NNÚ ORÐIÐ LEIKUR enginn vafi á því, að sameiginlegur gjaldmiðill Evrópusambandsríkja verður að veruleika um næstu áramót. Yfirgnæfandi líkur eru á því, að einu ESB-ríkin, sem taki ekki þátt í hinum nýja gjaldmiðli, verði Bretland, Danmörk, Svíþjóð og Grikkland. Endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin um þennan þátt málsins.
rbref NNÚ ORÐIÐ LEIKUR enginn vafi á því, að sameiginlegur gjaldmiðill Evrópusambandsríkja verður að veruleika um næstu áramót. Yfirgnæfandi líkur eru á því, að einu ESB-ríkin, sem taki ekki þátt í hinum nýja gjaldmiðli, verði Bretland, Danmörk, Svíþjóð og Grikkland. Endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin um þennan þátt málsins. Með sameiginlegum gjaldmiðli ESB-ríkja verður bylting í efnahagsmálum þeirra og allar líkur á, að evróinu fylgi nýr kraftur í viðskipta- og atvinnulífi aðildarríkjanna. Jafnframt er fyrirsjáanlegt, að hinn nýi gjaldmiðill leiðir til ákveðinna vandamála fyrir þau Evrópuríki, sem standa utan við þetta samstarf og þá ekki sízt vegna þess, að samkeppnisstaða fyrirtækja í þeim löndum verður erfiðari en áður gagnvart fyrirtækjum innan evrósvæðisins.

Hér á Íslandi hefur verið víðtæk samstaða um þá stefnu, að aðild að ESB kæmi ekki til greina að óbreyttri sjávarútvegsstefnu ESB. Morgunblaðið hefur hins vegar ítrekað varpað fram þeirri spurningu á undanförnum misserum, hvernig við getum til langframa staðið utan við evrósvæðið vegna viðskiptalegra hagsmuna okkar. Þegar Gerhard Schröder, einn af leiðtogum þýzkra jafnaðarmanna, var hér á ferð fyrir nokkru lýsti hann þeirri skoðun, að í kjölfar myntbandalags hlyti að fylgja pólitískt bandalag. Og þá má spyrja hvaða hagsmuni við Íslendingar höfum af því eða hvort það væri okkur kannski í óhag að verða með þeim hætti þátttakendur í samskiptum þjóða á meginlandi Evrópu, sem lengi hafa verið flókin og erfið.

Af þessu tilefni er ástæða til að vekja athygli á upplýsandi viðtali, sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag við Þórð Magnússon, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Eimskipafélags Íslands hf., sem varpar afar skýru ljósi á stöðu okkar gagnvart hinum sameiginlega gjaldmiðli ESB-ríkja. Viðtal þetta gefur gleggri mynd af þeim hagsmunum okkar Íslendinga, sem um er að tefla, en áður hefur komið fram.

Þórður Magnússon lýsir núverandi aðstöðu íslenzkra fyrirtækja með þessum orðum: "Íslenzk fyrirtæki ná ekki að fjármagna starfsemi sína í innlendum gjaldmiðli í hagkerfinu vegna smæðar þess. Mörg þeirra, einkum stórfyrirtæki, grípa því til þess ráðs að fjármagna sig að verulegu leyti í erlendum myntum. Þau verða því mjög háð gengissveiflum en þau reyna að vinna gegn því með virkri fjárstýringu með það að markmiði að vera óháð innbyrðis gengisbreytingum erlendra mynta. Krónan er svo lítil mynteining, að tiltölulega litlar hreyfingar á gjaldeyrismarkaðnum valda óeðlilega miklum sveiflum. Einn milljarður í nettóhreyfingu á markaði getur breytt skráningu gengisins um 0,5% til eða frá. Í júlí á síðasta ári styrktist gengið t.d. um 1,44%, í október veiktist það um 1,44% og í nóvember styrktist það á ný um 1,4%. Þótt þessar gengissveiflur séu ekki miklar í samanburði við marga aðra gjaldmiðla eru áhrif þeirra á rekstur íslenzkra fyrirtækja oft meiri en sem nemur afkomu af reglulegri starfsemi þeirra. Flest erlend fyrirtæki fjármagna sig hins vegar í sinni heimamynt og verða því ekki fyrir sambærilegum skakkaföllum vegna gengissveiflna."

Síðan lýsir Þórður Magnússon aðstöðu meðalstórra fyrirtækja og segir, að þau "... þurfa nú að fjármagna sig með innlendum lánum, sem eru 4­6 prósentustig yfir meðalvöxtum af erlendum lánum. Þessi fyrirtæki eru oft að greiða 10­12% af innlendum skammtímalánum en um 1,5­2% yfir millibankavöxtum (libor) af erlendu lánsfé. Vaxtamunur er því 4­6 prósentustig. Þetta er óviðunandi og ég hygg að draga megi úr þessum vaxtamun miðað við ríkjandi forsendur ... Þetta er sá skattur, sem við Íslendingar greiðum fyrir að vera með sjálfstætt myntkerfi, sem er jafnframt hið minnsta í heimi. Allar líkur eru á að vaxtaálag vegna óvissu, svokallað óvissuálag krónunnar, muni vaxa eftir stofnun EMU og auka enn frekar á þennan mun."

Stór fyrirtæki á íslenzkan mælikvarða þurfa skv. þessu að halda uppi sérstakri starfsemi til þess að vinna gegn áhrifum gengissveiflna á skuldastöðu þeirra í erlendri mynt en meðalstór og minni fyrirtæki borga verulega hærri vexti af lánsfé en keppinautar þeirra í nálægum löndum. Heildaráhrifunum af þessari aðstöðu lýsir Þórður Magnússon með svofelldum hætti:

"Það má færa ýmis rök fyrir því, að lág laun hérlendis megi m.a. rekja til hárra vaxta vegna sjálfstæðrar gengisskráningar krónunnar. Það er ekki viðunandi að mínu mati."

Aukin samkeppni

Í UMRÆÐUM UM EMU í Evrópulöndum hefur komið skýrt fram, að gengið er út frá því sem vísu, að samkeppni muni aukast mjög í kjölfar sameiginlegs gjaldmiðils. Vöruverð verður sýnilegt. Það blasir við öllum, ef augljós og áberandi verðmunur verður á algengum neyzluvörum á milli landa. Fyrirtæki í Frakklandi, sem selja sömu vöru og þýzk fyrirtæki en á hærra verði, reyna að laga sig að hinu lægra verði í næsta nágrenni. Slík verða áhrifin um allt evrósvæðið. Neytendur sætta sig ekki við augljósan verðmun og þau fyrirtæki, sem ekki geta keppt á þessum markaði, munu detta upp fyrir.

Það má líka búast við, að í kjölfar evrósins fylgi mikil endurskipulagning í viðskipta- og athafnalífi Evrópu. Fyrirtæki munu sameinast með einum eða öðrum hætti til þess að bæta samkeppnisstöðu sína. Gera má ráð fyrir miklum uppskiptum á fyrirtækjamarkaðnum í Evrópu á næstu árum. Það á ekki sízt við um bankana, sem missa mikinn spón úr aski sínum, þegar þeir hætta að hagnast á því að skipta gjaldmiðlum fram og til baka. Þessi staðreynd auk tæknivæðingar í bankakerfinu mun leiða til þess að starfsmönnum banka í Evrópu fækkar á næstu árum um tugi þúsunda.

Þetta þýðir að þau fyrirtæki, sem íslenzku fyrirtækin eru að keppa við í Evrópu, verða mun samkeppnishæfari á næstu árum. Á sama tíma og líkur eru á því, að vaxtamunur minnki ekki og geti jafnvel aukizt vegna evrósins, fá fyrirtækin í Evrópu nýtt forskot á keppinauta sína vegna þeirra áhrifa hins sameiginlega gjaldmiðils, sem hér hefur verið lýst. Á undanförnum árum hefur gífurleg áherzla verið lögð á að jafna samkeppnisstöðuna milli íslenzkra fyrirtækja og erlendra og það hefur ekki sízt gerzt vegna aðildar okkar að EES. Nú stöndum við frammi fyrir því, að dragast aftur úr á nýjan leik.

Hvernig eigum við að bregðast við þessari stöðu? Þegar Þórður Magnússon var spurður, hvort einhliða tenging krónunnar við EMU kæmi til greina var svar hans þetta: "Ég held, að einhliða tenging krónunnar við annan gjaldmiðil, t.d. evró, yrði ekki trúverðug við ríkjandi aðstæður. Það yrði gífurlega erfitt að verja hana í hinu frjálsa fjármagnsflæði, sem nú er ráðandi. Reynsla Hong Kong-búa er lærdómsrík að þessu leyti en þeir hafa tengt gjaldmiðil sinn, Hong Kong dollarann, einhliða við Bandaríkjadollara. Það getur reynzt þeim erfitt að halda í þessa tengingu og ráða þeir þó yfir digrum gjaldeyrisvarasjóðum. Þá óttast Norðmenn um framtíð sinnar krónu þrátt fyrir mikla olíusjóði."

En jafnframt segir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips: "Afstaða Íslendinga til ESB hlýtur að takmarka valkostina í þessum efnum en Íslendingar verða að vera óhræddir við að skoða alla kosti í gengismálum og það er brýn þörf að hraða þeirri vinnu, þannig að niðurstaða liggi fyrir árið 2000. Mér finnst eðlilegt, að Íslendingar leiti eftir einhvers konar samstarfi eða aðild að EMU en í mínum huga er það ekki valkostur að standa algerlega utan við bandalagið eftir að það kemst til framkvæmda. Mér finnst að það ætti að láta á það reyna, hvort unnt sé að ná tvíhliða samningi við bandalagið um gengismál, þótt engin fordæmi séu fyrir slíku."

Hvað næst?

ÞESSI SKÝRA greining Þórðar Magnússonar á stöðu Íslands í ljósi þess, að evróið er að verða að veruleika, ætti að verða stjórnvöldum og viðskiptalífi hvatning til að leggja stóraukna vinnu í undirbúning stefnumörkunar af okkar hálfu í þessum mikilvægu málum. Eins og kunnugt er hefur Seðlabanki Íslands gefið út skýrslu um áhrif evrósins á íslenzk efnahagsmál og áfram er unnið á vettvangi bankans að því að skoða þessa stöðu. Þá er sérstakur starfshópur starfandi á vegum forsætisráðuneytisins til þess að fjalla um áhrif evrósins á efnahags- og atvinnulíf okkar. Vaxandi umræður hafa verið á vettvangi viðskiptalífsins um þessi mál.

Alltént er ljóst, að við getum ekki látið svo sem þessi þróun skipti okkur engu. Í því viðtali, sem hér hefur verið vitnað til, hafa verið færð sterk rök fyrir því, að núverandi staða mynteiningar okkar valdi stórum fyrirtækjum erfiðleikum vegna skuldastöðu þeirra í erlendri mynt og meðalstórum og minni fyrirtækjum erfiðleikum vegna þess, að þau borga mun hærri vexti af innlendu lánsfé en keppinautar þeirra í öðrum löndum. Þetta hvort tveggja eigi ríkan þátt í því að laun eru lægri á Íslandi en í nálægum löndum.

Af þessu má sjá, að hér er um að ræða kjarnann í þeim viðfangsefnum, sem nú blasa við í efnahags- og atvinnumálum. Við höfum náð okkur á strik. Kreppan er að baki. Góðæri ríkir og hagur almennings batnar ár frá ári. Eftir sem áður er undan því kvartað, að arðsemi íslenzkra fyrirtækja sé ekki nægilega góð og launþegar spyrja aftur og aftur hvers vegna launatölur á Íslandi séu áberandi lægri en í nálægum löndum. Þótt sá samanburður sé alltaf varhugaverður m.a. vegna mismunandi skatta segir hann þó einhverja sögu.

Þetta er hins vegar flókin staða eins og að var vikið í upphafi. Sjávarútvegsstefna ESB er óviðunandi fyrir okkur og við mundum aldrei sætta okkur við þá samninga, sem norsk stjórnvöld féllust á í samningaviðræðum um aðild að ESB varðandi sjávarútveginn. Aðild að myntbandalaginu kemur ekki til greina án aðildar að ESB. Evróinu kunna líka að fylgja ókostir fyrir okkur, sem draga þarf fram í dagsljósið. Hver væri t.d. staða okkar í djúpum sveiflum við sjávarsíðuna eins og alltaf verða og við höfum leyst með þekktri aðferð, sem ekki væri kostur á með aðild að evróinu?

Viðbrögð okkar gagnvart evrósvæðinu kalla á víðtækar umræður og ítarlega könnun á því hvernig hagsmunum okkar verður bezt borgið. Um þetta hljóta ríkisstjórn og Alþingi að hafa alla forystu en hlutur viðskiptalífsins í þessum umræðum verður óhjákvæmilega einnig mikill.

"Þessi skýra greining Þórðar Magnússonar á stöðu Íslands í ljósi þess, að evróið er að verða að veruleika, ætti að verða stjórnvöldum og viðskiptalífi hvatning til að leggja stóraukna vinnu í undirbúning stefnumörkunar af okkar hálfu í þessum mikilvægu málum."