Egil Olsen, landsliðsþjálfari Noregs, ætlar að endurtaka leikinn á móti Brasilíu í HM Erfitt, en við getum það EGIL Olsen er eini þjálfarinn sem hefur stýrt liði til sigurs á heimsmeisturum Brasilíu síðan Suður-Ameríkumennirnir urðu heimsmeistarar 1994.


Egil Olsen, landsliðsþjálfari Noregs, ætlar að endurtaka leikinn á móti Brasilíu í HM

Erfitt, en við getum það

EGIL Olsen er eini þjálfarinn sem hefur stýrt liði til sigurs á heimsmeisturum Brasilíu síðan Suður-Ameríkumennirnir urðu heimsmeistarar 1994. Hann gerði það í Ósló í maí sem leið ­ Norðmenn unnu 4:2 ­ og þó Brasilíumenn hafi leikið skömmu eftir komuna til landsins og því verið með flugþreytu í kjölfar langs flugs yfir hafið er Olsen á því að hann geti endurtekið leikinn í úrslitakeppni Heimsmeistarakeppninnar í Frakklandi í sumar vegna þess að hann þekkir veikleika væntanlegra mótherja.

Olsen veit hvað hann syngur. Hann hefur verið landsliðs þjálfari Noregs síðan 1990 en undir hans stjórn hefur liðið leikið 79 leiki, unnið 42, gert 22 jafntefli og aðeins tapað 17 leikjum.

Vörnin ekki góð á miðjunni

Brasilía er í riðli með Noregi, Marokkó og Skotlandi en fyrsti leikur keppninnar verður á milli Brasilíu og Skotlands. Olsen kallaði saman 27 leikmenn, sem spila á Englandi, og æfðu þeir á svæði Blackburn um liðna helgi, en hann verður með lið sitt á móti á Kýpur í byrjun febrúar þar sem íslenska landsliðið verður líka á meðal þátttakenda. Hann ætlar að fá leikmennina á Englandi aftur saman síðar í vetur og hefur ákveðið fjóra æfingaleiki að auki fyrir HM ­ á móti Frökkum í Marseille 28. febrúar, á móti Belgum 25. mars, Dönum 22. apríl og Túnis 27. eða 28. maí í Molde.

"Það verður erfiðara næst en við getum gert það," sagði Olsen um sigurmöguleika Noregs á móti Brasilíu í Frakklandi. "Brasilíumenn eru sennilega með besta lið heims en það er ekki ósigrandi. Ég er hissa á því að fleiri lið hafa ekki nýtt sér veikleika Brasilíu. Varnarleikur liðsins er ekki góður á miðjunni en ég held að það hafi vanmetið okkur. Það er ein ástæða þess að við sigruðum. Ég sé liðið ekki falla úr riðlakeppninni en sá möguleiki er fyrir hendi að það tapi stigum. Ég held líka að Skotland eigi möguleika á að sigra Brasilíu í fyrsta leik keppninnar. Fyrsti leikurinn er ávallt erfiður og ég held að Skotland geti fengið eitthvað út úr þessum 90 mínútum."

Olsen sagði að Norðmenn væru á ámóta plani og Skotar en leikskipulagið væri annað. Hins vegar væri óheppni að vera í riðli með Marokkó sem væri, að sögn, besta liðið í Afríku. Hann sagði að erfiðara væri að halda utan um hlutina nú en þegar átta eða 10 leikmenn léku utan Noregs. "Leikaðferðirnar á Englandi eru svo misjafnar að þær rugla mig. "Við erum ákveðnari en ensk lið ­ höfum meiri hæfileika í sókn en styrkurinn liggur í skipulögðum varnarleik. Við fengum aðeins á okkur tvö mörk í átta leikjum í riðlakeppninni."

Solskjær spenntur

Ole Gunnar Solskjær, leikmaður Manchester United, var ekki á sama máli og Olsen varðandi áhrif mismunandi leikaðferða liðanna.

"Munurinn á leikskipulagi United og Noregs er eins og svart og hvítt. Við reynum að halda boltanum og þreyta mótherjana en Noregur leggur mikið upp úr löngum sendingum. En þetta er ekki vandamál vegna þess að sem fyrr eru 11 menn í liði, einn bolti og tvö mörk."

Norðmenn bíða spenntir eftir úrslitakeppninni en sjálfsagt er enginn eins spenntur og Solskjær, sem kjörinn var Knattspyrnumaður Noregs 1997, annað árið í röð. "Á næstu sex mánuðum ljúkum við keppni í ensku úrvalsdeildinni, Ensku bikarkeppninni, Meistaradeildinni og Heimsmeistarakeppninni og ég er aðeins 24 ára," sagði hann. "Ég hef verið hjá Manchester United í 16 mánuði og lært mikið, er orðinn meiri alhliða leikmaður. Samt vil ég gera meira og vil læra meira af þeim sem eru í kringum mig. Ég fylgist alltaf með því sem þeir gera betur en ég og reyni að líkja eftir þeim."

Verður erfitt

Craig Brown, landsliðsþjálfari Skotlands, er jarðbundinn og veit á hverju hann á von í París 10. júní. "Brasilía getur stillt upp þremur liðum því úr svo mörgum mönnum er að velja," sagði hann. "Stilla má upp liði með leikmönnum sem spila í Brasilíu. Annað lið má skipa mönnum sem leika í Evrópu og besta liðið er blanda úr þessum tveimur. Ekki þarf sérfræðing til að giska á hvaða lið byrjar í HM."

Brown sagði að Brasilíumenn ættu Carlos Alberto Parreira, þjálfaranum sem stýrði þeim til sigurs á HM 1994, mikið að þakka vegna þess að hann hefði lagt línuna sem unnið væri eftir og því væru þeir eins hættulegir og raun ber vitni ­ sameinuðu meðfædda hæfni og aga. "Brasilía hefur alltaf átt bestu leikmenn í heimi en spyrja má hvers vegna þeir náðu ekki árangri í 24 ár. Það er vegna þess að þeir léku ekki þegar þeir höfðu ekki boltann en Carlos Alberto Parreira breytti þessu. Hann setti Dunga í liðið fyrir Rai vegna þess að Dunga var agaðri og liðið varð skipulagðara. Sú skipulagning er að mestu enn ríkjandi."

Vantar leiki

Brown sagðist þurfa nokkra leiki til að sjá menn sem ættu möguleika á að komast í skoska hópinn. Leikur við Dani hefði verið ákveðinn en Danir hefðu hætt við og því þyrfti að finna aðra mótherja.

Í sambandi við leikmenn sem bönkuðu á dyrnar nefndi hann son Bobbys Goulds, landsliðsþjálfara Wales, markvörðinn Jonathan Gould hjá Celtic, en hann fæddist á Englandi og á skoska afa og ömmur. Hins vegar væri ljóst að Duncan Ferguson, miðherji Everton, vildi ekki spila fyrir Skotland. "Ég hef talað við Duncan en hann sagði að þetta væri ekkert persónulegt. Ég spurði hann hvort ákvörðunin hefði eitthvað með mig að gera og hvort viðbrögð hans yrðu önnur ef Alex Ferguson eða Kenny Dalglish bæðu hann um að spila fyrir Skotland en hann sagði að það breytti engu."