Steve Alten: MEG. Bantam Books 1997. 337 síður. EINHVER mesta ófreskja sjávarins í hugum þeirra sem sóttu bíóin á áttunda áratugnum er Ókindin sem Peter Benchley skrifaði um en Steven Spielberg filmaði með feiknagóðum árangri. Nú hefur höfundur að nafni Steve Alten gert tilraun til þess að bæta um betur í sinni fyrstu skáldsögu sem hann kallar einfaldlega Meg.
ERLENDAR BÆKUR

Jónas og forsögu-

legi hákarlinn Steve Alten: MEG. Bantam Books 1997. 337 síður. EINHVER mesta ófreskja sjávarins í hugum þeirra sem sóttu bíóin á áttunda áratugnum er Ókindin sem Peter Benchley skrifaði um en Steven Spielberg filmaði með feiknagóðum árangri. Nú hefur höfundur að nafni Steve Alten gert tilraun til þess að bæta um betur í sinni fyrstu skáldsögu sem hann kallar einfaldlega Meg. Það er stytting á latneska heitinu yfir forsögulega ófreskju, Carcharodon megalodon, sem talið er að hafi verið útdauð í mörg hundruð þúsund ef ekki milljón ár en grunsemdir vakna hjá Jónasi nokkrum Taylor, steingervafræðingi og djúpsjávarkafara, um að a.m.k. eitt eintak sé eftir í Kyrrahafinu, nánar tiltekið þar sem sjórinn er dýpstur, 11 kílómetra djúpur reyndar. Megalodoninn er svona Tyrannasaurus Rex undirdjúpanna og það sem Alten gerir og oft með góðum árangri er að blanda saman því besta úr tveimur sögum sem orðið hafa að Spielbergmyndum, Ókindinni og Júragarðinum eftir Michael Crichton. Góð hugmynd Hugmyndin um risastóra ófreskju í undirdjúpunum er góð í spennusögu að ekki sé talað um kvikmyndir. Myndir eins og Júragarðurinn og nú síðast Titanic sýna að stærra er betra. Og skepnan sem Alten hefur gert að aðalsöguhetju sinni er einmitt efnileg sem tölvuteikningarskrímsli er býður uppá óendanlega möguleika á hvíta tjaldinu. Alten gerir sér ljósa grein fyrir því sjálfur. Saga hans hefst á svolitlum inngangi frá því risaeðlurnar réðu yfir jörðinni. T. Rex öslar út í sjó á eftir bráð sinni en verður fyrir árás Megalondon sem tætir hann í sig á augabragði. Hákarlar eru eins og hornsíli við hliðina á hinum forsögulega fiski. Hinn ógurlegi Megalodon er næstum því þrisvar sinnum stærri en T. Rex, tuttugu metrar að lengd og tuttugu tonn að þyngd og er óseðjandi. Alten spyr: Hver yrði útkoman ef skepna af þessu tagi synti um í Kyrrahafinu í dag? Svarið er: Mjög læsileg spennubók. Meg er fyrsta bók höfundarins og þess gætir nokkuð í persónusköpun. Karakterarnir eru óþarflega flatneskjulegir líkt og þeir hafi stokkið af síðum Alistair MacLean bókanna. Aðalpersónan, fyrir utan fiskinn, er Jónas þessi (nafnið er mjög viðeigandi eins og fram kemur í skemmtilega óvæntum endi á þessari óvenjulegu hvalfangarasögu) er maður með fortíð. Hann varð tveimur félögum sínum að bana þegar hann kafaði niður á 11 kílómetrana í Kyrrahafinu fyrir sjö árum og taldi sig sjá Megalodon og missti við það stjórn á sér. Síðan þá hefur hann helgað líf sitt því að sannfæra aðra um að möguleiki sé á að Megalodon sé enn ein af skepnum jarðar. En ferillinn er í rúst, hjónabandið er í rúst og Jónas sjálfur er hálfslappur. Aðrar persónur eru lítt áhugaverðar; millar sem langar að opna stærsta sjávardýragarð í heimi (einmitt, Júragarðurinn), ung og fögur asíumær og nokkrir sjófarendur, flestir fiskafóður. Þekkir sinn fisk Alten, sem er menntaður íþróttalæknir, tekst betur upp þegar hann lýsir skepnunni Megalodon. Hann hefur greinilega talsvert mikla þekkingu á fyrirbærinu enda kemur fram í bókarlok að hann hafi lagt stund á Meg-rannsóknir í tíu ár. Hann tilgreinir eina heimild og líklega þá bestu fyrir þá sem vilja kynna sér fiskinn nánar, "Great White Shark" eftir þá Richard Ellis og John E. McCosker. Höfundur fer með lesanda sinn úr einni blóðugri árásinni í aðra þar sem fiskurinn stóri gomsar í sig allt kvikt og tekst jafnvel að bíta í sundur kafbát bandaríska sjóhersins. Öllu er því lýst með feiknum miklum og grípur lesanda sem opinn er fyrir furðum og ógn sjávarins. Alten tekst býsna vel að skapa spennu með fiskinum og gera úr honum ógnvald. Nú er bara að bíða eftir kvikmyndinni. Getur ekki orðið langt í hana. Einhver ætti að hringja í Cameron. Arnaldur Indriðason STEVEN Alten tekst býsna vel að skapa spennu með fiskinum og gera úr honum ógnvald.