hafísspár á Veðurstofunni. Til eru tvær gerðir hafíslíkana, skammtímalíkön og langtímalíkön. Sú síðari er veðurfarslegs eðlis þar sem sóst er eftir langtímaáhrifum loftslags og hafs á útbreiðslu, myndun, eyðingu og hreyfingu hafíss yfir yfir tuga til hundraða ára skeið. Með skammtímalíkani er leitast er við að reikna staðsetningu hafíss mun nákvæmar og um að ræða slíkt líkan í mínu verkefni.

Líkanið reiknar nokkra daga fram í tímann og markmiðið með þessari gerð er að geta gefið skipum á leið um hafíssvæði viðeigandi viðvaranir. Hér á Norður- Atlantshafi þar sem Austur- Grænlandsstraumurinn er ekki langt undan getur samspil óhagstæðra vinda, hafstrauma og annarra þátta leitt til aðstreymis hafíss að Íslandi. Oft kemur fyrir að siglingaleiðin um Horn er ófær vegna þessa og kostur að geta sagt fyrir um slíkt áður en skip leggja úr höfn."

­ Hvernig hefur verið lagt mat á hreyfingar hafíss til þessa?

"Hingað til hafa hafíshorfur verið ákvarðaðar samkvæmt upplýsingum um ísjaðarinn á tilteknum tíma og reynt að meta hreyfingu hans næstu daga með því að skoða veðurspá og taka tillit til meðalhafstrauma á svæðinu og reynsla og tilfinning því í stóru hlutverki. Galli slíkra aðferða er sá að nákvæmni minnkar hratt með spátímalengd."

­ Hvað er ólíkt með aðstæðum á hafsvæðum við Kanada og Ísland og þar með hegðun hafíssins?

"Talsverður munur er á íslenska og kanadíska hafsvæðinu og aðrir þættir sem leggja þarf til grundvallar hér. Í Kanada er ísinn er meira og minna samfrosta meðan aðstæður hér eru mótaðar af tímaháðum hafstraumum. Golfstraumurinn kemur með hlýjan sjó að sunnan og við fáum hingað ískalt vatn frá Norður-Íshafi svo dæmi séu tekin. Hreyfingin er því miklu meiri, bæði í hafinu og veðurfari sem hefur áhrif á aðstæður. Stöðugleikinn er meiri í Kanada og meðal annars gert ráð fyrir því í líkaninu að vaxtarhraði hafíssins sé sá sami, sem ekki gildir hér. Það þarf því að taka annað með í reikninginn."

­ Getur þú nefnt dæmi?

"Einn þátturinn er aflfræðileg víxlverkun milli hafíssagna. Þegar ég varði ritgerðina gerði ég til útskýringar á því ferli líkingu við forsýningu í bíó þar sem fjöldi áhorfenda reynir að ganga samtímis gegnum litlar dyr. Áhorfandi einhvers staðar í miðjunni vill komast beint áfram að hurðinni, óhindrað, en getur það ekki því allir hinir ýta á hann. Leiðin liggur því í nokkurs konar lykkju að dyrunum sem tekur lengri tíma en eftir beinni línu. Þessi þáttur er mjög mikilvægur á kanadísku hafsvæði þar sem ísinn er yfirleitt þykkari. Við Ísland er hann ekki svo mikilvægur því ísinn er á miklu opnara svæði hér og leikur meira lausum hala."

­ Hverjar eru helstu niðurstöðurnar?

"Sem fyrr segir er fyrrgreind aflfræðileg víxlverkun ekki eins mikilvægur þáttur hér sem einfaldar notkun hafísslíkans fyrir íslenskar aðstæður. Í öðru lagi þyrfti að leggja til grundvallar tímaháða hafstrauma sem reiknaðir væru út frá öðru líkani en ég hafði ekki aðgang að slíku og þurfti því að styðjast við meðaltalsstrauma. Við þurfum að fá hingað hafstraumslíkan líka og helst að byggja það á íslenskum aðstæðum, líkt og gert hefur verið fyrir hafíslíkanið."

JÓN Elvar Wallevik fæddist í Reykjavík árið 1968. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1988 og BS-prófi frá eðlisfræðiskor Háskóla Íslands árið 1994. Jón Elvar starfaði síðan á Veðurstofu Íslands, meðal annars við hafísrannsóknir, og hóf meistaranám við Háskólann árið 1995. Hann varði meistararitgerð sína um hafíslíkan fyrir íslensk hafsvæði hinn 18. desember á liðnu ári og er á leið í doktorsnám í Þrándheimi í byggingaverkfræði.

Tók dæmi af áhorfendum á forsýningu í bíó

Jón Elvar Wallevik