MARGIR tjá sig á opinberum vettvangi um þjóðfélagsmál þótt þeir hafi ekki gert stjórnmálin að ævistarfi. Samt sem áður má velta því fyrir sér hve dæmigerð sjónarmiðin í fjölmiðlum eru fyrir skoðanir fjöldans þegar rætt er um fiskveiðistjórnun.

Fólkið og kvótinn

Deilur hafa verið um kvótakerfið frá því að það var lögfest 1983. Viðskipti með kvóta, hugmyndir og skoðanir Íslendinga í þeim efnum var viðfangsefni Óðins G. Óðinssonar sem lauk meistaraprófi í mannfræði við Háskóla Íslands í fyrra. Kristján Jónsson kynnti sér ritgerðina og ræddi við höfundinn.

MARGIR tjá sig á opinberum vett vangi um þjóðfélagsmál þótt þeir hafi ekki gert stjórnmálin að ævistarfi. Samt sem áður má velta því fyrir sér hve dæmigerð sjónarmiðin í fjölmiðlum eru fyrir skoðanir fjöldans þegar rætt er um fiskveiðistjórnun. Þúsundir manna vinna í sjávarútveginum eða sinna störfum sem tengjast honum en misjafnt er hve mikið málefni hans hreyfa við tilfinningum fólks, einkum ef það á erfitt með að gera sér grein fyrir þeim gríðarlegu fjárhæðum sem eru í húfi. Mestu skiptir kvótakerfið fólkið í sjávarþorpum þar sem allt snýst um sjóinn.

Óðinn G. Óðinsson mannfræðingur segir í lokaritgerð sinni, Fagur, fagur fiskur í sjó, að þegar kvótakerfið var samþykkt á Alþingi 1983 hafi það verið gert án nægilegrar umræðu og augljóst að margir þingmenn hafi alls ekki séð fyrir þróun þess. Á hann þá ekki síst við einn umdeildasta hluta kerfisins, að kvóti sé í reynd meðhöndlaður eins og séreign þrátt fyrir lagaákvæði um þjóðareign á fiskimiðunum og gangi kaupum og sölum.

Þáttaskil hjá útgerðarmönnum

Enn fremur minnir hann á að margir alþingismenn hafi haft miklar efasemdir um kvótakerfið og samþykkt það með hálfum huga, litið á það sem tímabundna ráðstöfun. Talsmenn útgerðanna hafi upphaflega verið andvígir enda vanir frelsi til að veiða nánast að geðþótta en þeim hafi snúist hugur. Óðinn veltir því fyrir sér hvort þeir hafi skyndilega áttað sig á því að kvótinn gæti orðið mikil verðmæti þegar fiskistofnar hjörnuðu við. Frelsinu væri fórnandi, sérstaklega vegna þess að ákveðið var að binda veiðiréttinn við skip.

Óðinn segir andstöðu við kvótakerfið helst beinast að framsalsþættinum og eignahugmyndum, siðferðinu að baki. Hann ræddi við nær tuttugu manns á Borgarfirði eystra eða um 10% íbúanna. Hjá viðmælendum kom fram að allir hafa þeir skoðun á kvótanum þegar eftir henni er leitað, oftast skýra en um leið oft þversagnakennda og teygjanlega eftir því hvaða sjónarhorn þeir miða við hverju sinni.

Ljóst er að mikil togstreita er milli annars vegar löngunar til að vera sjálfstæður einstaklingur, frjáls fiskimaður og hins að allir eru um leið hluti af heildinni, samfélaginu sem setur lög og reglur sem virðast stundum lítt skiljanlegar, óréttlátar og jafnvel siðlausar. Reglurnar um viðskipti með óveiddan fisk stangast á við hefðir sem á umliðnum öldum eru orðnar samgrónar hugsunarhætti flestra Íslendinga.

Fólkið sem rætt er við er á ýmsum aldri og í hópnum eru m.a. eiginkonur sjómanna. Sumir hafa nýtt sér kvótakerfið, leigt eða selt veiðiheimildir, skipt við aðra til hagræðingar. "Mér finnst þetta eitthvað komið svo langt frá veruleikanum. Þetta er svo óeðlilegt ástand þegar verðið á óveiddum fiski er orðið hærra en það sem er lagt upp. Þetta er svo ruglingslegt kerfi," sagði einn af viðmælendum Óðins.

Annar, aldraður sjómaður, sagði ráðamenn prédika að fiskurinn væri þjóðareign "en þetta er að fara á nokkurra manna hendur bara". Aðrir ræða um að óeðlilegt sé að einhverjir geti "bara legið með tærnar upp í loft" eða "keyrt um á fjallajeppa" vegna þess að þeir hafi einu sinni, upp úr 1980, veitt vel. Nú geti þeir selt veiðiréttinn, kvótann, og lifað kóngalífi án þess að gera nokkurn skapaðan hlut.

"Afskaplega skammarlegur hugsunarháttur"

Ýmsir benda á þá erfiðu stöðu sem kemur upp þegar meira fæst fyrir kvóta en raunverulegan fisk. "Ef ég veiði hann ekki þá fæ ég yfir 90 krónur fyrir kílóið af honum en ef ég veiði hann þá er ég að fá 50 til 70 krónur fyrir hann," segir einn. "Mér finnst þetta afskaplega skammarlegur hugsunarháttur en það er bara ekki hægt annað en að hugsa svona."

Sjómannskona sagði um kvótamillifærslur makans að sér fyndist að hann ætti að veiða fiskinn sjálfur. "Það var verið að úthluta honum þessu. Ekki til þess að selja eða leigja eitthvað, heldur til þess að reyna að skrapa þetta inn sjálfur."

Óðinn segir suma viðmælendur sína hafa lagt áherslu á að menn ættu að skila þeim kvóta sem þeir næðu ekki að veiða, óveiddi kvótinn flyttist þá í sameiginlegan pott sem yrði aftur jafnað út á heildina. Einnig var bent á að óveiddi fiskurinn þyrfti ekki að vera tapaður. Hann gæti náð að stækka og auka kyn sitt, með þessu væri hægt að efla stofnana og treysta framtíðina á sama hátt og gert er með öðrum takmörkunum til að hindra ofveiði.

Hann segir fólkið gera sér fulla grein fyrir því að kvótasala frá byggðarlaginu gæti lagt það í eyði. "Ef allir flyttu fiskinn í burtu þá væri það það sama og að flytja sjálfan sig í burtu." En "það er hins vegar spurning hvað menn neyðast oft til", sagði einn íbúanna.