Í SJÓNVARPINU á laugardagskvöldið voru landslýð boðuð þau tíðindi, að nú gætu menn keypt sér gleraugu án virðisaukaskatts og tolla í nýrri gleraugnabúð á Keflavíkurflugvelli. Maður þarf bara flugmiða og getur þar með sparað sér tugþúsundir í verði gleraugna, sem maður þarf annars að kaupa af innlendum gleraugnasölum.
Er fríhafnarreksturinn í takt við jafnræðisreglur?

Halldóri Jónssyni:

Í SJÓNVARPINU á laugardagskvöldið voru landslýð boðuð þau tíðindi, að nú gætu menn keypt sér gleraugu án virðisaukaskatts og tolla í nýrri gleraugnabúð á Keflavíkurflugvelli. Maður þarf bara flugmiða og getur þar með sparað sér tugþúsundir í verði gleraugna, sem maður þarf annars að kaupa af innlendum gleraugnasölum. Það fylgdi ekki einu sinni sögunni hvort maður þarf að leggja flugið til útlanda á sig.

Auðvitað á maður svo að greiða tollinn og vaskinn þegar maður kemur inn í landið aftur með gleraugun á nefinu. Og ef maður þarf að láta þjónusta þau síðar, þá getur maður hitt tollfría gleraugnasalann annarsstaðar. ­ Jamm.

Þetta er mikil blessun fyrir landslýð allan, sem er auðvitað hundleiður á að borga þennan virðisaukaskatt. Já og okrið á brennivíninu, mar ­ Og tóbakinu, farsímunum, græjunum, - "jú neim it". Bara fara í flugstöðina, mar.

Get ég ekki fengið að setja upp borð þarna suðurfrá og fengið að selja ferðamönnum steypu án vsk? Þeir fá hana svo bara afhenta hérna heima síðar, þegar þeir þurfa á henni að halda. Er ekki líka pláss fyrir Jóa í Bónus og Stöð2 þarna?

Þegar ég var strákur, þá var svo mikil hátíð að fara til útlanda, að maður setti á sig slifs og fór í sparifötin. Fékk svo "flugvélabensín " í vélinni og ódýrt að reykja. Þá voru Íslendingar menn, lasm.

Nú er ekkert fínt lengur að fara til útlanda og liðið fer á gallabuxum án tillits til sóma ættjarðarinnar. En flugvélabensínhefðin, hún er lífseig. Ennþá virðist okkur sjálfsagt, að sigldir menn fá að kaupa sér tollfrítt brennivín og annan lúxus án greiðslu á vsk.

Skyldi þessi fríhafnarrekstur yfirleitt vera í takt við þessar jafnræðisreglur sem pólitíkusarnir eru að fjasa um við hátíðleg tækifæei. En þeir eru ekki manna minnst á ferðalögum til þess að bjarga heiminum eins og maður gat séð í áramótaskaupinu.

Er ekki bara óþarfi að byggja við flugstöðina ef við leggjum niður þessa fríhafnarsýningu? Nú eða opnum frísvæði fyrir alla? Best væri áreiðanlega fyrir þjóðina, að Ísland væri frísvæði án allra tolla og neysluskatta, sem hvort sem er stuðla bara að svindli og undanskotum. Ríkið getur sem best aflað sinna tekna á ótal aðra vegu.

HALLDÓR JÓNSSON

verkfræðingur.