DR. ÓLAFUR Steinn tók doktorspróf í klínískri sálarfræði fyrir fjórum árum og skoðaði þá hvernig nota má dáleiðslu til að minnka og koma í veg fyrir skaðleg áhrif streitu á líkamann og starfsemi hans. Að doktorsnáminu loknu stundaði Ólafur síðan framhaldsnám við

Eins og svanur

á lygnri tjörn Á undanförnum árum hefur ný fræðigrein innan heilbrigðisvísinda, þar sem sálfræðilegar aðferðir eru notaðar til að meðhöndla líkamlega kvilla, notið sívaxandi viðurkenningar og athygli. María Hrönn Gunnarsdóttir spjallaði við dr. Ólaf Stein Pálsson, sérfræðing í atferlislækningum, en hann hefur meðal annars kennt fólki að ná stjórn á líkamsstarfsemi sem flestir telja að geti ekki verið háð viljastjórnun.

DR. ÓLAFUR Steinn tók doktorspróf í klínískri sálarfræði fyrir fjórum árum og skoðaði þá hvernig nota má dáleiðslu til að minnka og koma í veg fyrir skaðleg áhrif streitu á líkamann og starfsemi hans. Að doktorsnáminu loknu stundaði Ólafur síðan framhaldsnám við læknadeild háskólans í Chapel Hill í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, þar sem hann sérhæfði sig í atferlislækningum, eða behavioral medicine eins og það heitir á enskri tungu. Hann starfar nú sem aðstoðarprófessor í geðlækningum og heimilislækningum við Læknaskóla Austur-Virginíu í Norfolk auk þess sem hann veitir atferlislækningastofu skólans forstöðu.

Tengsl sálar og líkama

"Atferlislækningar er sú fræðigrein sem fjallar um tengslin milli hugar og líkama," segir Ólafur Steinn. "Það sem er hvað merkilegast í þessari grein er að hún er að verða hluti að hefðbundinni læknismeðferð. Þar sem ég starfa, innan heimilislæknadeildar Læknaskólans, eru reknar heimilislæknastofur og þar starfa næstum 50 heimilislæknar. Þeir vísa til mín, bæði til meðferðar og til greiningar, þeim sjúklingum sem þeir halda að hafi sjúkdóma sem eru tengdir streitu eða sálfræðilegum þáttum," segir hann og leggur áherslu á að hann meðhöndli eingöngu viðvarandi sjúkdóma sem hafa ekki batnað við hefðbundna meðferð. "Það að fara til sálfræðings er venjulega ekki það fyrsta sem maður gerir ef hann á við eitthvert líkamlegt vandamál að stríða og það er grundvallaratriði að það hafi verið gerð almenn læknisgreining og hefðbundnar aðferðir hafi verið reyndar áður en sjúklingur kemur til mín."

Ólafur segist hafa mestan áhuga á sjúkdómum sem tengjast streitu eða sjúkdómum sem ekki eru mjög tengdir hegðun eða sálfræðilegum þáttum en er hægt að hafa áhrif á með sálfræðilegum aðferðum. Þetta eru til dæmis viðvarandi höfuðverkir, ýmist vegna mígreni eða streitu, sem lyf hafa ekki dugað vel gegn, of hár blóðþrýstingur og bakverkir.

Ekkert ósjálfrátt

"Sálfræðilegar aðferðir duga oft mjög vel við þessum sjúkdómum. Ég vinn mikið með sállífeðlisfræðilegar aðferðir en þar mælir maður tengsl hugar og líkama með ýmisskonar tækjabúnaði og sýnir fólki útkomuna á skjá. Maður getur kennt fólki að breyta ákveðinni líkamsstarfsemi með því að sýna því hvað er að gerast innan í því frá einu augnabliki til annars. Þannig getur fólk lært að hafa stjórn á líkamsferlum sem eru venjulega ósjálfráð, til dæmis hjartslætti, blóðþrýstingi, yfirborðshita og svitalosun."

Og Ólafur útskýrir meðferðina nánar. "Fólk sem á við mígreni að stríða er yfirleitt með kaldari hendur en annað fólk. Við tengjum húðhitanema á hendur sjúklingsins og sýnum honum á tölvuskjá hver hiti húðarinnar er. Hann lærir síðan að auka hitastigið með því einu að einbeita huganum. Meðferðin tekur um átta til tíu meðferðarstundir og yfirleitt verður fólk að æfa sig heima með aðstoð nema sem við lánum því."

Þessi meðferð var uppgötvuð fyrir um tuttugu árum og er hún, að sögn Ólafs, notuð mjög víða í Bandaríkjunum. Árangurinn er alla jafna góður en í ljós hefur komið að hún dregur úr eða eyðir höfuðverkjum hjá 60-70 prósentum þeirra sem reyna hana.

Þá segir Ólafur að undanfarin 30 ár hafi menn gert sér sífellt ljósari grein fyrir því að hægt er að læra að stjórna flestum eða öllum þeim líkamsferlum sem áður var talið að væru ósjálfráð og ekki undir meðvitaðri stjórn. "Það er ekkert í líkamanum sem er algerlega ósjálfrátt. Ef maður getur fengið upplýsingar um hvað er að gerast í líkamanum á sama tíma og það gerist getur hann lært að stjórna þessum ferlum. Helsta vandamálið er að mæla þau."

Virðist dularfullt

Ólafur segir að aðferðir atferlislækninganna verði æ meira áberandi bæði innan læknisfræði og sálfræði. Tækniþekking hafi aukist mjög hratt svo að nú er hægt að mæla miklu nákvæmar og betur hvað er að gerast í líkamanum en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma verði tækin, sem yfirleitt er tölvubúnaður, sífellt ódýrari.

"Þetta er í rauninni það sama og jógaiðkendur gera án tækjabúnaðar og yfirleitt getur fólk lært að auka næmi sitt á ósjálfráða taugakerfinu svo að það getur fundið hvað er að gerast í líkamanum. Það tekur bara tíma," segir Ólafur og bætir við: "Þetta virðist vera dularfullt vegna þess að við höfum alltaf talið ósjálfráða taugakerfið og það sem gerist innan í okkur eitthvað sem við getum ekki haft stjórn á. En þessar aðferðir eru mjög skipulegar, ekki síður en þær aðferðir sem fólk notar til að læra að nota vöðva sem eru háðir viljastjórnun."

Heilabylgjum breytt

Ef það þykir dularfullt að hægt sé að ná stjórn á ósjálfráða taugakerfinu kemur það vissulega spánskt fyrir sjónir að hægt sé að beita sömu aðferðum til að læra að stjórna heilabylgjum og heilastarfsemi. Ólafur hefur töluverða reynslu á þessu sviði.

"Við mælum ákveðnar heilabylgjur með tækjum og sýnum fólki styrk þeirra jafnóðum. Styrkur heilabylgna á mismunandi tíðnisviðum er mismunandi á hverjum tíma og það hefur sýnt sig að hægt er að kenna fólki að auka styrk eða útslátt á hröðum bylgjum og minnka styrk á hægum bylgjum. Þetta er mest notað til að reyna að skerpa skerta athyglisgáfu barna og til að draga úr ofvirkni en þá er styrkur hægra bylgna of mikill miðað við það sem telst vera eðlilegt. Fyrsta vísindagreinin um þetta birtist árið 1984 svo þetta hefur verið stundað í 13­15 ár."

Ólafur segir þetta vera eins og hverja aðra þjálfun, til dæmis í íþróttum, því það er sjúklingurinn sjálfur sem framkvæmir. Það hefur aftur á móti verið vandamál að fá fólk með skerta athygli og ofvirk börn til að sitja fyrir framan skjáinn í langan tíma en til að meðferðin beri árangur þarf sennilega á bilinu 20­50 meðferðarstundir, sem hver er 45 mínútna löng.

Lausn þessa vanda er hins vegar í sjónmáli. Þegar Ólafur vann að doktorsverkefninu sínu hafði hann sér til tæknilegrar ráðgjafar vísindamann við Bandarísku geimferðastofnunina, Dr. Alan Pope. Dr. Pope er yfirmaður deildar sem hefur það hlutverk að finna aðferðir til að draga úr mistökum flugmanna í starfi og þar með úr flugslysum. Þeir félagar starfa enn saman og hafa nú fundið upp nýja tækni til að breyta heilabylgjum í fólki.

"Það er tölvuleikur sem breytist eftir því hver heilastarfsemi þess sem leikur sér er. Heilastarfsemin er mæld á meðan barnið leikur sér og leikurinn er forritaður þannig að hann breytist á lítt áberandi hátt. Ef styrkur ákveðinna heilabylgna eykst verður leikurinn skemmtilegri. Geimferðastofnunin er þegar komin með einkaleyfi á frumgerð leiksins en við erum að vinna að miklu öflugri gerð hans, sem við vonum að gefi betri árangur."

Flughermirinn breytist

"Okkur datt síðan í hug hvort hægt væri að nota þessa tækni til að þjálfa flugmenn þannig að hún myndi nýtast geimferðastofnuninni sjálfri. Til að meta gagnsemi þessarar tækni verða orustuflugmenn bandaríska flotans þjálfaðir í flughermi sem tengdur er líkamsstarfsemi þeirra þannig að hermirinn breytist með breytingum á líkamsástandi mannanna. Markmiðið er að þjálfa flugmenn í að bregðast við neyðarástandi án þess að líkamsstarfsemin, svo sem hjartsláttur og blóðþrýstingur, fari úr skorðum. Ef hún gerir það fer heilastarfsemin og þar með athyglin einnig úr skorðum en flest flugslys verða vegna mistaka og athyglisvandamála flugmannanna. Við erum að reyna að hafa óbein áhrif á heilastarfsemi flugmannanna með því að halda líkamsstarfseminni í lagi. Bandaríski flotinn vill ekki að við séum að eiga beint við heilastarfsemi orustuflugmanna, þeir eru dýrustu starfsmennirnir þeirra og fljúga vélum sem kosta marga milljarða. Þetta er í þróun en það er talsvert erfitt að smíða þennan tækjabúnað."

Menntun, reynsla og skurðarhnífur

En skyldi vera hægt að misnota þessar aðferðir?

"Það er hægt að misnota þær eins og allar aðrar máttugar aðferðir til að hafa áhrif á hegðan fólks og líkamsstarfsemi," segir Ólafur. "Skurðlæknir gæti til dæmis notað skurðarhnífinn til að drepa með honum. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að maður sem stundar svona sérhæfða meðferð verður að hafa tilhlýðilega menntun og reynslu. Ef maður fer í meðferð hjá fólki sem notar sállífeðlisfræðilegar aðferðir og dáleiðslu og starfar innan heilbrigðiskerfisins er lítil hætta á mistökum. Þessar aðferðir hafa reyndar miklu færri hliðarverkanir en aðrar lækningaaðferðir svo sem lyfjameðferð. Hættan stafar af því að fólk haldi að allir geti fengist við þetta."

Steita er alltaf líkamleg

Eitt helsta áhugamál Ólafs er streita, streitusjúkdómar og meðhöndlun þeirra. "Streita er alltaf líkamleg og sálfræðileg viðbrögð við ógn sem maður skynjar í umhverfinu. Þetta er sjálfvirkt viðbragðskerfi. Ef ekkert ógnar manni finnur maður ekki fyrir streitu. Fólk heldur gjarnan að það sé í lagi að vera undir andlegri streitu og að hún hafi ekki áhrif á líkamann. Viðbrögð við ógn eru alltaf líkamleg og þau miða öll að því að fá mann til að forða sér eða berjast við hana. Viðbrögðin eru gömul í hettunni og þó að það sem ógnar fólki nú á dögum sé ekki eitthvað sem maður getur brugðist beint við með líkamanum eru þau líkamleg, hjartsláttur eykst, blóðþrýstingur hækkar og svitalosun eykst. Þó að maður ákveði að horfa framhjá ógn sem steðjar að veldur hún líkamlegum viðbrögðum. Þess vegna er það, hversu mikilli streitu manni finnst hann vera undir, ekki góður mælikvarði á hversu mikið heilbrigðisvandamál streita er. Streitusjúkdómar eru fyrst og fremst líkamlegir sjúkdómar. Líkaminn sýnir óeðlilegt innra ástand þegar hann er undir álagi. Fólk getur haft slíkt innra líkamlegt streituástand í svolítinn tíma án þess að það valdi nokkrum vandamálum en ef það er viðvarandi svo mánuðum skiptir veldur það röskun á ýmsum líkamsferlum. Þessi röskun getur að lokum orðið að streitusjúkdómum," segir Ólafur og bætir við: "Ég hef haft fólk í meðferð sem er undir gífurlegri líkamlegri streitu en því finnst það vera í jafnvægi. Þetta er það sem nýlega er farið að kalla svanaheilkennið eða The Swan syndrome . Fólkið er rólegt og afslappað á yfirborðinu eins og svanur á tjörn en innra með því er allt á fullu. Fólk á nefnilega oft erfitt með að gera sér grein fyrir að streita getur verið falin. Við finnum ekki endilega fyrir henni andlega því við höfum sálfræðilegar varnaraðferðir gegn henni."

Ólafur segir aftur á móti að það sé auðvelt að mæla streitu. Ýmsar staðlaðar þrautir eru lagðar fyrir fólk, sem það verður að leysa undir mikilli tímapressu. Um leið og það leysir þrautirnar er fjöldi mismunandi líkamsferla mældur og niðurstaðan síðan borin saman við gildi sem hafa verið skilgreind sem eðlileg gildi.

Neikvæðni og óskapahyggja

"Það er tvennt sem við skoðum þegar við leggjum streituprófið fyrir fólk. Annars vegar hversu sterkt líkaminn bregst við og hins vegar hversu fljótt fólk er að ná sér aftur. Sumir hafa ofvirkt viðbragðskerfi og aðrir bara ná sér ekki aftur. Þetta fólk er í hvað mestri hættu á að fá streitusjúkdóma.

Það eru ákveðnir sálfræðilegir þættir sem gera fólk óvenju næmt eða ónæmt fyrir streitu. Einn sá áhrifamesti er það sem ég kalla andlega neikvæðni. Sá sem er mjög andlega neikvæður sér fleiri hluti í sínu daglega lífi sem ógn en sá sem er það ekki. Þetta er nokkuð stöðugur persónuleikaþáttur þannig að hann breytist ekki mikið á lífsleiðinni en það er hægt að kenna fólki með sálfræðilegum aðferðum að túlka ógnina öðruvísi. Annar þáttur er það sem ég hef snarað á íslensku sem óskapahyggja. Sá þáttur felst í að gera úlfalda úr mýflugu. Hann ákvarðar hversu sterkt maður upplifir ógnina sem hann verður fyrir. Í starfi mínu sem sálfræðingur vinn ég mikið við að breyta túlkun fólks á ógn, annað hvort með hefðbundinni sálfræðimeðferð eða með dáleiðslu."

Frá staðdeyfingu til svæfingar

Ólafur hefur einmitt notað drjúgan hluta starfskrafta sinna á undanförnum árum í rannsóknir á dáleiðslu og hvernig hægt er að nota hana til að meðhöndla líkamlega kvilla. Rannsóknir hans hafa hlotið mikla athygli, bæði á læknaþingum og meðal almennings og fyrir skömmu var sagt frá þeim í kvöldfréttatímum ABC, CBS og NBC sjónvarpsstöðvanna.

"Dáleiðsla er takmörkuð að því leyti að hún virkar mjög misvel á fólk," segir hann. "Hagnýting hennar verður hins vegar sífellt ljósari. Það er hægt að nota hana allt frá staðdeyfingu til svæfingar og hún verkar vel á ýmis húðvandamál. Nýlegar rannsóknir sýna að draga má úr blóðmissi um meira en 65% hjá dreyrasjúklingum sem fara í tannskurðaðgerð ef þeir eru dáleiddir á meðan á aðgerðinni stendur.

Dáleiðsla virðist einnig duga mjög vel til að hafa áhrif á starfsemi meltingarfæranna í ákveðnum sjúkdómum, sérstaklega á Irritable bowel syndrome , sem ég kalla þarmaóþægð á íslensku. Helstu einkenni þarmaóþægðar eru sársauki, krampar og breytingar á hægðum en orsökin er ekki með öllu ljós. Þetta er töluvert algengt vandamál, ekki síst meðal ungs fólks. Ákveðinn hluti sjúklinganna fær ekki bata af hefðbundinni meðferð. Þegar svo er virðist dáleiðsla virka betur en annað til að draga úr eða eyða einkennunum og 85% sjúklinganna hljóta varanlegan bata að meðferðinni lokinni."

Lækning með ímyndunaraflinu

Ólafur hefur sjálfur töluverða reynslu af að meðhöndla þarmaóþægð auk þess sem hann hefur reynt með rannsóknum að finna hvernig dáleiðsla breytir starfsemi meltingarfæranna. "Þótt dáleiðslu hafi verið beitt við sjúkdómnum í 15 ár veit enginn hvernig það gerist. Ég meðhöndlaði 18 sjúklinga í rannsókninni og af þeim hlutu 17 töluverðan bata. Hægðir urðu eðlilegri og það dró mikið úr sársauka. Þó gátum við ekki fundir neinar líkamlegar breytingar svo sem í sársaukanæmi eða vöðvaspennu," segir Ólafur. Hann hefur nú hlotið styrk frá læknaskólanum sem hann starfar við til að gera aðra rannsókn á áhrifum dáleiðslu á þarmaóþegð. Þar ætlar hann að athuga hvað hæft er í kenningum um að dáleiðslan dragi úr losun hormónsins vasoactive intestinal peptide en þeir sem þjást af sjúkdómnum hafa um helmingi meira af hormóninu í þörmunum en þeir sem hafa hann ekki.

Að sögn Ólafs er dáleiðsla alveg sérstakt hugarástand sem hvorki líkist svefni né vöku.

"Dáleiðslan hefur tvö megineinkenni," segir hann. "Í fyrsta lagi er einbeiting þess sem er dáleiddur þrengri en í vöku og hún verður mjög mikil á einhverju takmörkuðu sviði. Allar tilfinningar verða því mun sterkari í dáleiðslu en í vöku. Í öðru lagi eru hreyfingar og önnur viðbrögð dáleidds manns ekki viljastýrðar heldur eru þær ósjálfráðar og þeim stýrt af ímyndunarafli hans. Dáleiðslumeðferðin byggist á þessu, ímyndunarafl og þröng einbeiting eru notuð til að hafa áhrif á starfsemi líkamans."

Morgunblaðið/Golli

ÓLAFUR Steinn leggur áherslu á það við fólk, áður en hann dáleiðir það, að það geti komist út úr dáleiðslunni sjálft þegar það kýs.

Mígrenisjúklingar með kaldar hendur

Dáleiðslan verður sífellt nytsamari

Neikvæðni og óskapahyggja eru streituvaldandi