ÞAÐ ER eins og sumar plötur rati inn á öll heimili sama þó húsráðendur kunni jafnvel ekki að meta tónlist almennt. Svo var um breiðskífu þeirra félaga Pauls Simons og Arts Garfunkels, Bridge Over Troubled Water. Sú plata seldist á sínum tíma í ellefu milljónum eintaka, og það löngu áður en markaðssetning að hætti Michaels Jacksons eða Spice Girls var upp fundin.

Fágað

og

fægt Fáir hafa náð eins langt í vinsældum og þeir félagar Paul Simon og Art Garfunkel sem sungu sitt síðasta saman fyrir bráðum þrjátíu árum. Árni Matthíasson hlustaði á nýlegan safnkassa þar sem saga þeirra er rakin. ÞAÐ ER eins og sumar plötur rati inn á öll heimili sama þó húsráðendur kunni jafnvel ekki að meta tónlist almennt. Svo var um breiðskífu þeirra félaga Pauls Simons og Arts Garfunkels, Bridge Over Troubled Water. Sú plata seldist á sínum tíma í ellefu milljónum eintaka, og það löngu áður en markaðssetning að hætti Michaels Jacksons eða Spice Girls var upp fundin. Líklega geta flestir á fimmtugsaldri raulað eitthvert laganna af plötunni, hvort sem það er titillagið, the Boxer, Cecilia eða El Condor Pasa og margir kunna skífuna alla utanað. Seint á síðasta ári kom út þriggja diska kassi með safni laga þeirra félaga, óútgefinna sem útgefinna, sem gefur færi á að meta framlag þeirra. PAUL Simon og Art Garfunkel kynntust sem drengir og það var ástin á rokkinu sem leiddi þá saman. Þeir fóru snemma að fást við tónlist, Simon sem gítarleikari og lagasmiður, en Garfunkel lét sér nægja að syngja. Garfunkel hefur lýst því sem svo að þeir félagar hafi æft sig af þráhyggju, setið og horft hvor upp í annan á meðan þeir sungu til að raddirnar féllu sem best saman, en ekki var minna um vert að heima hjá Garfunkel voru til tvö segulbandstæki sem þeir nýttu við upptökutilraunir og átti eftir að koma sér vel síðar. Reyndar hafa þeir félagar báðir sagst hafa orðið helteknir af fullkomnunaráráttu frá fyrsta degi, sem skilaði vissulega prýðilegum upptökum en dró um leið úr afköstum. Ekki leið á löngu að þeir félagar voru farnir að troða upp undir nafninu Tom & Jerry og stæla Everly- bræður. Fyrsta smáskífan, Hey Schoolgirl, náði nokkrum vinsældum fyrir rétt rúmum fjörutíu árum, þegar þeir félagar voru átján ára, en þeim gekk bölvanlega að fylgja henni eftir. Svo fór að þeir slitu samstarfinu; Garfunkel ákvað að reyna fyrir sér sem sólóstjarna og Simon fór einnig að þreifa fyrir sér, tróð upp sem Jerry Landis og gekk í sveitina Tico and the Triumphs. Þegar hvorugt varð til að afla honum fjár og frama fékk hann vinnu í Brill-húsinu í New York samhliða námi og samdi lög á færibandi meðal annars með skólasystur sinni Carole King og Gerry Goffin eiginmanni hennar. Á þessum tíma var Brill-húsið aðsetur grúa lagasmiða, útsetjara og lítilla útgefenda, sem skrifuðu fyrir stúlknasveitir og söngkonur eða söngvara. Fyrsta breiðskífan Þeir Simon og Garfunkel tóku að hittast á ný í upphafi sjöunda áratugarins og Simon notaði sér aðstöðuna til að gauka að mönnum upptökum sem þeir gerðu saman um leið og hann hélt að viðkomandi þeirri tónlist sem hann var ráðinn til að selja. Á einum slíkum fundi með pótintátum Columbia- útgáfunnar sagðist Simon eiga nokkur lög og einn þeirra, Tom Wilson, var til í að hlusta. Sú hlustun bar árangur, því Simon & Garfunkel dúettinn fékk samning á staðnum og skömmu síðar voru þeir vinir komnir í hljóðver að taka upp sína fyrstu breiðskífu, Wednesday Morning, 3 A.M. Sú kom út 1964 og þótti varla nema slarkfær byrjun. Lítið var af lögum Simons og þau lög sem þeir tóku eftir aðra þótti ekki merkilega útsett eða flutt. Frumraunin varð því ekki til að auka hróður þeirra félaga og þeir nánast slitu samstarfinu enn og aftur. Paul Simon tók að venja komur sínar til Bretlands þar sem hann vann sér orð fyrir tónleikahald sem trúbadúr og tók upp breiðskifu á mettíma, The Paul Simon Songbook, en á þeirri skífu, sem aðeins var gefin út í Bretlandi, er að finna ýmis lög sem síðar áttu eftir að rata á breiðskífur þeirra félaga. Á meðan Paul Simon lék trúbadúr í Bretlandi og lærði að útsetja þjóðlagatónlist af breskum frumherjum í þeirri grein tók Tom Wilson sér það bessaleyfi að kalla í hljóðver undirleikara þá sem Bob Dylan nýtti við að hljóðrita sína fyrstu rafmagnsskífu og endurvann Sounds of Silence með þeirra liðsinni. Það var eins og við manninn mælt; lagið sló í gegn og Simon hraðaði sér heim til Bandaríkjanna að hljóðrita breiðskífu með Garfunkel til að fylgja þeim vinsældum eftir. Sú breiðskífa hét eftir laginu sem vonlegt var, og þó nokkur fljótaskrift sé á lagasmíðum og upptökum, mátti heyra að Simon hafði sitthvað í handraðanum með sér frá Bretlandi og reyndar var stór hluti af plötunni endurútsett lög af áðurnefndri sólóskífu, þar á meðal I am a Rock, sem flestir þekkja eflaust. Trúbadúr og popplagasmiður renna saman Þeir félagar tóku sér lengri tíma til að hljóðrita þriðju breiðskífuna og þar mátti heyra að þeir voru búnir að móta sérstakan stíl sem sameinaði trúbadúrinn og popplagasmiðinn; textar voru vandaðir og oft innihaldsríkir, að minnsta kosti á yfirborðinu, og tónlistin hágæðapopp, fágað og fægt. Eitt lag á þeirri plötu, Scarborough Fair, var fengið að láni í heilu lagi frá Bretlandi; breskt þjóðlag í útsetningu Martins Carthys, en burðarás plötunnar var lagasmíðar Simons, gítarleikur hans og englarödd Garfunkels. Þrátt fyrr drjúga plötusölu áttu þeir félagar erfitt með að ná til alls almennings; það voru helst háskólanemar sem kunnu að meta tónlistina, en lagasmíðar fyrir geysivinsæla kvikmynd, The Graduate, átti eftir að breyta því. Simon var þá meðal annars með lag í smíðum sem hann kallaði Mrs. Roosewelt, en því var snarlega snúið upp í Mrs. Robinson og varð geysivinsælt um allan heim 1968.

Engan gat þó rennt í grun hvað myndi á eftir fylgja, enda var þreyta komin í samstarf þeirra æskuvina, ekki síst vegna þess að Garfunkel var orðinn þreyttur á því að vera bara hjálpardekk; að fá litlu sem engu að ráða og í raun æ minna eftir því sem vinsældir þeirra félaga jukust. Þegar þeir tóku til við að hljóðrita sjöttu breiðskífu sína og um leið þá síðustu má því segja að samstarfinu hafi verið lokið ef ekki í orði þá á borði. Garfunkel tók því fengins hendi þegar honum bauðst að leika í kvikmyndinni Catch 22 og í kjölfarið ákvað Simon að leggja Simon & Garfunkel á hilluna. Það má reyndar heyra það víða á skífunni og þannig kveður hann í raun félaga sinn í lagi sem átti þó að vera um arkítektinn Frank Lloyd Wright. Sex Grammyverðlaun Lokaskífa þeirra félaga var Bridge Over Troubled Water, sem getið er í upphafi, og seldist í bílförmum um allan heim. Á plötunni rís samstarf þeirra hæst, ekki bara að lagasmíðar Simons séu vandaðri en forðum, heldur er og meira lagt í texta og Garfunkel syngur eins og eigi hann lífið að leysa. Platan sló svo rækilega í gegn að hún fékk sex Grammyverðlaun, fleiri en dæmi voru um, og eins og getið er seldist hún í ellefu milljónum eintaka á sínum tíma og hefur eflaust selst í nokkrum milljónum fram á vora daga. Þótt þeir félagar hafi opinberlega hætt 1970 þegar Bridge Over Troubled Water kom út áttu þeir eftir að koma saman við ýmis tækifæri upp frá því, ýmist þegar erfitt var í fjárhagnum hjá Garfunkel, pólitík í spilinu eða fúlgur í boði. Frægir eru tónleikar þeirra í Miðgarði í New York sem gefnir voru út snemma á níunda áratugnum og undirstrikuðu að minning þeirra félaga lifir. Art Garfunkel hefur lítið látið til sín heyra en Paul Simon átti þó eftir að gera enn betur einn síns liðs tónlistarlega, til að mynda með skífunum Graceland og Rhythm of the Saints. Ekkert verka hans hefur þó náð viðlíka hylli og það sem þeir Garfunkel gerðu saman og verður líkast til ekki farið í þeirra spor. Á kassanum sem er kveikja þessara skrifa má heyra öll helstu lög þeirra Pauls Simons og Arts Garfunkels, prufupptökur og sérkennilegar útgáfur laga, að minnsta kosti miðað við það sem menn hafa áður heyrt. Gaman er að heyra hvernig Simon reyndi framanaf iðulega að brjóta upp poppformið og skapa pólitíska tónlist og beitta, með misjöfnum árangri. Eftir því sem líður á ferilinn mýkist tónlistin og inntak texta verður óljósara og tvíræðara, hvort sem það er vegna þess að erfitt er að semja texta um ranglæti heimsins þegar maður veður í seðlum, eða einfaldlega að honum hefur þótt drengilegra að þola illrar auðnu grjótflug og örvar en taka vopn sín. Á diskunum þremur eru 58 lög, öll endurunnin eftir nýjustu tækni, þar af eitt sjaldheyrt og fimmtán óútgefin, aukinheldur sem nestor bandarískra poppskríbenta, David Fricke, skrifar lærða úttekt og skemmtilega.