"SATT best að segja er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur gengið vel allt saman," segir Hilmar. Hann hristir höfuðið og endurtekur næstum hissa: "Já, þetta hefur verið ótrúlegur tími." Við erum sestir í veitingasal leikhússins við Vesturgötu 11 í Hafnarfirði. Áður frystihús, núna leikhús svo ekki verður um deilt, meira að segja rétta lyktin, leikhúslyktin, kitlar nasirnar.
Erum rétt að byrja

Hilmar Jónsson, leikstjóri og leikhússtjóri, hefur verið fremstur meðal jafningja í Hafnarfjarðarleikhúsinu Hermóði og Háðvöru undanfarin tvö ár. Hávar Sigurjónsson talaði við Hilmar um starf hans í leikhúsinu og árangurinn hingað til.

"SATT best að segja er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur gengið vel allt saman," segir Hilmar. Hann hristir höfuðið og endurtekur næstum hissa: "Já, þetta hefur verið ótrúlegur tími."

Við erum sestir í veitingasal leikhússins við Vesturgötu 11 í Hafnarfirði. Áður frystihús, núna leikhús svo ekki verður um deilt, meira að segja rétta lyktin, leikhúslyktin, kitlar nasirnar. "Já, finnst þér það?" segir Hilmar ánægður. "Áður en við frumsýndum fyrsta verkið hérna, Himnaríki , höfðum við miklar áhyggjur af lyktinni, hér angaði svo af ammoníaki og slori að við vorum hrædd um að áhorfendur myndu snúa við í anddyrinu."

Það reyndust óþarfar áhyggjur því áhorfendur hafa flykkst á sýningar leikhússins, skemmt sér konunglega, hvatt vini og kunningja til að fara og fyrir vikið hefur spennandi og skemmtilegt atvinnuleikhús haldið velli í Hafnarfirði í tvö og hálft ár. Á þessum tíma hafa þrjár sýningar verið frumsýndar, Himnaríki eftir Árna Ibsen, Birtingur eftir Voltaire í leikgerð Hilmars og Gunnars Helgasonar, og Að eilífu eftir Árna Ibsen. Fjórða sýningin er í fæðingu, barna- og fjölskyldusýningin Síðasti bærinn í dalnum í leikgerð Hilmars og Gunnars. Frumsýnt verður á laugardaginn næsta, 24. janúar. Hilmar leikstýrir nú sem fyrr, en hinar þrjár sýningarnar voru í leikstjórn hans.

Ekki verður annað sagt en árangur Hafnarfjarðarleikhússins hafi farið fram úr björtustu vonum. "Við vorum alveg óþekkt stærð þegar okkur var úthlutað tveimur milljónum til að setja upp óskrifað leikrit. Það var létt sjokk fyrir okkur að fá styrkinn," segir Hilmar. "Ég held að það hafi líka verið létt sjokk fyrir Árna Ibsen þegar við sögðum honum að nú yrði hann að skrifa leikritið því við hefðum fengið styrk til að setja það upp."

Var bara startgjaldið

Svo var leikritið skrifað, æft og frumsýnt og velgengni sýningarinnar á Himnaríki er löngu orðin þekkt saga. Óskabyrjun fyrir nýtt leikhús. Að baki lá gríðarleg vinna hópsins, en eins og Hilmar segir sjálfur . . . "kannski var auðveldast að æfa leikritið og koma því á svið því við kunnum það. Erfiðleikarnir lágu í öllu hinu, að búa til leikhús úr frystihúsi og fá tilskilin leyfi til þess, berjast við kerfið, byggingafulltrúa, brunavarnafulltrúa og allar reglugerðirnar, auk þess að útvega meiri peninga því tvær milljónirnar sem við fengum frá Leiklistarráði reyndust bara startgjaldið." En allt hafðist þetta, Himnaríki "sló í gegn" og var leikið yfir 80 sinnum og hópurinn fór með sýninguna í leikferð til Norðurlandanna og til Bonn við góðan orðstír. "Leikritið hefur víða verið tekið til sýninga í leikhúsum á Norðurlöndunum." Fleiri uppfærslur eru í undirbúningi m.a. ein í Svenska Teatern í Abo í Finnlandi. Hilmari hefur verið boðið að setja upp ásamt leikmyndahöfundinum Finni Arnari Arnarsyni. "Við erum búnir að skrifa undir samning og að öllu óbreyttu förum við í október."

Í mars 1996 var Hafnarfjarðarleikhúsinu tilkynnt af menntamálaráðuneytinu að það hefði hlotið starfsstyrk til tveggja ára, upp á 16 milljónir. Þetta var mikil traustsyfirlýsing, en Himnaríki benti til þess að mikils mætti vænta frá Hafnarfjarðarleikhúsinu ef því væri veitt tækifæri til. "Þetta var sjokk númer tvö og við þetta varð algjör kúvending á lífi okkar allra. Við vorum í vinnu annars staðar og urðum að gera upp við okkur hvað við vildum gera. Ráðuneytið setti t.d. sem skilyrði fyrir styrkveitingunni að ég færi af samningi sem fastráðinn leikari í Þjóðleikhúsinu. En þetta var tækifæri sem ekki var hægt að sleppa. Sem betur fer vissum við ekki hvað við vorum að fara út í því það er allt annað mál að setja upp eina sýningu og halda henni gangandi í ákveðinn tíma, en að skipuleggja samfelldan leikhúsrekstur yfir tveggja ára tímabil. Reksturinn hefur reynst dýrari en við gerðum ráð fyrir og sextán milljónir eru ekki nóg til að reka leikhús í tvö ár, jafnvel lítið leikhús eins og okkar. Aðrir aðilar hafa styrkt okkur með ráðum og dáð og þar vil ég fyrst og fremst nefna Hafnarfjarðarbæ sem hefur styrkt okkur rausnarlega og veitt okkur alla hugsanlega fyrirgreiðslu."

Á að vera erfitt

Hilmar er tregur til að ræða neikvæðari hliðar rekstursins og það kann að vekja nokkra furðu að þrátt fyrir að sýningar leikhússins hafi gengið vel þá hefur reksturinn skilað 2­3 milljóna króna halla um áramótin síðustu og þar áður. "Íbúðirnar okkar standa sem veð fyrir yfirdrættinum. Við höfum beitt okkur hörðu til að halda öllum kostnaði niðri og t.d. hefur enginn verið hér á föstum launum allt árið um kring. Það gengur ekki. En í staðinn lendum við í vandræðum þegar launalausu tímabilin koma hjá okkur og þar liggur líka samviskuspurningin, gagnvart fjölskyldunum okkar. En þetta er líka ákveðin rómantík og auðvitað má ekki gera of mikið úr þessu; auðvitað er þetta erfitt en það sagði heldur enginn að þetta ætti að vera öðruvísi. Við vissum alveg út í hvað við vorum að fara. Og það er svo fjarri því að við séum að væla; við erum stolt af því sem við höfum gert og erum þess fullviss að við höfum staðið við okkar og verið traustsins verð. Og að þeir sem stóðu að því að fela okkur þessa ábyrgð geti sömuleiðis verið stoltir af því að hafa átt hlut að máli." Hilmar segir það hafa komið eins og himnasendingu í byrjun síðasta árs þegar leikhúsinu var úthlutað starfslaunum til 15 mánaða. "Eina skilyrðið var að við notuðum starfslaunin til að greiða sjálfum okkur kaup. Það var eiginlega mjög erfitt að standa við það. Yfirleitt ganga allir aðrir reikningar fyrir áður en við fáum laun. Af hverju? Af því að ef símareikningurinn er ekki borgaður lokast fyrir símann, ef rafmagnsreikningurinn er ekki borgaður er rafmagnið tekið af og ef borgum ekki leigu á tækjum þá kemur eigandinn og tekur þau. Allir nema listamennirnir líta á það sem sjálfsagðan hlut að fá greitt fyrir vinnu sína. Við "neyddumst" því til að skipta þessum fimmtán mánaðarlaunum á milli okkar eftir að hafa barist við samviskuna og horft á reikningastaflann góða stund. En þrátt fyrir þetta höfum við samt sett ákveðnar reglur um ráðningar leikara í sýningarnar okkar sem allir verða að gangast undir. Við ráðum t.d. ekki leikara ef þeir ætla að leika á sama tíma í sýningum hjá öðrum leikhúsum. Þá fara sýningarkvöld að rekast á og útkoman yrði að lokum sú að við gætum ekki sýnt nema á miðvikudagskvöldum og sunnudagseftirmiðdögum. Leikararnir væru uppteknir annars staðar bestu kvöld vikunnar. Þetta þýðir auðvitað að einhverju verður að fórna. Öll gætum við verið í vinnu annars staðar fyrir betri laun. Leikarar Hafnarfjarðarleikhússins eru eftirsóttir. En þetta snýst heldur ekki eingöngu um peninga."

Þeir sem til þekkja vita að til þess að halda úti leikhúsi eins og Hafnarfjarðarleikhúsinu þarf að leggja miklu vinnu af mörkum og bera lítið úr býtum fjárhagslega. Mörgu verður að fórna í persónulegu lífi, fjölskyldulíf situr á hakanum löngum stundum og hin efnislegu gæði sem svo mikið er lagt upp úr verða að bíða annars tíma. Hilmar dregur þetta snyrtilega saman í eina setningu . . . "Ef ég væri að vinna við eitthvað annað en Hafnarfjarðarleikhúsið á þessum kjörum myndi ég deyja úr óhamingju." Hamingjan í þessum skilningi virðist þröngt einstigi sem leyfir ekki mörg feilspor; "sýningarnar verða að ganga, þær verða að standast okkar listrænu kröfur, þær verða að vera öðruvísi svo fólk komi hingað til að sjá þær, allt verður einfaldlega að ganga upp."

Hugmyndir kosta ekkert

Hingað til hefur allt gengið upp og þá má kannski spyrja hvers vegna. Hvað hefur Hafnarfjarðarleikhúsið til að bera sem veldur þessari lukku? Hilmar staldrar við spurninguna og segir svo. "Auðvitað er það ekki mitt að svara því en ég er sannfærður um að ein ástæðan er sú að alltaf þegar hópurinn sem hér starfar kemur saman þá leysist úr læðingi einhver sköpunarkraftur sem við höfum ekki fundið gerast annars staðar. Þessi sköpunarkraftur er það sem við byggjum allt okkar starf á og er okkar dýrmætasta eign. Við höfum stundum sagt að það sé merkilegt að góðar hugmyndir séu það dýrmætasta í leikhúsinu en um leið það eina sem kosti ekkert. Ég hef heldur engar fræðilegar skýringar á því hvernig við vinnum og við höfum svo sem ekki sett okkur flókin listræn markmið. Ekki önnur en þau að gera það sem okkur langar til að gera og gera það vel. Við erum ekki "lítið af ljósum og langt á milli setninga leikhúsið". En þegar horft er til baka, á það sem við höfum gert, þá kemur samt stefnan í ljós. Við höfum alltaf sett upp ný verk, tvisvar ný frumsamin íslensk leikrit og tvisvar nýjar leikgerðir af sögum, ef ég tel Síðasta bæinn í dalnum með, þótt enn séu nokkrir dagar í frumsýningu. Aðferð okkar var kannski ákveðin strax í upphafi þegar við gáfum Árna (Ibsen) forskrift að leikritinu sem hann átti að skrifa. Það áttu að vera hlutverk fyrir alla, allir áttu að vera inni á sviðinu allan tímann, það átti að höfða til ungs fólks en samt líka eldra fólks og það átti að vera skemmtilegt!" Hilmar hlær. "Það er ótrúlegt svona eftir á að okkur skyldi hafa dottið í hug að þetta væri hægt."

Listræn stefna

Hilmar segir að núna fyrst séu þau að átta sig á hver stefnan er; "við erum núna að draga lærdóm af þeirri reynslu sem við höfum öðlast. Við lærðum til dæmis alveg gríðarlega mikið af því að leikgera Birting. Þar uppgötvaðist ákveðinn hæfileiki innan hópsins til að segja sögu. Þessi reynsla hefur nýst mjög vel við leikgerðina að Síðasta bænum í dalnum. Það ríkir ákveðið traust innan hópsins og mér liggur við að segja að vinnuaðferðin okkar sé "fullkomin". Það koma allir að öllum þáttum vinnunnar og allir fá að tjá sig um allt. Þannig hafa hæfileikar allra sem hér vinna nýst að fullu. Það er líka oft bara svo gaman. Stundum sitjum við saman tíu, fimmtán manns og allir eru að drepast úr hlátri. Þetta er hluti af stefnunni, því þetta traust og þessi gleði er það sem við byggjum á. Annars værum við farin eitthvað annað. Annað sem er hægt að benda á er að við erum öll leikarar og hugsuðum þetta út frá því. Hvernig vilja leikarar vinna? Leikarar eru hæfileikaríkt fólk og hæfileikar þeirra eru oft vannýttir í leikhúsinu. Það er ekki fullnægður leikari sem kemur inn á með bréf í öðrum þætti og svo aftur með spjót í fjórða þætti."Sérstaðan klár

Hilmar hugsar sig um. "Við höfum staðið við okkar upphaflegu kröfu um að allir séu inná allan tímann. Það er aldrei neinn í pásu eða farinn heim fyrir hlé. Það eru allir að vinna alltaf. Það er lykillinn að útkomunni að allir beri jafna ábyrgð frá upphafi til enda. Það er líka stefna hjá okkur að vera bara með eina sýningu í gangi í einu. Við viljum ekki hafa þetta öðruvísi vegna þess að við verðum að vanda okkur. Ef við færum að keyra tvær leiksýningar saman og fara ótal listrænar málamiðlanir einsog í leikmynd og ljósum, svo hægt væri að samnýta græjurnar þá væri þetta búið. Þá er miklu betra að við förum eitthvað annað. Svo höfum við líka sett okkur það markmið að gera eitthvað sem önnur leikhús geta ekki gert eða eru a.m.k. ekki að gera. Við þurfum að réttlæta það að okkar leikhús er í frystihúsi í Hafnarfirði. Sérstaða okkar verður að vera alveg klár."

Einhverjir höfðu á orði þegar Birtingur var frumsýndur að sýningin væri svo háð uppruna sínum, salnum og þeim sérstöku aðstæðum sem þar eru að hún hefði ekki og myndi ekki gera sig annars staðar.

"Þetta er ekki neikvæð gagnrýni. Þetta er akkkúrat það sem við vildum og viljum með sýningarnar okkar. Að það þurfi að koma hingað til að sjá þær og hvergi annars staðar. Við gerðum okkur mjög vel grein fyrir þessu sjálf með Birting og afþökkuðum boð um að fara með sýninguna á leiklistaráhátíðir erlendis vegna þess að við vissum að það væri ekki hægt. Sýningin hefði ekki orðið sú sama." Hilmar hristir höfuðið þegar hann segir að margir hafi sagt að ekki væri hægt að gera leikhús úr sal með einungis 3,5 metra lofthæð. "Ef við erum ekki búin að afsanna það nú þegar þá eigum við það bara eftir. Fólk hefur sagt: "Þetta er náttúrlega handónýtt leikhús, engin lofthæð . . ." Hvað áttu við? Þetta er fínasta leikhús, hefurðu ekki séð sýningarnar okkar. Þetta virkar alveg. Leikararnir leika, ljósin kvikna og allt er eins og við viljum hafa það. Auðvitað langar mann oft í meira af þessu og meira af hinu. Meiri peninga og meiri lofthæð. En við stöndum frammi fyrir því að þetta eru peningarnir, þetta er rýmið og þetta er lofthæðin. Hvað gerum við með þetta? Við gerum það skemmtilegasta sem við getum úr því sem við höfum."

Hættur að leika

Með starfi sínu í Hafnarfjarðarleikhúsinu hefur Hilmar skapað sér sess sem einn af okkar eftirtektarverðustu og frumlegustu leikstjórum af yngri kynslóðinni. Þó má ekki gleyma að áður en hann sneri sér að leikstjórn hafði hann vakið athygli sem leikari og var kominn á fastan samning í Þjóðleikhúsinu. Hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu hefur hann ekkert leikið heldur alfarið sinnt leikstjórninni. Er hann kannski hættur að leika?

"Það getur vel verið án þess að ég ætli að koma með ákveðna yfirlýsingu um það, en í leikstjórninni finn ég ákveðinn kraft innra með mér sem ég hef ekki fundið í öðru. Ég held að þarna hafi ég fundið starf í leikhúsinu þar sem mínir hæfileikar nýtast best."

Nýturðu þín betur sem leikstjóri en sem leikari?

"Já, ég geri það. Ég finn það alveg að ég mæti leikstjórn af miklu meira sjálfstrausti heldur en leik. Ekki þar fyrir, ég hef alltaf trúað því að ég væri ágætis leikari, en það er mér miklu erfiðara. Kannski er starf leikarans erfiðara en leikstjórans. Sem leikstjóri öðlast ég ákveðna sannfæringu og þori að fylgja henni eftir."

Alltaf skelfingu lostinn

Það er margt framundan hjá Hilmari í leikstjórninni. Á næstu dögum hefjast æfingar með Herranótt MR, síðan tekur við verkefni með útskriftarárgangi Nemendaleikhúss Leiklistarskólans og síðar í vor þrjú Sunnudagsleikrit eftir Karl Ágúst Úlfsson fyrir Ríkissjónvarpið. Spurningin sem ég legg fyrir Hilmar er hvort hann óttist að fara út á markaðinn sem leikstjóri án þess að geta tekið Hafnarfjarðarleikhúsið með sér.

"Ég geri mér fulla grein fyrir því að hæfileikar eru ekki föst stærð. Þeir eru háðir umhverfinu sem maður starfar í. Hér nýt ég ákveðins trausts og hér á ég mína bandamenn. Ég er því í ákveðnu umhverfi þar sem hæfileikar mínir nýtast mjög vel. En ég er alltaf skelfingu lostinn þegar ég tek að mér nýtt verkefni. Hvort sem það er Hafnarfjarðarleikhúsið, Herranótt, Nemendaleikhúsið eða Sjónvarpið. Ég er alltaf skíthræddur vegna þess að leikhúsið er stórt fyrirbæri og ég er lítill maður. Ef ég ætla að takast á við leikhúsið verð ég að gjöra svo vel að gefa því allt sem ég á. Leiklistin er svo stórkostleg að hún á ekki annað skilið en það allra besta frá hverjum og einum. Það er krafan. Þetta er líka spurning um að lifa af. Ef ég geri ekki mitt allra besta er ekkert endilega víst að fólk vilji að ég sé að vinna í leiklist."

Nýtt leikrit

Starfssamningurinn sem menntamálaráðuneytið gerði við Hafnarfjarðarleikhúsið tók til tveggja leikára, 1996­97 og 1997­98. "Við fengum síðustu greiðslu upp í samninginn núna um áramótin og samningstímanum lýkur í sumar," segir Hilmar. Hvað gerist þá? Hættir Hafnarfjarðarleikhúsið?

"Ég vona ekki. Við höfum sótt um að samningurinn verði framlengdur til tveggja ára í viðbót. Það er jafnframt ljóst að án styrksins frá ráðuneytinu getum við ekki haldið áfram. Okkur finnst sjálfum að við séum rétt að byrja."

Nýtt leikrit er í smíðum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni rithöfundi fyrir Hafnarfjarðarleikhúsið og verður það tekið til æfinga þegar ljóst er hvernig Síðasta bænum í dalnum reiðir af. "Ég er eiginlega að vona að Hafnfirðingar og nærsveitamenn streymi í Hafnarfjarðarleikhúsið til að sjá Síðasta bæinn svo að við getum ekki frumsýnt nýja leikritið hans Þorvalds fyrr en annaðhvort seint í vor eða snemma í haust. En þessa áætlun verðum við að sjálfsögðu að endurskoða ef fjárhagsstaðan á eftir að breytast þegar núverandi samningstíma okkar við menntamálaráðuneytið lýkur."Og þar með er friðurinn úti, kaffið búið og viðtalinu lokið. Morgunblaðið/Árni Sæberg "HÆFILEIKAR eru háðir umhverfinu sem maður starfar í," segir Hilmar Jónsson, leikstjóri í Hafnarfirði.