ÞRIÐJA íslenska vínsýningin verður haldin í Perlunni um næstu helgi og er stefnt að því hún verði fastur liður annað hvert ár. Sýningin er með örlítið öðru formi en til þessa en það er Barþjónaklúbbur Íslands, sem tekið hefur að sér skipulagningu hennar. Verður Íslandsmeistarakeppni barþjóna haldin samhliða sýningunni að þessu sinni.
Þriðja vín-

sýningin

í Perlunni

Tvö ár eru liðin síðan síðasta íslenska vínsýningin var haldin. Um næstu helgi verður slík sýning hins vegar haldin í þriðja skipti. Steingrímur Sigurgeirsson segir að margt forvitnilegt verði á boðstólum á þeirri sýningu.

ÞRIÐJA íslenska vínsýningin verður haldin í Perlunni um næstu helgi og er stefnt að því hún verði fastur liður annað hvert ár. Sýningin er með örlítið öðru formi en til þessa en það er Barþjónaklúbbur Íslands, sem tekið hefur að sér skipulagningu hennar. Verður Íslandsmeistarakeppni barþjóna haldin samhliða sýningunni að þessu sinni.

Sýningin verður opnuð formlega á laugardaginn og verður opin frá klukkan 15 til 20. Dagskrá verður með svipuðu sniði og til þessa. Innflytjendur kynna vörur sínar á básum og haldnir verða fyrirlestrar og smakkanir í fundarsal Perlunnar.

Sunnudaginn 25. janúar verður sýningin opin frá klukkan 14-18 og verður Íslandsmeistaramótið í blöndun sætra kokkteila haldið klukkan 15. Íslandsmeistari verður síðan krýndur í lokakvöldverði á fimmtu hæð Perlunnar, sem hefst með fordrykk klukkan 19.30. Kokkteilkeppnin hefur verið haldin af Barþjónaklúbbnum undanfarin 34 ár en ekki áður í tengslum við sýningu af þessu tagi.

Alls verða þrettán innflutningsfyrirtæki með kynningarbása á sýningunni og einnig verða sendiráð með bása, þar sem vín frá þeirra löndum verða kynnt.

Þá munu um tveir tugir erlendra gesta frá jafnmörgum framleiðendum koma til Íslands vegna sýningarinnar og fræða sýningargesti um framleiðslu fyrirtækja sinna. Nokkrir þeirra munu jafnframt halda námskeið og fyrirlestra í tengslum við sýninguna.

Meðal þeirra sem koma má nefna fulltrúa tveggja kampavínsfyrirtækja, Caroline Dausse frá Champagne Feuillate og Christian Maille frá Veuve-Clicquot. Vínbændur í hinum katalónsku héruðum Suður-Frakklands verða einnig með fulltrúa, Emmanuel Montes frá Vignerons Catalans. Þá má nefna John Nordal frá spænska fyrirtækinu Osborne, sem framleiðir Osborne-sérrí og púrtvín auk þess að eiga fyrirtækið Montecillo, sem framleiðir rauðvín og hvítvín í Rioja. Tveir vínframleiðendur í Búrgund í Mið- Frakklandi senda fulltrúa sína, frá Bouchard Ainé kemur Stéphane Oudar og Frederic Thevenard frá Pierre André. Einnig kemur Anna Karin Liljeroth frá kaliforníska fyrirtækinu Ariel Vinyards og Mouton Baron Philippe verður einnig með mann á staðnum, Francois Philipot. Fulltrúi Ástrala að þessu sinni er John Short frá Mildara Blass, en meðal fyrirtækja er tilheyra þeirri samsteypu er hin afbragðsgóði vínframleiðandi Wolf Blass frá Suður-Ástralíu.

Þá koma einnig á sýninguna fulltrúar frá framleiðendum sterkra drykkja, t.d. Peter Martin frá koníaksfyrirtækinu Camus, Sophie Hardy frá Hardy Cognac, Michael Cunningham frá Irish Distillers, Peter Strandman frá Primalco (Finlandia o.fl.) og Luc de Casabianca frá Calvadosframleiðandanum Peré Magloire.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því fyrsta vínsýningin var haldin í Perlunni í janúar 1995. Úrval víntegunda hefur margfaldast og mikil gerjun átt sér stað hvað varðar vínáhuga.

Það má því búast við að sýningin nú verði forvitnileg og að þar verði ýmsar nýjungar kynntar auk þess sem hægt verður að rýna í framtíðarþróun markaðarins.