KONUR eru áberandi í íslensku tónlistarlífi og mættu gjarnan láta meira að sér kveða. Rétt fyrir jól kom út diskur sem gaf fágætt tækifæri til að skoða í samhengi íslenskt kvennarokk, því á disknum Stelpurokk sem Vera gefur út, er að finna tuttugu lög sextán söngkvenna og hljómsveita.
»SPEGILL

KVENNA-

BARÁTTU

KONUR eru áberandi í íslensku tónlistarlífi og mættu gjarnan láta meira að sér kveða. Rétt fyrir jól kom út diskur sem gaf fágætt tækifæri til að skoða í samhengi íslenskt kvennarokk, því á disknum Stelpurokk sem Vera gefur út, er að finna tuttugu lög sextán söngkvenna og hljómsveita. Á Stelpurokki eru lög með Todmobile, titillag plötunnar, Grýlunum, Ellý Vilhjálms, Unun, Á túr, Kamarorghestunum, Dúkkulísunum, Sykurmolunum, Risaeðlunni, Kristínu Eysteins, Q4U, Diddu, Ótukt, Hallbjörgu Bjarnadóttur, Hljómsveit Jarþrúðar og Bergþóru Árnadóttur. Andrea Jónsdóttir hafði umsjón með Stelpurokkinu og segir að Ritnefnd Veru hafi farið þess á leit við sig að setja saman plötu helgaða íslenskum konum, hún sett saman snældu með hugmyndum og síðan vare fundað um þær. "Það má kannski deila um lagavalið á plötunni, enda er sumt þar, sem ekki er hægt að kalla rokk, en það er þá þar af annarri aðra ástæðu. Það er líka fjölmargt sem ekki er á plötunni en ætti kannski að vera þar, en það var einfaldlega ekki hægt að koma meiru á diskinn með góðu móti og þeir hefðu þurft að vera tveir eða fleiri til að koma öllu fyrir. Ég er einna ánægðust með það að á disknum er meira af nýrri tónlist en upphaflega stóð til. Eftir á að hyggja hefði safnið kannski orðið sterkara með afdráttarlausari skiptingu á milli tónlistarstefna á tveimur diskum." Andrea segir að Vera hafi orðið fimmtán ára í nóvember og þá hafi vinna við diskinn verið vel á veg komin, en hún átti grein um stelpurokk í afmælisblaði Veru. Hún segir reyndar að hún hafi ætlað sér að gera grein fyrir hverri hljómsveit sögulega og með fræðilegu ívafi í bæklingi með disknum, "en þegar búið var að setja saman textablað var orðið lítið pláss fyrir nokkuð annað". Diskurinn spannar langa sögu og Andrea segir að þegar hún hafi farið að hlusta og velja hafi henni ekki dulist að mikið hafi breyst frá því konur tóku að syngja inn á band með dægurlagasveitum, en þrátt fyrir það sé enn nokkuð í land með að þær standi körlunum fyllilega jafnfætis. "Mér finnst eins og það sé tilhneiging til að hrópa frekar húrra fyrir því sem strákarnir eru að gera en stelpurnar þurfa að hafa meira fyrir hlutunum og berjast meira fyrir viðurkenningunni. Í því stöndum við aftar en víðast í kringum okkur þar sem jafnræðið er miklu meira." Andrea segir að yrkisefnið hafi breyst mjög hjá kvennahljómsveitum og megi heyra það á disknum, til að mynda finnist eldri kvenréttindakonum eflaust sem stelpur eins og í Á túr séu dónalegar í sínum textum og stuðandi og gaman að velta fyrir sér hvernig áherslur hafi breyst þó að inntakið sé kannski það sama. Eins og getið er eru á disknum tuttugu lög sextán flytjenda og hljómsveita, en Andrea leggur áherslu á að þau séu ekki valin til þess að vera sögulegt yfirlit; "ég valdi á plötuna með tilliti til tónlistarinnar en ekki endilega sögunnar. Þrátt fyrir það reyni ég að tengja lögin saman til að spegla kvennabaráttuna þó sumar af þeim konum sem heyrist í á plötunni hafi kannski alls ekki verið kvenréttindakonur. Þessi lög voru öll spennandi á sínum tíma og jafnvel ögrandi og eru reyndar sum ögrandi enn þó önnur séu kannski orðin húsgangar." Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir Stelpurokk Andrea Jónsdóttir kynnti Stelpurokk í Hlaðvarpanum fyrir skemmstu.