KRISTBJÖRG Kjeld var gestaleikari hjá Wolfgang Müller þann 21. desember síðastliðinn á Berliner Volkesbühne. En Müller þessi hefur vakið athygli fyrir reglulegar sýningar sínar sem hann nefnir "Wolfgang Müllers Kunst- und Meisencafé", eða Menningar- og igðukaffi Wolfgang Müllers. Þetta kvöld, sem var helgað Íslandi, naut hann aðstoðar Kristbjargar Kjeld.

Brennivín og

hákarl í BerlínKRISTBJÖRG Kjeld var gestaleikari hjá Wolfgang Müller þann 21. desember síðastliðinn á Berliner Volkesbühne. En Müller þessi hefur vakið athygli fyrir reglulegar sýningar sínar sem hann nefnir "Wolfgang Müllers Kunst- und Meisencafé", eða Menningar- og igðukaffi Wolfgang Müllers. Þetta kvöld, sem var helgað Íslandi, naut hann aðstoðar Kristbjargar Kjeld.

Wolfgang Müller lýsti því í upphafi kvöldsins hvernig drápið á síðustu geirfuglunum hafði farið fram þann 3. júní 1844 í Eldey. Síðan voru sýndar myndir frá Höfnum. En það var einmitt þar sem enski fuglafræðingurinn, prófessor Alfred Newton hitti áhöfn veiðibátsins árið 1859, þá Jón Brandsson, Sigurð Ísleifsson og Ketil Ketilsson, til að heyra frásögn þeirra af síðustu mínútunum í lífi hins útdauða fugls. Sú frásögn birtist síðan stuttu seinna í "Ibis", blaði enskra fuglavina.

Næsta atriði Müllers gekk út á annað "hvarf" en Geirfuglsins, það er hvarf Íslands af landakortinu. En fyrirtæki í Bayern hafði árið 1994 framleitt hnattlíkan þar sem Ísland vantaði. Sú frétt barst m.a. á baksíðu Tagesspiegel og þótti Íslendingum ekki skemmtilegt. Í atriðinu lék Kristbjörg Kjeld Jürgen Fehr, fulltrúa frá fyrirtækinu en Wolfgang Müller var spyrill. Fyrst léku þau atriðið á íslensku, síðan á þýsku.

Því næst var fjallað um íslenska leikhúsið. Wolfgang Müller hafði orðið sér úti um myndbandsupptöku með köflum úr hinum og þessum uppfærslum hjá Þjóðleikhúsinu. Kristbjörg Kjeld gat síðan fjallað stuttlega um uppfærslurnar.

Þá voru íslenskir jólasveinar kynntir. Síðan söng Kristbjörg "Móðir mín í kví, kví" með aðstoð píanóleikarans John Henry og flutti síðan texta úr Völuspá, sem vakti mikla lukku áhorfenda. Þá var tónlistarmyndband með Páli Óskari Hjálmtýssyni "Sjáumst aftur" sýnt, en það vildi svo heppilega til að þar birtist jólatré í mynd svona einsog til að bæta upp fyrir jólatrésleysið í salnum.

Í lokin sungu síðan nemar í íslensku í Humboldt-háskóla lög eftir Jón Leifs undir stjórn íslenskukennarans Andreas Vollmer. Kristbjörg þakkaði þeim fyrir sönginn með því að færa þeim reyktan lax sem hún hafði tekið með sér frá Íslandi. Áhorfendur fengu aftur á móti að bragða á harðfiski með smjöri og hákarli með brennivíni í lok sýningarinnar.

WOLFGANG Muller og Kristbjörg Kjeld í Berlín.

Umdeilt hnattlíkan var til umræðu og bendir einn gesta á Atlantshafið. Þar hefði Ísland átt að vera.